Þótt offjölgun sé meira til umræðu hafa félagsfræðingar líka velt upp þeirri hugmynd að lægri fæðingatíðni muni leiða til þess að hlutfall vinnandi fólks miðað við börn og eldri borgara verði of lágt til að standa undir samfélaginu. Ein breytan er fólksfækkun, önnur sú að fólk lifir lengur og sjúklingar lifa sjúkdóma sína af. Sú þriðja er lengri æska, þ.e.a.s. auknar kröfur um menntun valda því að fólk fer seinna út á vinnumarkaðinn.

Ég held þó ekki að fólksfækkun sé upprennandi vandamál í heiminum. Það eina sem ég hef áhyggjur af varðandi fólksfækkun er að þessi þróun ýti ennfrekar undir æskudýrkun því varla minnkar hún ef ungmenni verða sjaldgæf sjón. Að öðru leyti er fólksfækkun aðeins til góðs, bæði fyrir afkomu og siðferði.

Barnauppeldi verður auðveldara

Í fyrsta lagi veldur fækkun barna því að auðveldara verður að sjá fyrir þeim.

Auk þess verða börn hamingjusamari þegar þau þurfa ekki að slást við stóran systkinahóp um athygli foreldranna.

Uppeldi verður einnig auðveldara ef börnin eru fá. Í dag höfum við tíma til kenna börnum okkar hvers við væntum af þeim með útskýringum og þolinmæði í stað þess að draga fram vöndinn þegar þeim verður á. Sem er óneitanlega betra siðferði en ofbeldi.

Margt fólk er vinnufært þrátt fyrir fötlun og sjúkdóma

Í öðru lagi gera vísindaframfarir mörgum fötluðum kleift að lifa eðlilegu lífi þrátt fyrir fötlun sína. Því er ekki lengur samasemmerki milli fötlunar og örorku. Auk þess hefur barátta gegn fordómum í garð fatlaðra leitt til þess að margir fá tækifæri sem hefði verið óhugsanlegt fyrir aðeins 50 árum. Marga sjúkdóma sem áður leiddu til örorku er nú hægt að lækna svo öryrkjum hefur fækkað og mun fækka meira á næstu áratugum.

Á móti kemur að einnig er hægt að halda lífinu í fólki sem annars hefði dáið. Ég hef þó ekki áhyggjur af því að það verði gert því nú er hægt að greina ýmsa sjúkdóma og fötlun á fósturstigi og mjög vinsælt að drepa gölluð fóstur. Það verður því lítið um gallað fólk í framtíðinni. Það má vel deila um siðgæði fóstureyðinga en við hljótum að vera sammála um að það sé siðlegt að bæta möguleikar sjúkra og fatlaðra til samfélagsþátttöku.

Fólk verður vinnufært mun lengur

Í þriðja lagi veldur betri heilsuvernd því að enda þótt fólk komi seinna út á vinnumarkaðinn er það vinnufært mun lengur.

Í dag er fólk töffarar og skvísur fram undir sjötugt og ég held því að það sé bara tímabundið ástand að fólk hætti að vinna 65 ára aldur. Um leið og þörfin fyrir vinnuafl eykst, heldur fólk áfram að vinna á meðan það hefur heilsu til þess.

Þegar meðalaldur hækkar og allir verða nógu ríkir til að fá sér bótox í ennið og skreppa í skyndisilikonaðgerð (eða eitthvað hættuminna og fullkomnara sem hefur sömu útlitsáhrif) í hádeginu, munu hugmyndir okkar um elli og æsku einnig breytast og fimmtugt fólk verður ekki miðaldra heldur ungt. Það er svo bara spurning hvort æskudýrkun verður meiri eða minni fyrir vikið.

Þegar eldra fólk verður orðið nauðsynlegt vinnuafl eru ennfremur líkur á því að virðing fyrir eldra fólki aukist aftur og það finnst mér nú bara jákvætt.

Í rauninni er fólksfækkun þannig jákvæð og stuðar að betra siðferði. Auk þess er hún í ágætu samræmi við hina helgu bók. Guð sagði Adam og Evu nefnilega að uppfylla jörðina og erja hana en ekki að yfirfylla hana af hungruðum og veikum börnum.

——–

Þennan pistil birti ég fyrst á annál 6. júní 2004. Af stráksskap mínum hnýtti ég aftan við hann þessari málsgrein: „Fólksfækkun á Vesturlöndum sýnir þannig siðferðilega yfirburði kristinna manna yfir villimönnunum í þróunarríkjunum.“ Ég leyfi mér sjaldan háð af þessu tagi í dag því fordómar eru svo algengir að þeir sem þekkja ekki skrif mín gætu haldið að mér sé alvara.

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago