27 nýir þingmenn

Mikil bylting hefur orðið í íslenskum stjórnmálum.

Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur umboð 23,7% kjósenda til að halda áfram eyðileggingarstarfsemi sinni á íslenskri náttúru og efnahagslífi.

Lufsa hans Framsóknarflokkurinn, sem ásamt Sjálfstæðisflokknum rak hér um langt árabil efnahagsstefnu sem gerði okkur gjaldþrota auk þess að halda öllu sem máli skipti leyndu fyrir þjóðinni, fær 14,8%, samtals 38,5% atkvæða.

Samfylkingin, sem hefur sýnt sig að segir eitt en gerir annað, og sem vermdi ráðherrastóla á meðan búsáhaldabyltingin hrópaði ‘vanhæf ríkisstjórn!’ fær samþykki 29,8% kjósenda fyrir því að kenna sig við umhverfisstefnu en reka á sama tíma stóriðjustefnu, kenna sig við félagshyggju og lýðræði en vinna á sama tíma að því að koma okkur í Evrópusambandið, sem byggir á markaðshyggju og viðheldur kapítalískum sjónarmiðum, með öllum ráðum öðrum en beinni aðkomu almennings.

Samanlagt fá stóriðjuflokkarnir 68,3% fylgi.
Samanlagt fá ESB sinnar 51,8% atkvæða.
Þetta merkir að ef Vinstri græn eiga að fá að lufsast með í ríkisstjórn er sennilega ekki annað vænna fyrir þau en að gefa eftir, bæði í Evrópumálunum og stóriðjumálum.

Ég spái því að þau gefi eftir frekar en að standa við sannfæringu sína. Ekki af því að fólkið sé slæmt, heldur af því að kerfið er rotið og þau eru samt handgengin því í blindu sinni.

Sigurvegari þessara kosninga er ekki Samfylkingin sem nú hefur öll völd í hendi sér. Ekki Borgarahreyfingin sem í fyrstu tilraun virðist ætla að koma inn 4 þingmönnum (fínn árangur miðað við markmið og ég myndi óska ykkur til hamingju elskurnar mínar ef ég liti ekki á framboðið sjálft sem skelfilegt ógæfuspor), ekki heldur Framsókn sem virðist risin úr rústinni og þótt vg hafi bætt miklu við sig frá því fyrir 2 árum hefði þetta átt að verða þeirra momentum. Sigurvegari kosninganna er kerfið sjálft, pýramídi sem byggir á valdníðslu, leynimakki og spillingu.

Íslendingar hafa kosið yfir sig það sem þeir eiga skilið.
-Evrópusambandið, með auknu fáræði, stóriðjustefnu, sem fyrir utan náttúruskaða, mengun og mannréttindabrot gegn varnalausum öreigum í öðrum heimshlutum mun endanlega gera út um möguleika komandi kynslóða á því að endurheimta efnahagslegt sjálfstæði.
-Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem mun þvinga fram einkavæðingu í velferðarkerfunum og öðrum ríkisrekstri og seinna gera auðlindir landsins upptækar.
-Álver sem vegna vegna verkefnaskorts munu standa auð.
-Þjónkun Alþingis við stórfyrirtæki og persónulega vináttu stjórnmálamanna við auðmenn (það dettur þó engum í hug að þar sem útrásarvíkingarnir eru farnir, verði sama stefnan ekki rekin með nýju fólki?)
-‘Trúnað’ um það hversu mikið og gangvart hverjum almenningur sé skuldsettur (eða man einhver til þess að svo mikið sem eitt leyndó hafi verið upplýst á þessum 80 dögum sem Vinstri græn höfðu til að þrýsta á Samfó?)
-Og að sjálfsögðu verðum við áfram hluti af Nató, og þar með ábyrg fyrir dauða, limlestingum og fátækt þúsunda manns sem við eigum ekkert sökótt við.

Ekki svo að skilja að útkoman hefði getað orðið neitt öðruvísi. Það er nefnilega alveg sama hvaða flokkur kemst til valda, innan kerfis sem byggir ekki á þáttöku almennings, mun hver flokkur alltaf ganga erinda stórfyrirtækja.

En það er víst það sem landinn vill.

Ég sagði mig úr stjórnmálasambandi við Ísland þegar ég sá fram á að árangurinn af búsáhaldabyltingunni yrði ekki annar en nýir rassar í ráðherrastólunum. Neytti atkvæðisréttar míns í bókstaflegri merkingu, ásamt appelsínusafa á göngum Ráðhússins. Seðillinn var seigur undir tönn og of stór til að mér tækist að klára hann en hann var þó ekki jafn tormeltur og þetta viðbjóðslega fulltrúalýðræði sem svo fáir virðast sjá í gegnum. Ég fer út á miðvikudaginn. Aldrei hef ég orðið neinum aðskilnaði fegnari.

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago