Lausn

1. Jakob

Víólan hefur vitund. Hún skynjar það sem býr í djúpinu og hún neyðir það til að brjótast fram. Djúpið býr yfir hundrað hættum. Þar býr skelfingin, þar býr ofsinn, þar býr líka ástin og fegurðin. Djúpið er ógnvænlegt. Ég skelfist það. Ég skelfist það vegna þess að ég ræð ekki við það. Ég næ ekki fram því sem best á við hverju sinni, ég get heldur ekki haldið því í skefjum þegar víólan ákveður annað. Ég óttast djúpið því ég ræð ekki við það; ég hata víóluna, því hún knýr það fram.

Sumir segja að ég sé upprennandi snillingur en það er þvæla. Ég spila ekki á víóluna af því ég sé að stefna hátt eða af því að mér þyki það skemmtilegt. Ég spila vegna þess að ég kemst ekki hjá því. Síðan ég var lítill drengur hef ég hatað víóluandskotann í fullkominni einlægni og þó get ég ekki án hennar verið. Meðan önnur börn léku síðastaleik í götunni heima, sat ég inni og slóst við víóluna, reyndi að yfirbuga hana, beygja hana undir vilja minn en hún var alltaf sterkari en ég. Fóstra mín var vön að segja að ég væri of ánægður með sjálfan mig til að nenna að umgangast önnur börn en í rauninni langaði mig út. Langaði að hlaupa og klukka og sparka bolta, gera allt þetta sem venjuleg börn gera, vera venjulegt barn.

En ég komst ekki út. Fékk aldrei tíma til að komast inn í hópinn. Mér fannst ég knúinn af einhverju ógurlegu afli til að halda áfram, klukkustund eftir klukkustund, dag eftir dag. Ég var kallaður „snillingur“ af því að víólan gaf frá sér hljóð sem öðrum tókst ekki að ná úr henni og af því að fólk hélt að ég hefði ekki áhuga á neinu öðru. En markmið mitt var þá og er enn og verður alltaf, aðeins það að fá víóluna til að gegna mér. Fá hana til að spila það sem hugur minn ákveður, yfirstíga þetta ofurríki djúpsins. Hún vildi ekki láta að vilja mínum og ég hataði hana fyrir það. Stundum þráði ég að ráðast á hana með offorsi, brjóta hana í smáflísar og kveikja svo í henni. Samt grét ég þegar hún var tekin frá mér og mér skipað í skólann eða í rúmið. Hvert lífs míns andartak hefur verið þrungið af þessari togstreitu, ég hef þráð hana og hatað hana í senn og ég veit að ég mun engan frið öðlast fyrr en ég hef náð tökum á henni, beygt hana undir vilja minn.

2. Draumur

Sólin skín. Grasið grænt og fuglarnir syngja. Himininn blár og hlý gola og gulir fíflar og kisa að ganga hægt eftir stígnum heim að húsinu. Í grasinu liggur höfuð ungbarnsins.

Rautt.

Litli drengurinn tekur sveig fram hjá höfði barnsins og hleypur til konunnar sem situr á veröndinni, hún er ólétt og klædd stórri, víðri mussu. Og hún teygir hendur sínar í átt til litla drengsins. Neglur hennar taka að spretta fram og þær verða lengri og lengri, sjáöldur hennar þenjast út og verða hvít, hár hennar tekur að vaxa og vaxa, flæðir niður herðar hennar, ljóst með grænni slikju. Neglur hennar nálgast litla drenginn, meir og meir og rauður munnur hennar hlær, lágt og ógnandi; „sástu höfuð systur þinnar í grasinu?“

Og neglur hennar snerta háls litla drengsins og augu hennar -hvít. Hár hennar vex áfram og ég sé höfuð hans hverfa undir allt þetta hár og sé mussuna, flakandi frá brjósti hennar. Og þá veit ég að þetta er mamma og að litli drengurinn er ég.

Skelfingin nístir inn að beini. Ég hrópa í angist minni „slepptu mér!“ Samt finn ég neglur hennar rífa háls minn og hárið er svo þykkt að ég get ekki andað. Sé það þykkt og korngult hylja andlit mitt.

