Sagan af drengnum sem fyllti æðar mínar af endorfíni

Ég sá hann fyrst á regnvotum vormorgni. Gróðurilmurinn var svo sterkur að ég ákvað að nota ekki ilmvatn til að móðga ekki náttúruna. Það væri nefnilega eins og að mæta sem gestur í brúðkaup, í kjól sem líkist brúðarkjól og svoleiðis gerir maður ekki. Það var líka logn svo regnið streymdi beint niður og það gerist nú ekki á hverjum degi í henni Reykjavík. Þú skilur auðvitað að við slíkar aðstæður vaxa óskablóm.

Ég var semsagt á leið í skólann og þar sem ég gekk í áttina að Árnagarði tók ég eftir mörgum ánamöðkum sem skriðu upp um rifurnar milli gangstéttarhellnanna. Ég hugsaði með mér að gangstéttin væri ekki góður staður fyrir svo varnarlaus dýr. Fólk myndi ekki hika við að stíga á ormana og krakkar myndu hjóla yfir þá. Þeir sem tækju eftir þeim á annað borð myndu kannski horfa á helminginn af sundurkrömdum maðki skríða og hlykkjast og finnast hann sérkennilegt og skemmtilegt fyrirbæri. Ég beygði mig niður til að bjarga ánamöðkunum og það var einmitt þá sem ég sá hann. Ég sá hann skríða upp um rifu í stéttinni en hann hlykkjaðist ekki upp á helluna heldur reis upp og teygði úr sér og ég sá að þetta var alls ekki ánamaðkur heldur unglingsdrengur með ofurfíngerðan hárdún fyrir ofan efrivörina og kringlótt jarðarbrún augu. Vatnið rann úr hári hans niður á græna treyjuna. Hann var svo fallegur að æðar mínar fylltust af endorfíni og ég vissi að hann var blóm í dulargervi, kominn til að uppfylla óskir mínar.

“Ormur” sagði hann og tók í höndina á mér. Ég kynnti mig líka en vildi ekki sleppa höndinni því hún var mjúk og hlý og ekkert eins og á ormi.
“Ég skal lesa í lófann á þér” sagði ég til að þurfa ekki að sleppa höndinni. Ég leit í lófa hans en sá mér til undrunar að þar voru engar línur.
“Þær koma seinna” sagði hann. “Fyrst þarf ég að rispa á mér hendurnar á þyrnirunna og skríða inn um gluggann þinn.”

Það vaxa þyrnirunnar í garðinum mínum, svo ég leiddi hann þangað. Hann rispaði lófa sína þegar hann braust í gegnum þyrnigerðið. Hann komst í gegn og skreið inn um gluggann en ég var ekki þar, því ég stóð ennþá fyrir utan og fylgdist með honum.
Hann kom út aftur með blóðrisa hendur og grátandi augu og ég horfði á hann breytast í orm, ánamark sem hlykkjaðist í moldinni undir þyrnirunnanum. Ég varð sár því hann hafði enn ekki uppfyllt óskir mínar svo ég tók hann upp og reyndi að tala við hann. Hann vafði sér utan um fingur minn, þar til ég sleppti honum og hann hvarf niður í moldina.

Það var ofursmá hola í moldinni og mig langaði að elta hann, drenginn sem fyllti æðar mínar af enrorfíni. Samt skyldi ég loksins til fullnustu að veröldin var að undirbúa brúðkaup og að ég yrði aðeins gestur í því brúðkaupi.

Þegar rignir leita ég að honum, í garðinum mínum og á Háskólalóðinni. Ég á ekki lengur þrjár óskir, aðeins eina. Aðeins þessa einu, að enginn sígi á hann og skipti honum í tvo hluta sem hlykkjast eftir stéttinni og hverfa, hvor sína leið.

Share to Facebook