Þetta er bara ekki rétta aðferðin

Í hvert sinn sem Saving Iceland hreyfingin beitir mótmælaaðgerðum sem ögrar ramma laganna, fer bloggheimur á límingunum og er það vel. Greinilegt er að efasemdir um borgaralega óhlýðni eru mjög sterkar og sú skoðun á fullan rétt á sér. Það er þó nákvæmlega sama hverju er mótmælt og á hvaða hátt, alltaf koma fram hópar sem vilja frekar að einhverju öðru sé mótmælt (þótt sama fólk nenni auðvitað ekki að standa í því að skipuleggja slík mótmæli sjálft) og eins eru alltaf einhverjir sem hafa skoðun á því hvaða aðferð eigi að nota.Þegar fólk safnast saman með mótmælaspjöld fær það skilaboðin; hverju haldið þið að þetta skili öðru en að gera ykkur að fíflum.

Þegar fólk skrifar bréf eða safnar undirskriftum er svarið; jájá, ólmist þið bara, þetta verður aldrei lesið.

Þegar listin er notuð til að vekja athygli heyrum við athugasemdir á borð við; þetta er nú svo djúpt að það skilur það enginn, fáið ykkur vinnu.

Beinar aðgerðir á borð við vinnustöðvun vekja svo sérdeilis greindarleg viðbrögð á borð við; það ætti að henda þessu úr landi! hryðjuverkamenn! fávitar! Þarf þetta ekkert að vinna?

Ég skil vel að fólk hafi efasemdir um beinar aðgerðir. Það eru ekki mörg ár síðan ég sjálf fordæmdi skemmdarverk (þótt ég sé mjög hrifin af þeirri hugmynd í dag) og hafði verulegar efasemdir um réttmæti vinnustöðvunar. Ég hef þó ekki séð aðrar aðgerðir skila meiri árangri.

Ástæðan fyrir því að Saving Iceland notar beinar aðgerðir er ekki sú að það hafi svo mikið skemmtanagildi. Það er erfitt að sitja einn uppi í byggingarkrana eða vera hlekkjaður við vinnuvél. Það er hundleiðinlegt að vera handtekinn, fjandans bögg að þurfa að standa í dómsmálum og mikill kostnaður þegar maður tapar. Það væri því æskilegast ef aðferðir sem enginn er í vafa um að séu löglegar og siðlegar hefðu einhver alvöru áhrif.
Þær aðgerðir sem við höfum notað hingað til eru eftirfarandi:

-Formleg bréfaskrif þar sem einstaka virkjun er mótmælt með góðum rökum

-Formleg bréf til höfuðstöðva álfyrirtækja (sem aldrei er svarað)

-Undirskriftasafnanir

-Pistlaskrif á blogg og í blöð í ýmsum löndum

-Persónuleg bréfaskrif til fyrrum iðnaðar- og núverandi umhverfisráðherra (sem ekki hefur verið svarað)

-Persónuleg viðtöl við umhverfisráðherra

-Fundir með  forsvarsmönnum Alcan og Alcoa t.d. í Bandaríkjunum

-Útgáfa kynningarefnis

-Ráðstefnur og kynningarfundir

-Blaðamannafundir

-Hefðbundnar mótmælasamkomur með skiltaburði og slagorðum

-Kynnisferðir á slóðir sem Landsvirkjun er að sölsa undir sig

-Fræðslu- og kynningarstarf meðal umhverfishreyfinga í Evrópu

-Ýmsar listrænar uppákomur hérlendis sem erlendis (þetta er líklega sú aðferð sem Saving Iceland hefur lagt mesta vinnu í)

-Vikuleg matarboð á Lækjartorgi í allt sumar

-Vinnustöðvun hjá orku- og álfyrirtækjum

Aðrir hópar sem vinna að umhverfisvernd hafa notað sömu aðferðir að vinnustöðvun undanskilinni, auk þess sem skrifuð hefur verið heil bók um aðra kosti í atvinnulífinu (áliðnaðurinn skilar ekki nema um 5% af þjóðartekjum okkar, þótt margir virðist halda að við lifum á áli) og stofnaður heill stjórnmálaflokkur í nafni umhverfissjónarmiða.

Tilgangur Saving Iceland er fyrst og fremst sá að halda vöku almennings (við höfum ekki mannafla og fjármagn til að knéstetja áliðnaðinn ein)  svo nú spyr ég hið velviljaða fólk sem vill að við mótmælum löglega,

a) hvaða aðgerðir hafa vakið mesta athygli og umræðu meðal almennings?

b) eru einhverjar hugmyndir uppi um fleiri aðferðir sem líklegar eru til að vekja eftirtekt? 

Athugið að okkur er alveg sama hvort einhver álítur að aðferðirnar séu okkur til minnkunnar eða fái einhverja á móti okkur, við erum ekki í neinni vinsældakeppni. Okkur er líka alveg sama hvort fólki finnst fötin okkar asnaleg, hafi á tilfinningunni að við séum dópistar eða hvaða bullkenningar eru uppi um aktivisma sem gróðavænlega uppgripavinnu.  Ég er bara að fiska eftir tillögum að því sem fólk sem vill ekki að ramma laganna sé ögrað, telur árangursríkt.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago