Þessvegna kýs ég ekki Borgarahreyfinguna frekar en aðra flokka

Margir hafa undrast viðbrögð mín við Borgarhreyfingunni og ég get svosem skilið að fólk sem er samdauna þeirri hugmynd að fulltrúalýðræði sé æðsta birtingarmynd réttlætis og frelsis telji Borgarahreyfinguna vera beinlínis róttækt skref í átt til þátttökulýðræðis. Flestir virðast ekki skilja að rót þeirrar spillingar og valdníðslu sem var forsenda efnahagshrunsins, og sem allt okkar afar vonda viðskiptasiðferði hvílir á, er sjálft stjórnkerfið.

Fjármálakerfið okkar, stjórnkerfið og flokkakerfið sjálft eru valdapýramídar sem byggjast á þeirri grunnhugmynd að sá sem hefur mikið, skuli hafa forgangsrétt á því að fá meira, hvort heldur er af völdum eða verðmætum. Kerfið þrífst á valdafíkn og ég efast um að það vímuefni sé til sem er meira ávanabindandi en valdið. Við búum í samfélagi sem er gegnsósa af annarsvegar þessari fíkn  í völd og auð og hinsvegar meðvirkni þeirra sem engin hafa völdin. Leiðin út úr þessum hugsunarhætti (eða veikindum eða hvað maður á að kalla það), getur ekki legið í gegnum kerfið sem elur á honum og styrkir hann, ekki frekar en fjárhættuspil er tæk leið út úr fjárhagsvanda eða ecstasy út úr þunglyndi.

Borgarahreyfingin er samsafn af fólki sem vill svo sannarlega vel. Það er gott og yndislegt fólk í þessum flokki, eins og reyndar í öllum flokkum. Þau eru þó ekkert yfir mannlegt eðli hafin og munu ekkert funkera betur í þessu rotna kerfi spillingar og valdníðslu en aðrir. Það er ekki hægt að ástunda samvinnu í kerfi sem er beinlínis hannað sem vígvöllur. Þau munu því missa sig í sama þvaðrið og annað gott fólk á þingi, eyða heilu dögunum í þref sem gegnir helst þeim tilgangi að hafa betur og grípa hvert tækifæri til að gera pólitíska andstæðinga sína tortryggilega.

Sú stefna Borgarahreyfingarinnar að leggja sjálfa sig niður þegar markmiðin hafi náðst, gengur einfaldlega ekki upp. Þetta hefði hugsanlega gengið ef þau hefðu haft eitt markmið og gefið sér þröngan tímaramma til að ná því en með því að setja sér mörg og óljós markmið er þessi hópur búinn að stofna ósköp venjulegan stjórnmálaflokk. Setjum sem svo að bið verði á því að þau nái markmiðinu: Rofin verði öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims. Ég sé fyrir mér að menn geti bæði greint á um hvað skuli teljast hagsmunatengsl og hvaða hagsmunatengsl séu óeðlileg. Það má því allt eins búast við að þetta mál velkist í  þinginu í mörg ár. Á þeim tíma munu koma upp mörg mál sem alþingismenn verða að taka afstöðu til. Þráinn Bertelson mun ekkert sitja árum saman á þingi án þess að setja fram kröfur um bætta þjónustu við sjúka og aldraða og ef ég þekki t.d. Birgittu rétt verða komin fram markmið um að við tökum afstöðu til mannréttindamála á alþjóðavettvangi. Ætlar einhver að segja mér að eftir 7 ár, þegar Borgarahreyfingin kemst loks að þeirri niðurstöðu að nú hafi öll óeðlileg hagsmunatengsl milli viðskiptaheims og þingheims verið rofin, þá muni þetta ágæta fólk leggja flokkinn niður og hlaupa þar með frá þessum markmiðum sínum? Auðvitað ekki, en á þeim tíma verða þau líka löngu búin að missa allan áhuga á því að færa völdin til almennings. Ekki af því að þau séu ekki gott fólk, heldur vegna þess að völd eru félagsverur, vald sækir þangað sem vald er fyrir.

Um leið og fólk gengur til liðs við stjórnmálaflokk, verður það hluti af hjörð. Það gefur skoðanir sínar upp á bátinn fyrir hagsmuni flokksins, sem eru alltaf og óhjákvæmilega þeir að fá völd og viðhalda þeim. Við horfum á þetta gerast hjá Borgarahreyfingunni eins og öðrum flokkum og það á ótrúlega stuttum tíma. Birgitta Jónsdóttir, kona sem hefur barist ötullega gegn stóriðju, neitaði þannig að tjá persónulega skoðun sína á umhverfismálum á borgarafundi í gær! Þessi mikla baráttukona er bara skyndilega horfin. Kannski tekst henni að verða hrái laukurinn á pulsunni, rífa dálítið í lýðræðisbragðlaukana en því miður, hún er orðin hluti af pulsunni, hún mun tala fyrir aðra áður en hún talar fyrir sjálfa sig, sem er fullkomin mótsögn við hugmyndina um þáttökulýðræði. Birgitta er meðal þeirra Íslendinga sem ég hef virt hvað mest en í fullri hreinskilni, það verður engin stjórnkerfisbylting þótt hún og hennar félagar komist á þing.

Borgarahreyfingin er byggð á fallegri hugsjón sem gengur ekki upp. Hún er hluti af þessu pulsulýðræði okkar. Ég er svekktari út í Borgarahreyfinguna en nokkurn annan stjórnmálaflokk af því að ég bjóst við öðru af þessu fólki en að þau gengjust inn þá blekkingu að hægt sé að bylta kerfinu með því að spila með.Svo það er þessvegna sem ég kýs ekki Borgarahreyfinguna frekar en neinn annan flokk. Af því að hún er hluti af fulltrúalýðræðinu, þessu pulsulýðræði sem ýtir undir andvaraleysi almennings og færir æ meiri völd og auð á æ færri hendur.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago