Hefnd

Upphaflega var það hugsað sem hefnd, það viðurkenni ég fyrir þér núna. Hefnd fyrir að hafa skeint þig á tilfinningum mínum, refsing fyrir að hafa afneitað mér gagnvart öðrum, rétt eins og það væri skammarlegt að hafa sofið hjá mér. Þú áttir að komast að raun um að þú hefðir einmitt haft rétt fyrir þér, ég væri í raun og veru vampíra. Þú áttir að gera þér ljóst að þú værir, á einhvern yfirnáttúrulegan hátt bundinn mér það sem þú ættir ólifað. Þú áttir að upplifa mig sem ógnþrungið kynferðislegt vald, vald sem væri margfalt sterkara en vilji þinn, jafnvel sterkara en ást þín til Lilju. “Ég get verið heiðarlegur gagnvart henni” sagðir þú, en ég vissi betur.

Ég var vel undirbúin þegar þú komst. Ég vissi nákvæmlega hvað ég ætlaði að gera og mér leið afar vel í illsku minni. Ég þekkti þig. Ég vissi að þú kæmir of seint og ég vissi nákvæmlega hve mörgum mínútum of seint. Þú ert nefnilega alls ekki eins óútreiknanlegur og þú heldur.

Ég fór í bað, á réttu augnabliki. Ég málaði mig ekki. Ekkert mátti benda til þess að ég hefði beðið þín með óþreyju. Ég veit að þótt ég hefði málað mig, næstum ósýnilega, bara til að líta þokkalega út, hefði það ekki blekkt þig. Þá hefðirðu bara hugsað sem svo að ég væri líklega að reyna að láta líta svo út að þú skiptir mig litlu máli. Þegar dyrabjallan hringdi beið ég ofurlítið en fór svo til dyra í hallærislegum bómullarnáttkjól. Ég gætti þess að þurrka mér nógu vel svo bómullarefnið blotnaði ekki. Það hefði litið kynferðislega út og þú hefðir dregið ályktanir. Hárið á mér var hins vegar blautt eins og ég hefði flýtt mér.

Ég baðst afsökunar á útgangnum á mér og held að mér hafi tekist að vera hæfilega vandræðaleg. Ég sagðist hafa farið út og tafist. Ég væri bara rétt nýkomin inn, hefði haldið að ég hefði misst af þér og farið í sturtu … “Ég ætla að laga kaffi, svo fer ég í eitthvað sómasamlegt”. En svipur þinn leyndi engu og ég vissi, meðan ég sneri baki í þig og mokaði kaffinu í pappírspoka, að þú varst að velta því fyrir þér hvort ég væri nakin undir náttkjólnum.

Ég var löngu búin að ákveða framhaldið. Ég vissi að þú stæðir upp. Ég vissi að þú tækir utan um mig um leið og ég kveikti á kaffivélinni. Ég vissi að þú tækir mig í eldhúsinu, lykt af kaffi í loftinu og innan seilingar eldhússrúlla til að taka við sæðinu . Það sem ég vissi ekki var að þú tækir upp á því að snerta þennan litla blett aftan á hálsinum á mér, ofurvarlega með fingurgómunum. Það sem ég vissi ekki var að þessi eina snerting gæti falið í sér þvílíkt vald, að svona ofurlítil snerting væri megnug þess að kalla fram ást, svo heita og djúpa að öll mín fyrirlitning á þér kafnaði í henni.

Undarlegt er að elska þann sem maður hatar. Ég hafði hugsað mér að æsa þig upp í einn tíma eða tvo, gera þig stjórnlausan, “láta undan þér” og liggja svo við hlið þér á eftir og hlæja háðslega. Ég ætlaði að segja “Nú? Hvað ertu þá að gera hér, fyrst þú elskar hana svona mikið? Þykistu kannski ætla að segja henni frá því? Eða þykistu kannski ekki vilja særa hana? Eins og þú þóttist ekki vilja særa mig? Ef þú elskaðir hana færirðu ekki á bak við hana, málið er að þú þorir ekki að segja henni það. Gunga!”Og þá áttir þú að líta á mig með samblandi af sársauka og viðbjóði. Þú áttir að kalla mig vampíru og fara svo heim til hennar. Þú áttir að kveljast af sektarkennd og refsa sjálfum þér með því að koma til mín aftur. Og aftur. Þú áttir að þrá mig og hata í senn, eins og ég hef þráð þig og hatað.

En það gerðist ekki. Ekki þannig. Þú raukst ekki á mig og tættir utan af mér fötin. Þú misstir ekki stjórn á þér og reiðst mér til blóðs á eldhússgólfinu. En þú snertir mig. Sál mína. Snertir þennan blett, svona blíðlega, varlega, faðmaðir mig að þér og sagðist hafa saknað mín.

Undarlegt að hafa andúð á þeim sem maður elskar. Skrýtið að snerta þig eftir öll þessi ár. Mig hryllti við þér. Stóð stuggur af rákunum sem eru komnar á hálsinn á þér. Fannst eins og þær gætu opnast. Eins og hver rák væri dulbúinn kjaftur sem gæti opnast og bitið mig. Læst í mig hvössum vígtönnum og sogið úr mér blóðið. Ég ýtti þessari fáránlegu hugsun frá mér. Sagði sjálfri mér að hætta þessari vitleysu og lokaði augunum. Samt hryllti mig ennþá við þér, því þú varst breyttur. Hafðir fitnað ofurlítið og eiginlega eins og þú hefðir allur mýkst. Hörundið öðruvísi en áður og hárið ullarkenndara en ég mundi það.