Sárt.

Ég reyni að horfa niður. Hendur mömmu eru ógnarstórar. Ég horfi niður, horfi á nakin brjóst hennar, neglur hennar læsast æ fastar í háls minn og ég finn að hún er að slíta höfuðið af mér. Finn nakið brjóst hennar snerta andlit mitt

-og ég bít.

Undarlegt er það að vakna af martröð. Þá er manni kalt, svo kalt að jafnvel beinin virðast frosin. Og maður er líka máttlaus, getur varla risið upp og koddaverið vott af köldum svita.

Ég segi við sjálfan mig; „bara draumur Jakob, bara draumur“ og reyni að halda aftur af hönd minni sem ósjálfrátt teygir sig eftir víólunni. Segi aftur, „bara draumur“ en veit að það er lygi. Djúpið veit að það er lygi, það er enginn draumur heldur skelfingin sjálf og víólan knýr hana fram.

3. Háskinn

„Þú ert lítilmenni“ segir Erla. Jakob svarar ekki. Hún heldur áfram: „Það er virkilega lítilmótlegt að snúa sér frá konu um leið og því er lokið og það til þess að fara að djöflast á þessum fiðlufjanda. Og með slíkum óhljóðum í þokkabót. Ef það væri nú eitthvað fallegt, eitthvað rómantískt… í alvöru talað Jakob, þetta hljómar eins og þú sért að murka lífið úr einhverju kvikindi.“

„Erla þegiðu, gerðu það þegiðu, þú veist að ég ræð ekki við þetta“ segir Jakob.

Erla rís upp, reið. „Þú elskar þennan fiðluandskota en ekki mig. Þú sleppir henni ekki einu sinni rétt á meðan við elskumst. Tekurðu hana líka með þér í bað?“

Jakob hefur lagt hljóðfærið frá sér. Hann stendur við gluggann, getur ekki fengið sig til að horfa beint framan í Erlu. „Nei, ekki í bað. Hún þolir ekki raka.“

Erla fer fram úr rúminu. „Þetta er bilun! Í alvöru Jakob, ég held þú sért ástfanginn af helvítis fiðlunni. Þetta getur ekki gengið svona. Þetta er ekki annað en dauður hlutur Jakob, þú mátt ekki fórna öllu fyrir hana.“ Jakob finnur reiðina blossa upp innra með sér. Hann langar að spila en lætur það ekki eftir sér. Hann svarar;

„Þetta er víóla en ekki fiðla, hún er lifandi og ég hef einkarétt á því að tala illa um hana.“ Erla dæsir: „Jakob. Þú ættir kannski að leita til sálfræðings. Þetta er ekki venjuleg þráhyggja, heldur eitthvað verra. Það er ekki eðlilegt að vera ástfanginn af dauðum hlut.“

Hann ákveður að gera eina tilraun enn til að útskýra samband sitt við víóluna fyrir Erlu.

„Ég er ekki ástfanginn af henni Erla. Ég vildi að ég gæti orðið það. Mig langar til að sættast við hana en hún vill ekki það sama og ég og hún er sterkari. Þetta er ekki ást, heldur ofbeldi. Hlustaðu bara!“ Hann bregður boganum á stenginn.

Stríðir tónar.

Háir. hærri!

Lágir. hærri

Snöggir-trylltir-stuttir-l a n g i r, hærri

Erla hrópar á hann og biður hann að hætta. Hann leggur víóluna aftur frá sér og horfir á hana tína á sig spjarirnar. Furðulega ókvenlegar flíkur, sérhannaðar fyrir kvenfólk, hugsar hann og horfir á hana toga nælonsokkabuxurnar upp um sig.

Hann þegir lengi en að lokum segir hann:

„Erla. Ég veit ekki af hverju ég er svona en ég verð að spila. Ég verð að gera það Erla mín, vegna þess að mig langar svo óstjórnlega til að slá þig.“

 

4. Jakob

Sumir segja að ég hati kvenfólk en það er ekki rétt. Ég kann venjulega fremur vel við konur. Hins vegar kæri ég mig ekki um að bindast þeim, ég vil vera frjáls. Mér finnst gott að vakna einn. Ég vil gjarnan byrja daginn á því að þegja. Vil ekki hafa hjá mér einhverja konu sem krefst þess að ég tali við sig, vil fá að slást við víóluna mína í friði.

