Saga handa manninum sem veit ekki í hvorn fótinn hann á að stíga

Einu sinni var maður sem vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga. Hann kunni ekki að ganga, steig bara í hægri fót og vinstri til skiptis. Þannig hafði hann komið sér upp þægilegri rugghreyfingu sem var svo sefandi að enda þótt hann gæti ekki gengið, var hann eiginlega ekkert sorgmæddur.

Maðurinn bjó einn í rúmgóðum kæliskáp með góðri flúorlýsingu og þar hékk hann tvístígandi daginn út og daginn inn. Þar sem hann kunni ekki að ganga fór hann nánast aldrei út úr skápnum, ekki nema einhver sækti hann og leiddi hann út fyrir. Reyndar líkaði manninum vel að vera leiddur út úr kæliskápnum því það var fremur tilbreytingarlaust til lengdar að standa þar og tvístíga allan daginn. Auk þess var honum stundum dálítið kalt og þá þurfti hann að tvístíga svo hratt að honum varð óglatt.

Þótt lífið í kæliskápnum væri svolítið einhæft var maðurinn samt sáttur við það. Þessi gríðarstóri kæliskápur var nefnilega fullur af gráðosti sem hann gat gúllað í sig að vild sinni. Það gerði ísskápsdvölina svo ennþá þægilegri að þar sem stór hluti af ostinum var orðinn illa kæstur vildi hann enginn annar og þessvegna þurfti maðurinn aldrei að spyrja; hver tók ostinn minn. Þið sjáið því að þetta var í rauninni gott líf. Stundum fannst honum hann næstum því hamingjusamur.

Samt var maðurinn ekki fullkomlega viss um hamingju sína. Stundum á vorin greip hann eitthvert undarlegt eirðarleysi, svona eins og hann langaði í sígarettu, eða meiri gráðost, eða kannski langaði hann að vera hjá konu. Jú, líklega var það það. Líklega vantaði hann bara konu. Mjúka konu sem bragðaðist eins og gráðostur. Þegar maðurinn varð svona eirðarlaus, reykti hann margar sígarettur á meðan hann tvísté. Ef þægileg rugghreyfingin náði ekki að hugga hann, átti hann það til að opna kæliskápinn og líta aðeins út fyrir til að gá hvort hann sæi nokkra konu. Hann sá enga. Þá fékk maðurinn sér meiri gráðost og hélt áfram að tvístíga.

Kvöld nokkurt einmitt þegar maðurinn stóð í vinstri fótinn og var önnum kafinn við að flytja þungann yfir á þann hægri, opnuðust dyrnar á kæliskápnum og kona nokkur steðjaði inn. Hún sagði manninum að hún væri álfadrottningin og að hún skyldi uppfylla þrjár heitustu óskir hans ef hann í staðinn fylgdi henni hvert sem hún vildi eina nótt. Þetta fannst manninum hið besta boð og hann var ekki lengi að óska sér. Fyrsta óskin var sú að hann fengi stærri kæliskáp til umráða. Helst með klakavél af því að það þótti honum flott. Næst óskaði hann sér þess að hann fengi meiri gráðost, já hann óskaði þess að hann fengi gráðostabirgðir sem myndu endast honum alla ævina. Þriðja óskin var ofurlítið erfiðari. Átti hann að óska sér þess að einhver kona vildi flytja inn í ísskápinn til hans? Eða gat það ekki orðið bölvað vesen? Kannski ætti hann frekar að óska þess að konur ættu oftar leið fram hjá skápnum hans svo hann ætti frekar kost á að hitta þær ef honum hentaði. Hann hugsaði sig um dálitla stund en valdi svo fyrri kostinn. Semsé að til hans flytti kona sem væri engin hóra, heldur falleg og mjúk og hlý og lyktaði dálítið líkt og gráðostur.