Ég veit að þér leið eitthvað líkt og mér en af einhverjum óskiljanlegum orsökum urðum við að reyna. Mér fannst lyktin af þér yfirþyrmandi. Svo ótrúlegt að þú værir sá sami. Sami maður í öðrum líkama. Fullorðinn maður lyktar ekki eins og strákur en samt varstu sá sami og ég þráði að finna þig inni í mér þótt mig hryllti við hverri snertingu. Þú varst á svipinn eins og kenjóttur krakki og kvartaðir um að ég væri “allt of hrein”. Ég ætlaði að svara því til að ég gæti ekki að því gert þótt ég lyktaði öðruvísi en Lilja en ég fékk það ekki af mér. Vildi ekki, mátti ekki særa þig. Kyssti þig bara á gagnaugað og hélt fast utan um þig, sitjandi á eldhússborðinu. Krækti fótunum utan um mittið á þér og kyssti rákirnar á hálsinum.

Þér brá þegar þú snertir brjóstin á mér. Þú kunnir þig ekki, spurðir hvað hefði orðið af mér. Þér er margt betur lagið en almenn kurteisi. “Börnin átu mig” sagði ég “ég er ekki sautján ára lengur. – Og reyndar ekki þú heldur” bætti ég við og þú sagðir ekkert meira. Ég hríðskalf. Þú spurðir hvort mér væri kalt en mér var ekki kalt, heldur titraði ég af hryllingsblandinni þrá. “Ég meiði þig ekki” sagðir þú og þá gat ég hlegið því ég hef aldrei óttast líkamlegan sársauka.

Á örfáum vikum yfirvann ég andúðina á líkama þínum. Ég bara elskaði þig. Elskaði hvern drátt í andliti þínu og gat legið tímunum saman með andlitið grafið í ullarkennt hárið, bara til að finna af þér lyktina. Mér þykir venjulega vænt um fólk. Ég gæti dáið fyrir flesta sem ég tel til vina minna en ég hefði jafnvel verið reiðubúin að lifa fyrir þig.
Ég hefði gert allt fyrir þig. Ég sem þoli hita svo illa, ég hefði flutt með þér til Afríku hefðirðu viljað það. Hefðirðu farið fram á að fá að taka mig í rassgatið hefði ég samþykkt það þegar í stað. Og ég gæti fyrirgefið þér nánast hvað sem er. Skilið allt, breytt yfir allt, umborið allt. Ég krafðist nánast einskis. Ekki einu sinni trúnaðar. Einskis, nema heiðarleika. “Ég gæti ekki þolað að þú færir á bak við mig” sagði ég, “það er það eina sem ég bið um, sjálfri mér til verndar. Er hægt að biðja um minna?”

Seinna sagðist ég vilja giftast þér. “Af hverju endilega mér?” sagðir þú og ég svaraði því til að þú værir breyskasta kvikindi sem ég hefði kynnst. Ég þyrfti aldrei að fela neitt fyrir þér. Ég þyrfti aldrei að skammast mín fyrir að láta þig sjá hvernig ég er í raun og veru. “Ég treysti þér fyrir sjálfri mér” sagði ég og mér fannst þetta mjög fallegt svar. Ég er ekki viss um að þér hafi þótt það jafn fallegt.

Þú hafnaðir mér. Sagðist elska Lilju. Ég grét ekki en ég vorkenndi þér þótt ég gætti þess að láta þig ekki sjá það. Veit að þér hefði þótt það niðurlægjandi. Elsku, hjartans fullorðni Narkissusinn* minn sem aldrei hefur elskað nokkurt kvikindi. Ekki einu sinni sjálfan þig. Ekki mig. Ekki Lilju. Hvað ertu að gera hér ef þú elskar hana? Hjartans kjáninn minn sem aldrei hefur lært að elska lífið. Sem elskaðir aðeins þessa einu léttvægu hlið þess, nautnina en gast aldrei fundið fullnægjuna sem felst í vanabindingu hins raunverulega lífs. Og þú sem segist elska lífið. Veistu þá ekki að lífið er að hálfu leyti leiðindi og vani? Þetta hugsaði ég, en ég sagði ekki neitt.

Þegar þú komst til að kveðja, rukum við saman á eldhússgólfinu og tættum fötin hvort utan af öðru í hömlulausri græðgi. Á eftir sátum við saman og reyktum mikið. Bröltum svo inn í rúm og héldum áfram þar til við urðum nánast örmagna. Ég hló góðlátlega, strauk þumalfingri ástúðlega um gagnaugað á þér og sagði “Fljúgðu, fuglinn minn. Þú getur alltaf komið aftur. Ég hætti víst ekki að elska þig þótt þú sért skíthæll.” En þá, eins og af tilviljun, snertirðu þennan blett. Þennan litla, litla blett aftan á hálsinum.

Og ópið braust upp úr kviðnum. Skerandi. Hömlulaust. Þú hafðir víst aldrei fyrr heyrt vampíru gráta og reyndir að hugga mig. Sagðist jafnvel elska mig, eins sennilega og það nú hljómaði. Þegar þú fórst, skildirðu lykilinn eftir á stofuborðinu.

Er hægt að biðja um eitthvað minna en heiðarleika? Er hægt að gera skelfilegri kröfu?

Share to Facebook