Hins vegar hef ég gaman af konum. Mér þykja þær fallegar. Reyndar get ég orðið alveg óskaplega hrifinn af þeim, svona í einhvern tíma. Ég ræð við konur. Ég get leikið mér að því að seiða þær til mín aðeins með því að horfa á þær. Og stundum geri ég það. Mér finnst gaman að finna hvað ég ræð vel við þær, þess vegna leik ég mér að því að láta þær koma sjálfar. Þó er ég ekki miskunnarlaus, ég myndi aldrei leika mér að því að kvelja konu, nei, slíkt legg ég mig ekki niður við. Ég hef það fyrir vana að láta konu algerlega eiga sig ef hún horfir á mig stórum hundslegum augum, eins og sumum þeirra hættir svo til. En já, ég viðurkenni það -ég leik mér á öruggum svæðum. Ég hef aldrei borið mig eftir konu að fyrra bragði og þó er það alltaf ég sem vel þær.

Já, ég hef gaman af konum en þær nægja mér ekki. Konur eru alltof auðveldar viðfangs fyrir minn smekk. Það krefst svo lítillar hugvitssemi að heilla þær og það er svo einfalt mál að losna við þær aftur.

Ég er feginn að ég á ekki konu. Þó er ég ennþá fegnari að eiga ekki börn. Ég held að ég gæti ekki verið góður við krakka. Ekki svona til lengdar. Satt að segja leiðast mér börn. Auk þess veit ég ekkert væmnara en kvenmann kvakandi yfir krakka, nema ef vera skyldi karlmaður hjalandi við barn, það er fátt sem slær því út. Nei, kona og krakki, það er sko áreiðanlega ekkert fyrir minn smekk.

Samt hef ég einu sinni haldið á svona barni …

5. Háskinn

Fyrst allt er eins og það á að vera, hlýtur hann að heimsækja Erlu og Brynjar. Skrýtið að hugsa sér þau saman. Og barnið. Litla stúlkan sofandi í vöggunni, svo ótrúlega lítil og svolítið rauð í framan. Stelpan grenjar og Erla flettir frá sér fyrir framan hann til að gefa henni brjóst. Jakob fer hjá sér, enda þótt hann hafi séð þessi brjóst hundrað sinnum áður, eða var það sjö sinnum? Hann man ekki hvort. Þegar dyrabjallan hringir, setur Erla barnið í fang hans og fer fram til að opna. Og skelfingin grípur Jakob. Hann hefur aldrei áður haldið á svona kríli. Ekki síðan…

Hann finnur barnið bifast í fangi sér, situr stjarfur og þorir ekki að hreyfa sig, getur ekki hreyft sig. Erla og systir hennar standa fyrir framan hann og hlæja. Þær standa þarna og hlæja að honum, hlæja að skelfingu hans, vanmætti hans. Hann langar til að leggja barnið frá sér en er sem frosinn.

Og allt í einu er Brynjar kominn. Hann tekur barnið af honum og leggur það í vögguna og enda þótt Jakob sé dauðfeginn að losna við það gremst honum því hann veit að þau hafa öll séð öryggisleysi hans og vanmátt gagnvart þessu krakkakvikindi. Brynjar er ævareiður. Hann tekur um axlir Erlu og hristir hana, rödd hans eins og hann viti ekki hvort hann eigi fremur að öskra eða gráta; „Hvað ertu eiginlega að reyna að gera manneskja, hefurðu enga sál?“ Og hann ýtir Erlu út úr stofunni, systir hennar er þegar farin, og lokar.