Álfkonan horfði angdofa á manninn. Hún sagði ekki orð, heldur leiddi hann út úr kæliskápnum. Þá varð manninum hlýtt og það fannst honum skrýtið því hann var alls ekki vanur því. Álfkonan sagði honum að óskirnar yrðu uppfylltar næsta dag en að þessa nótt yrði hann að fylgja henni eins og áður var um samið. Svo sló hún hann blindu og hann fann hvernig hún leiddi hann áfram, yfir götuna og niður bratta, bratta brekku, án þess að hann sæi neitt, án þess að hann hefði hugmynd um hvert hann var að fara. Samt var hann ekki hræddur því hann vissi að hún myndi leiða hann. þegar hann fékk sjónina aftur, var hann staddur inni í álfaborg. Nánar tiltekið í dyngju drottningarinnar. Þar var undarlega hlýtt. Þar logaði ljós á kerti. Þar var enginn gráðostur en hún hellti ofurlitu rauðvíni í glas og bauð honum að drekka. Hann þáði það og var hissa á að því að sakna ekki alls gráðostsins sem beið hans heima í kæliskápnum bjarta og góða.

-Þú getur fengið óskirnar þínar uppfylltar ef þú vilt en þú hefur ennþá tækifæri til að skipta um skoðun og ég verð að segja að mér þykir þú nýta þær illa á þennan hátt. sagði álfadrottningin. Maðurinn hugsaði sig um andartak en hann var henni ósammála. hvað í ósköpunum ætti hann svosem að vilja annað í lífinu? Álfkonan horfði þreytulega á hann. Líkt og hann væri heimskur skólakrakki en ekki fullorðinn maður sem átti sinn eigin kæliskáp.

-Það eru bara litlar mýs sem sætta sig við að búa í kæliskáp og lifa á mygluosti einum saman. Hefur þér ekkert dottið í hug að óska eftir tækifæri til að komast út úr skápnum? Hefur ekkert flögrað að þér að það kunni að vera til eitthvað eftirsóknarverðara í veröldinni en gráðostur? Kannski camenbert, eða jafnvel ostur sem er ekki farinn að mygla? Kannski bara lambakjöt, eða fiskur, kannski súkkulaðikaka eða jafnvel græmeti?

Maðurinn hugsaði sig um. Hann var ekki lengur viss um að honum liði vel hjá þessari álfkonu sem spurði óþægilegra spurninga og dró hann með sér burt frá kæliskápnum, inn í álfaborg þar sem bæði lýsingin og hitastigið var framandlegt. Hann viðurkenndi samt að lokum, dræmlega þó, að eitthvað af þessu kynni að hafa hvarflað að honum. Það væri bara svo tilgangslaust að láta sig dreyma slíka vitleysu, því þegar allt kæmi til alls, þá kynni hann ekki að ganga.

Álfkonan sagði honum að líklega væri hann að mikla vandann fyrir sér. Í raun væri hreint ekki svo erfitt að ganga. Galdurinn fælist í raun ekki í öðru en því að setja annan fótinn fram fyrir hinn og fylgja honum eftir með eigin þunga.

-Ég veit það, sagði maðurinn, því ég ekkert heimskur þótt ég kunni ekki að ganga. Málið er bara að einu sinni endur fyrir löngu ætlaði ég að prófa að ganga. Ég lyfti öðrum fætinum og setti hann fram fyrir hinn. En um leið og ég ætlaði að flytja líkamsþungann yfir á fremri fótinn, missti ég jafnvægið og datt. Þessvegna get ég ekki gengið, ég dett bara ef ég reyni það.

Þetta þótti álfkonunni sorgleg saga. Hún stóð upp og stakk tappanum í rauðvínsflöskuna, sló manninn blindu og leiddi hann gegnum völundarhús álfheima, allaleið til lækningaálfsins sem bjó í öðrum hluta borgarinnar. Hún sagði lækningaálfinnum frá aðstæðum mannsins og bað hann um að líta á fætur mannsins, athuga hjá honum jafnvægisskynið og kenna honum að ganga.

