Þíða

Ég er þess viss að enginn maður sér
þær annarlegu kenndir sem þú vekur.
Þú kveikir líf og ljós í hjarta mér,
um leið þú grundvöll tilverunnar skekur.

Við blíðu sólar bráðnar hem af tjörn
svo bláir yfir frerann, sál mín kalin
og ef sá klaki er eina hjartans vörn
er ógn í hverjum sólargeisla falin.

Þó finnst mér eins og flæði mér um sál
fögnuður, sem birti af degi nýjum.
Ég sökkva vildi í djúpt í draumsins tál
og drukkna þar á sumarmorgni hlýjum.

Ég trúi ekki á ást við fyrstu sýn
og engum meir en mátulega treysti.
Og sjálfsagt var það bara bilun mín
sem brosið þitt úr klakaböndum leysti.

Share to Facebook