Jakob segir; „slappaðu af maður, voðaleg læti eru í þér“ en Brynjar hvæsir; „Skyldi fyrirfinnast í heiminum miskunnarlausara kvikindi en konan?“ Jakob vill ekki hugsa um að sama og Brynjar. Hefði aldrei átt að segja Erlu frá því. Hún hefur auðvitað blaðrað í Brynjar, það er augljóst. Hann svarar; „nei, slíkt kvikindi er ekki til en það er óþarfi að vera að æsa sig yfir því. Þú gerir alltaf úlfalda úr mýflugu Brynjar.“

Brynjar tekur litlu stúlkuna upp úr vöggunni og sest hjá honum. „Þetta er normalt. Ég var sjálfur dálítið hræddur við hana fyrst.“ Jakob langar að æla. Hann gýtur augunum á krógann sem snöggvast en langar ekki að horfa á hann, vill komast út.

„Sjáðu þessar litlu hendur. Hún hefur hendurnar þínar“ segir Brynjar. Það kemur óþægilega við Jakob.

„Heilsaðu Jakob, hann lagði til eina frumu í þig“ segir Brynjar við stelpuna og réttir örsmáa hönd hennar til Jakobs. Jakob réttir henni einn fingur og hún grípur um hann, ótrúlegt hvað svona lítið kríli getur gripið fast.

„Viltu halda á henni?“ spyr Brynjar. Og Jakob finnur eitthvað ótrúlega mjúkt og hlýtt ryðjast fram úr djúpinu.

Hann losar fingurinn úr greip barnsins og flýtir sér burt.

 

6. Djúpið

Drengurinn hefur heyrt á tal móðursystra sinna. Þær eru að skreyta tertur í eldhúsinu og vita ekki að hann situr himumegin við þilið. Samt tala þær lágt. Síðustu tvo daga hafa allir talað lágt. Heyrir skrýtin orð. „Taugaáfall“ og „harmleikur“. Jakob veit ekki alveg hvað þessi orð merkja en hann veit að þau tengjast því. Barninu. Litla barninu í hvíta kassanum. Og líka því að mamma fór á spítalann.

Hafði ekki ætlað að missa barnið. Það var hált. Smaug sjálft úr örmum hans. Ætlaði ekki að gera neitt illt. Ætlaði bara að hugga litla barnið sem grét í vagninum.

Svo er mamma komin. Æpir. Og hann finnur hendur hennar á hálsinum. Langar neglurnar strjúkast við hnakkann. Augu hennar svo stór, sjáöldrin þanin. Hróp hennar smýgur í gegnum hann;

„höfuð systur þinnar!“

Neglur mömmu langar og hvassar, úfið hár hennar snertir andlit hans. Lítur niður, blússan fráhneppt. Sér brjóst hennar. Hendur hennar á hnakka hans. Alveg að kafna. Brjóst hennar…

-reynir að bíta.

Jakob hlustar ekki lengur á frænkur sínar. Veit að eitthvað hræðilegt er að gerast innra með honum. Hann finnur djúp sitt vakna, vill gera eitthvað. Öskra! Berja! Skemma! Strax!.

Hann fer inn í stofuna. Víólan liggur á borðinu. Hönd hans tekur víóluna. Hann gerir það ekki sjálfur, það er djúpið sem gerir það. Hönd hans hefur víóluna á loft en áður en hún hittir borðið kemur önnur hönd og grípur. Hönd pabba. Pabbi tekur víóluna af honum. Hann horfir á höndina, bíður þess að sjá hana koma fljúgandi á móti sér, viðbúinn höggi.

En höndin stoppar. Rödd pabba er ekki reið og æst. Hún er lág og róleg. Stórar hendur hans og sterkar draga hann til sín, armar hans umlykja hann. „Þú mátt aldrei snerta víóluna mína án þess að fá leyfi fyrst Jakob, aldrei!“ Rödd hans er ákveðin en hlý. Jakob hallar sér að brjósti hans. „Mig langar svo mikið að skemma hana. Hún er ljót“ segir hann og grætur. Svo situr hann í fangi föður síns. Pabbi heldur á víólunni Jakob á boganum. Pabbi segir: „Jakob. Mamma kemur ekki heim af spítalanum. Alla vega ekki nærri strax. Hún týndist Jakob. Hún sökk niður í djúpið í sér og nú ratar hún ekki út úr því aftur. Nú getur hún bara verið reið eða hrædd eða alltof kát, en ekki bara venjuleg eins og fólk á að vera. Djúpið er hættulegt Jakob. Það gerir fólk veikt ef það fær að ráða of miklu. Djúpið lætur mann hlæja og gráta í stað þess að bregðast við af skynsemi. Skilurðu hvað ég á við?“

„Nei“ segir Jakob.

