Í framhaldi af fyrri pistli.
Í gærkvöld fóru fram í mínum vinahópi áhugaverðar samræður sem opnuðu augu mín fyrir því hvers vegna við tökum því svona vel að einkamál okkar séu öllum aðgengileg.
Metum við öryggi meira en frelsi?
Umræðan hófst á vangaveltum um frelsishugtakið. Vinur minn sagði okkur frá bók sem hann er að lesa sem lýsir þeirri skoðun að það sé goðsögn að dýr séu haldin eðlislægri frelsisþrá, þau vilji þægindi og öryggi en hafi engan sérstakan áhuga á því að vera frjáls. Við veltum þessu fyrir okkur út frá manninum og komumst að þeirri niðurstöðu að mannskepnan hafi einnig, þrátt fyrir allt sitt frelsistal, kannski meiri þörf fyrir öryggi og þægindi heldur en frelsi.
Það sem við upplifum sem frelsi, hvort sem okkur finnst það felast í þeim þægindum sem hafa má af efnislegum gæðum eða tækifæri til að stíga út úr lífsgæðakapphlaupinu af og til, er í raun ekki frelsi, heldur aðferð til að staðfesta öryggi okkar. Við viljum hafa rennandi vatn, rafmagn og gsm síma af því að það eykur öryggi og þægindi. Við viljum kannski fara í útilegu og njóta þeirrar frelsistilfinningar sem fylgir því að bjarga sér án þessara þæginda tímabundið en flest myndum við fúslega fórna því „frelsi“ ef við teldum að við ættum ekki afturkvæmt til heitrar sturtu og örbylgjupoppkorns.
Frelsi er tískuorð. Allskyns hlutir eru auglýstir í nafni þess, jafnvel kreditkort og neyslulán sem margir telja að til langs tíma hefti frelsi manns en auki það ekki. Kannski er kreditkortavæðingin í rauninni dulbúin aðferð mannsins til að halda fast í vinnuþrælkunarklafann svo hann þurfi síður að takast á við frelsið sem ógnar hinum skuldlausa. Það er nefnilega ákveðið öryggi í því að vita að maður þurfi að vinna svo og svo lengi til að eiga fyrir útgjöldum næsta mánaðar.
Hvað umburðarlyndi okkar gagnvart eftirlitssamfélaginu varðar er ég helst á því að ástæðan sé sú að við söknum Guðs.
Nú er Guð ekki lengur með nefið ofan í öllu sem við gerum. Hann heldur sig aðallega í litlum trúarsamfélögum og það er bæði hægt að fróa sér og skíta án þess að hann sé að fylgjast með. Og þar sem mannverur og önnur dýr hafa í raun lítinn áhuga á frelsi en þeim mun meiri þörf fyrir öryggi, koma myndavélarnar í Hagkaupum, kennitöluskráning vídeóleigunnar og upplýsingaörlæti orkuveitunnar að nokkru leyti í stað hins alsjándi auga almættisins. Kannski er það líka þessvegna sem svo ótrúlega margir ræða viðkvæm einkamál á internetinu.
Við viljum alls ekki frelsi. Við viljum bara að Guð sjái í gegnum okkur og ef ekki Guð, nú þá bara löggan eða nágranninn. Við vitum, þrátt fyrir gamaldags iðrunarguðfræði og nútímaklisjur um sértæka óþekktarrröskun, að maðurinn er nákvæmlega ekkert annað en það sem hann gerir. Við þráum þess vegna líf hins vel alda svíns. Öryggi okkar felst í því að hafa nóg að éta, (allavega í dag) og í sefandi kunnugleik hins genatíska ótta við að verða dæmd fyrir það sem við erum.
Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…
Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…
Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…
Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…
Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…
Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…