Eyland

Jón Hallur Stefánsson samdi lag við þetta kvæði vorið 2010. Diskurinn er enn ekki kominn út.

 

Ég bý á eyju meðal gauka og grasa
og gamalt spor er lífs míns eini vandi.
Ég skipi stal og stefndi burt frá landi
en strandaði við grænan eyjaklasa.

Og sjálfsagt fæ ég seint úr þessu skorið
hvort sælli dagar biðu mín þar heima,
ég læt það aldrei eftir mér að dreyma
og eld hef ég að skipi mínu borið.

Að lokum yfir feilspor hvert mun fenna
þá frostið hjúpar sálargluggann klaka
og þótt ég ætti vísan veg til baka
ég vildi heldur horfa á skipin brenna.

Í einverunni gala við mig gaukar
og grænir spretta allsnægtanna laukar.

Share to Facebook