„Það sem ég á við Jakob, er að þegar þú ert reiður, þá skaltu spila. Ekki skemma og berja. Slíkt gera aðeins villidýr og heimskingjar. Ég skal kenna þér að spila en snertu aldrei framar víóluna mína í leyfisleysi því ef ég hef hana ekki þá getur allt gerst. Þá gæti ég týnstí djúpinu eins og mamma.

Og Jakob snertir strengi víólunnar með boganum. Víólan hljóðar. Það er angistarvein.

7. Jakob

Faðir minn ætlaðist til þess að ég lærði að spila á víóluna en það hefur mér aldrei tekist. Ég veit vel að fólk trúir mér ekki eða heldur að ég sé að tala einskonar líkingarmál en ég meina það í fullri alvöru, þótt sjálfsagt sé sú alvara sönnun fyrir brjálæði mínu, að víólan hefur sjálfstæðan vilja. Hún er lifandi og það er í raun hún sem spilar á mig en ekki ég á hana. Ég hef slegist við hana ár eftir ár en hún spilar aðeins það sem henni sjálfri þóknast þá stundina. Ég hef ekki lengur tölu á öllum þeim kennurnum sem hafa gefist upp á mér vegna þess að mér er svo oft ómögulegt að spila það sem til er ætlast. Iðulega hefur ljúft og viðkvæmt verk komið frá víólunni fullt af óhugnaði, kannski þrungið ástríðulosta sem alls ekki á að vera í því eða þá að hún hefur breytt harmþrungnu verki í léttan og glaðlegan söng. Ég spila rétta tóna en þeir eru óþekkjanlegir í meðförum hennar og þetta kallar fólk snilligáfu og heldur að sé komið frá mér. Og nú er Meistari líka að gefast upp á mér. Mér finnst ég ofurseldur, ég kann ekki að skýra það nánar.

8. Leikur

Meistari rífur í hár sitt. Svo gefur hann Jakob eitt tækifærið enn, það allra síðasta og nú má ekkert klikka. Hendur Jakobs taka víóluna; nú skal það takast, nú skal hann spila eins og til er ætlast. En víólan lætur ekki að stjórn. Í dag vill hún bara kveina.

Hann spilar lengi. Meistarinn er farinn út en Jakob heldur áfram að spila. Svitinn rennur niður andlit hans og brjálæðislegir tónar yfirfylla stofuna. Hann þolir þá ekki sjálfur en getur þó ekki hætt. Djúp hans vakir. Víólan rekur upp vein.

-Og þá!

Hann finnur blóð sitt storkna í æðunum og víólan þagnar. Einhver hefur svarað honum. Úr hinum enda stofunnar berst skær, ástríðuþrunginn tónn. Það er fiðlutónn, sem þó er engu hljóði líkur, það er tónn sem kemur frá djúpinu.

Hann lítur við:

Skræpótt pils. Svart, sítt, úfið hár.
Fiðla.

„Komdu sæl“ segir víólan.
„Sæll“ svarar fiðlan.
„Hver ert þú?“ spyr víólan.
„Ég er fiðlan hennar Kóru og ég þekki djúpið hennar betur en hún sjálf. Og ég er villt og spillt og brjáluð og tryllt, ég læt ekki að stjórn, spila bara það sem mér sjálfri sýnist hverju sinni.
„Þú ert sæt“ segir víólan.
„Fífl!“ segir fiðlan.
„Viltu leika við mig?“ segir víólan.
„mmmm… Ég veit það nú ekki“ segir fiðlan.
„Ég kann vel við þig“ segir víólan.
„Vitaskuld!“ segir fiðlan.
„Kanntu ekki vel við mig líka?“
„Þú ert ókey.“
„Bara ókey! Farðu þá bara til fjandans!“ segir víólan
„Iss, hvað þú ert spældur“ segir fiðlan.

Þögn.

„Jæja. Sorrý þá.“ Segir fiðlan.
„Fífl!“
„Ekki vera í fýlu. Komdu heldur að leika við mig. Komdu nú. Komdu með mér langt í burtu að leita hunangsblóma. Komdu með mér að tína gula fífla og drekka úr þeim beiska mjólkina til þess eins að vita hvernig hún bragðast. Komdu með mér að leika þennan leik.“
„Jæja, fylgdu mér þá“ segir víólan.
„Nei, þú skalt fylgja mér“ segir fiðlan.

Og þau spila. Spila saman. Elskast og rífast og kyssast og slást. Dagurinn líður. Rökkrið sígur á. Að lokum enda þau í einum ljúfum tóni.

„Friður“ hvíslar víólan.
„Loksins“ hvíslar fiðlan.

Þau standa í stofu meistarans og virða hvort annað fyrir sér. Þau þekkjast enda þótt hvorugt hafi ennþá sagt eitt einasta orð. Hann veit að hann hefur alltaf þekkt hana. Þekkt djúp hennar. Og að hún hefur alltaf þekkt hann.

„Hver ertu?“ spurði hann loksins.
„Kóra“ svaraði hún.
„Hatarðu fiðluna þína?“
„Já, ég bæði elska hana og hata.“

Augu Kóru eru svört. Og þau brenna.

„Mikið ertu falleg“ segir víólan.
„Ekki eins falleg og þú“ segir fiðlan.
„Þú hrífur mig, ég þrái þig, mig langar að snerta þig, segir víólan.
„Ekki snerta, ekki snerta, eltu mig og eltu, ég hleyp á undan þér, hratthratthratt.“
„ha,ha,ha, ég næ þér og næ þér, ég hleyp hraðar en þú – og stekk.“
„Þá stekk ég … – Og þú nærð mér ekki … – Hraðar og hraðar og hraðar en þú!“

„Hratt, hratt, hraðar …
Klukk!
Komdu, komdu til mín, því ég á þig, þú ert mín. Ég vil halda þér í faðmi mér lengi.“
„Já, ég er þín. Bara þín.“

Kyrrð.

„Ég vil liggja í faðmi þér – lengi.“

Og hendur Jakobs leggja víóluna til hliðar. Hönd hans snertir svart hár Kóru.

Ósjálfrátt.

9. Skelin

Brynjar kom í heimsókn. Gamall vinur minn. Einn af þessum væmnu, mjúku mönnum sem allar konur eru svo hrifnar af en engin nennir að búa með til lengdar. Í rauninni gjörsamlega óþolandi gaur en mér þykir samt vænt um hann þótt við eigum ekki margt sammmerkt. Hann stóð í dyrunum og sagði svona dálítið feimnislega: „Sæll Jakob. Ég kom til þess að gefa þér á kjaftinn.“

Ég fékk hláturskast. Hef aldrei ímyndað mér þennan dúlludreng gefa nokkrum manni á kjaftinn. Ég spurði hvort hann vildi fá kaffi fyrst eða ljúka barsmíðunum sem snöggvast. „Best að ég geri það strax, áður en mér snýst hugur “ sagði hann.

Ég átti von á léttum löðrungi en höggið var þungt. Ég skall utan í vegg og Brynjar hélt að hann hefði stórslasað mig af því að það blæddi ofurlítið úr nefinu á mér. Hann fór að grenja. Ég hef aldrei þolað grenjandi karlmenn en ég fann svo til með honum að ég klappaði honuim á öxlina og sagði; „þetta er allt í lagi, þetta var ekkert“. Svo gaf ég honum kaffi og spurði hvers vegna hann hefði verið að berja mig fyrst hann langaði ekkert til þess.

Það var út af þessu með Erlu. Brynjar er svo ægilega hrifinn af henni. Hún er víst ólétt. Eftir mig segir hún. Og ég er lítilmenni af því að ég sagðist ekki trúa á þá skýringu að pillan hafi brugðist. Sagðist halda að hún væri að reyna að negla mig með barni en það gengi ekki upp. Ég léti hvorki kvensnipt, né krakka sem ég hefði ekki ákveðið að eignast, stjórna lífi mínu. Sagði líka margt fleira ljótt og bætti því svo við að ég vildi að hún léti eyða fóstrinu.