Lækningaálfurinn kannaði ekki jafnvægisskyn mannsins og hann skrifaði heldur ekki upp á neina töframixtúru til að lækna hann. Hann þagði bara lengi og lét gleraugun síga niður á nef. Hann lyfti brúnum og horfði á manninn yfir gleraugun. Svo dæsti hann áður en hann kvað upp úrskurð sinn.

-Til þess að læra að ganga er tvennt sem þú verður að gera. Þú verður að borða eitthvað annað en bara endalausan gráðost. Gráðostur er góður svo langt sem það nær og myglan varnar vissulega sjúkdómum en fólk sem lifir bara á einni fæðutegund verður alltaf veikburða á endanum. Í öðru lagi verður þú bara að láta þig hafa það þótt þú dettir í fyrstu skiptin sem þú reynir. Það gera allir. Það er hluti af ferlinu. Sá sem þorir ekki að meiða sig lærir aldrei að ganga og sá sem kann ekki að ganga lærir aldrei að takast á við áfallið sem fylgir þvi að meiða sig. Það er ekkert að líkama þínum, það er ekkert athugavert við jafnvægisskynið þitt, þú bara þarft að koma þér út úr kæliskápnum og læra að ganga.

Maðurinn sem vissi ekki í hvorn fótinn hann átti að stíga stóð upp og hóf sitt taktbundna rugg,

-Ég gæti líklega lært það, sagði hann, en vandamálið er bara að þar sem ég hef aldrei gengið, veit ég ekki hvort ég er réttfættur eða örvfættu. Ég hreinlega veit ekki í hvorn fótinn ég á að stíga.
-Þú kemst að því góði minn
, sagði lækningaálfurinn. Um leið og þú lærir að setja annan fótinn fram fyrir hinn, svo þú komist hjálparlaust út úr kæliskápnum, muntu finna sjálfur hvor fóturinn er sterkari.

Maðurinn leit nú á álfadrottninguna. Að vísu var hann ekkert viss um að sig langaði að fara mjög langt frá kæliskápnum sínum rúmgóða og bjarta eða lifa á einhverju öðru en gráðosti en á þessari stundu allavega, fannst honum eitthvað eftirsóknarvert við að eiga valkosti. Líklega væri þetta þrátt fyrir allt tækifæri lífs hans og hann þyrfti svosem ekkert að spígspora um allar jarðir frekar en hann vildi þótt hann gæti það ef til kæmi.

-Ég held að það sé rétt hjá þér að ég ætti kannski að nýta óskirnar betur. Ég ætla frekar að óska þess að ég kunni að ganga, sagði hann.

Þá leit álfkonan á hann döpur á svip.

-Elsku ógæfusama mannvera, sagði hún, ég er álfur en ekki senditík. Ég uppfylli óskir en vinn ekki vinnuna fyrir letihauga og gungur. Allt sem þú óskar þér geturðu fengið, nema auðvitað það sem þú getur orðið þér úti um af sjálfdáðum. Lærðu nú bara að ganga. Byrjaðu á því að smakka eitthvað annað en þennan endalausa blámygluost sem enginn hefur áhuga á að ná frá þér. Settu svo annan fótinn fram fyrir hinn og stattu upp og reyndu aftur þegar þú meiðir þig. þegar þú ert farinn að ganga kem ég aftur og þá skal ég uppfylla óskirnar þínar. Allar þrjár, jafnvel fleiri. En þó get ég sagt þér að það er óvíst að þú þarfnist þess. Um leið og þú ert búinn að læra að ganga geturðu sjálfur orðið þér úti um stærri kæliskáp og meiri ost. Jafnvel slikimjúka gráðostakonu ef það er það sem þú vilt. Ef það er það sem þú vilt. Ef það er það sem þú vilt…

Eftir á vissi maðurinn ekki almennilega hvað hafði gerst. Hann mundi ekki hvernig hann komst heim aftur. Vissi bara að allt í einu stóð hann aftur í kæliskápnum, horfði á hillurnar sneisafullar af misjafnlega kæstum gráðosti og vissi ekki alveg í hvorn fótinn hann átti að stíga.

Share to Facebook