Erla sló mig máttleysilega. „Veistu hvernig fóstureyðing fer fram fíflið þitt?“ gargaði hún. „Það er nokkurskonar ryksuga þrædd upp í legið og barnið tætt sundur smátt og smátt. Hreinlega sogið út í smápörtum. Fyrst er kannski fótur slitinn af því og svo hönd, eða innyflin, kannski er hjartað næst. Veistu að það er þegar farið aða slá? Það er ekki einu sinni víst að barnið deyji fyrr en búið er að tæta heilann úr því í sundur. Kannski fer hann allur í einu, kannski í smáslettum“ hún var ægilega reið. Ég sagði henni að ég vildi miklu fremur láta slíta heiðatuðruna úr krakkaskratta sem væri hvort sem er alveg sama, en að láta leggja líf mitt í rúst. Og hendur mínar tóku víóluna upp ósjálfrátt. Hún byrjaði að leika glaðlegt kæruleysisstef, en skyndilega þyrmdi yfir mig og víólan öskraði og hló.

10. Draumur

Erla liggur í stóru, hvítu rúmi. Hún æpir af kvölum. Skaut hennar rautt og opið og ég sé höfuðið koma í ljós. Lítið, rautt höfuð með opnum augum. Það eru engir augasteinar og heldur engin lita í þessum augum. Þau horfa á mig, stór og hvít, án sálar. Ég toga í höfuðið. Höfuð barns í höndum mínum. Rautt höfuð en enginn búkur. Ég stend með höfuð ungbarnsins í höndunum og augu þess taka að vaxa. Svartir punktar koma í ljós, mitt í öllu þesssu hvíta og svo fer hár þess einnig að vaxa. Ég reyni að kasta höfðinu frá mér en það er fast við hendur mínar. Höfuð barnsins vex ógnarhratt í höndum mínum, nú er það orðið miklu stærra en mitt. Risastórt, blóðugt barnshöfuð. Og höfuðið opnar muninn og hlær, björtum, dillandi barnshlátri. Hárið er vaxið yfir hendur mínar, augun fá smámsaman á sig bláan lit.

Brynjar er kominn með stóra ryksugu. Hann segir; „Afsakið, við gleymdum víst að taka heilann.“ Svo ber hann ryksugustútinn að höfðinu og það slitnar í sundur og ég horfi á heilann sogast inn í ryksugustútinn í mörgum hlutum. Hárið heldur áfram að vaxa og hlykkjast þykkt og ljóst um hendur mínar. Nú er höfuðið aðeins hálft og horfir á mig með einu, bláu auga.

11. Djúpið

Kóra hefur augu sem brenna. Á einhvern óskýranlegan hátt dregst ég að henni, hún snertir nýjan streng á víólunni, hrífur mig, kallar fram í mér eitthvað sem ég hef ekki upplifað fyrr. Ég held það sé, djúpið. Djúpið í Kóru er eins og djúpið í mér. Hún skilur mig og ég skil hana. Hún skilur mig af því að hún líkist mér. Hún er haldin þessu sama stjórnleysi gagnvart fiðlunni og ég gagnvart víólunni. Ég finn mig dragast að henni og ég held að það sé gagnkvæmt. Ég hef aldrei áður fundið til verulegrar samkenndar með fólki, það hefur þá helst verið við ákveðnar aðstæður en ekki svona almennt. Þó hef ég aldrei verið einmana fyrr en nú orðið finnst mér, í hvert sinn sem ég er fjarri Kóru, að ég hafi alltaf verið einn.

Ég hef í rauninni aldrei talað við Kóru. Við höfum aðeins spilað saman, eða öllu heldur reynt það, því við gefumst fljótlega upp á slagsmálunum við hljóðfærin og leyfum þeim að ráða. Ég óttast að missa tökin algerlega en þetta er illviðráðanlegt og Kóru virðist finnast það allt í lagi. Leikur okkar verður sífellt blíðari og ástríðufyllri í senn.

12. Háskinn

Augu Kóru eru svört og djúp og þau brenna. Þau draga mig til sín lengra og lengra með degi hverjum. Í dag bað ég hana að koma með mér heim. Ég ætlaði ekki að gera það, það get ég svarið en ég gerði það samt.Hendur mínar gripu utan um hana og ég dró hana til mín. Hún er það fegursta sem ég hef snert.

Andartaki síðar, þegar við lágum nakin í rúminu og strukum fingurgómunum um háls og axlir hvort annars, reis Kóra skyndilega upp á hnén og spurði rétt eins og ekkert væri eðilegra; „finnst þér gaman að slá?“

Ískaldur grunur nísti bein mín. Hún var að tala um djúpið. Hún var að tala um að eyðileggja þennan litla árangur sem ég þó hef náð. Hvers vegna þarf slík kona á fiðlu að halda? Ég lá við hlið hennar og hugsaði og yndislegar hendur hennar struku háls minn og hnakka. Og ég fann neglur hennar snerta hnakka minn, hár hennar andlit mitt, og ég skildi það allt. Ég skildi það á þessu augnabliki að allan þann tíma sem ég var að slást við víóluna, var ég í raun og veru að slást við Kóru. Ég vissi líka að ekkert í heiminum yrði mér hættulegra en Kóra, því hún myndi á sama hátt og víólan neyða mig til að sleppa lausu því sem býr í djúpinu.

Háskanum.

13. Lausn

Kóra hefur augu sem brenna. Og í djúpinu býr heiftin, og skelfingin og harmurinn -og ástin. Djúpið er versti óvinur mannsins og því má aldrei sleppa lausu því djúpið er hættulegt. Það firrir menn skynsemi og gerir þá staðfestulausa og veika. Ég verð að sigrast á djúpinu. Leiðin er aðeins ein og ég verð að ganga hana til enda. Ég verð að yfirvinna Kóru og láta ást mína á henni aldrei ná tökum á mér, eitt augnablik á meðan á því stendur.

Hún liggur fjötruð í rúminu mínu, svo falleg. Hár hennar úfið og svart, brjóstin hvít með bleikum, meyjarlegum geirvörtum. Brjóst hennar mjúk við andlit mitt, og ég sýg. Sýg brjóst Kóru fastar og fastar og reyni að hlusta ekki á kvalaóp elskunnar minnar, neyði sjálfan mig til að halda áfram. Loks finn ég að hún lætur undan og finn munn minn fyllast af heitu, límkennsu blóði.

Furðuerfitt er það að bíta eina litla geirvörtu af konu. Eins og tennur mínar séu ekki nógu beittar eða er geirvartan svona föst á henni? Reyni að dempa hljóð Kóru með því að halda höndunum fyrir vit hennar og beiti jöxlunum til að ná geirvörtunni af. Undarlegt hve blóð hennar er heitt og hve það er salt á bragðið. Ó, að þetta megi taka sem stystan tíma. Enginn, nei enginn getur ímyndað sér, hve sást það tekur mig að þurfa að gera annað eins.

Augu Kóru brenna ekki lengur. Nú eru þau stór og skelfd. Hún liggur í rúminu mínu, úr brjósti hennar lagar blóð og líkami hennar engist af kvölum.

Og ég. Ég er laus undan valdi Kóru, undan valdi víólunnar minnar. Ég stend nakinn við rúmið og horfi á líkama Kóru.

Í djúpinu brennur harmurinn og ástin og úr augum mínum flæða tár. En víólan hlýðir mér núna. Tónarnir þjóta, æða, ýlfrandi, æpandi veinandi, öskrandi af ógn og reiði Kóru, elskunnar minnar, sem engist hljóðandi í rúminu. Ég spila fyrir Kóru, fyrir ástina mína. Ég spila fyrir djúp hennar, þrungið af skelfinu og heift. Ég spila. Ekki djúp mitt, heldur ég sjálfur, hugur minn. Djúpið ræður engu framar, úr augum mínum flæða tár.

Ég finn fyrir geirvörtu Kóru í muninum –

og hlusta á óp hennar hljóðna.

Share to Facebook