Mín skoðun er rétt

Ég hef dálítið gaman af bókum sem snúast um sjálfsstyrkingu og samskiptatækni. Þessar bækur eru oft kallaðar „sjálfshjálparbækur“ rétt eins og þær séu fyrst og fremst ætlaðar fólki sem á voðalega bágt og þarfnast hjálpar. Sjálf kýs ég að tala um sjálfsræktarbækur því margar þeirra búa yfir ráðum sem koma að ágætum notum þótt allt leiki í lyndi og gera lífið bara ennþá ánægjulegra.

Kjánaleg spurning

Í mörgum þessara bóka eru viðhorfapróf (gjarnan krossapróf) sem eru til þess ætluð að lesandinn kynnist sjálfum sér betur og átti sig á eigin fordómum og skapgerðargöllum. Algeng spurning í slíkum prófum er t.d. „mín skoðun er rétt“ og svarmöguleikarnir geta verið já og nei eða oftast, stundum o.s.frv. Mér hefur alltaf þótt þetta merkileg spurning einkum í ljósi þess að ef maður svarar henni játandi heldur höfundurinn því gjarnan fram að það sé merki um að maður sé einstrengingslegur og þröngsýnn.

Það er nokkuð augljóst að eitthvað hlýtur að vera bogið við viðhorf þess sem telur útilokað að hann hafi nokkurn tíma rangt fyrir sér enda eru þeir sjálfsagt fáir sem svara þessari spurningu játandi. Á hinn bóginn þá merkir orðið skoðun ekkert annað en það viðhorf til málsins sem maður telur réttast hverju sinni og því er ekki hægt að svara spurningunni öðruvísi en játandi nema maður sé af hreinni og klárri sjálfsblekkingu að þykjast vera umbuðarlyndari en maður er.

Smekkur er ekki það sama og viðhorf til málefnis

Það er að vísu hægt að hafa þá „skoðun“ að Björk Guðmundsdóttir sé fallegust í rauðu en segja um leið, „það er auðvitað bara mín skoðun, þú hefur alveg jafn rétt fyrir þér þótt þú segir að gult fari henni betur.“ Þarna er strangt til tekið ekki um skoðun að ræða heldur smekk. Björk getur tekið sig prýðilega út hvort sem hún klæðist rauðum kjól eða gulum plastpoka. Hún getur klæðst annarri flíkinni um morguninn og hinni um kvöldið og samt verið sjálfri sér samkvæm.

Sá sem telur skoðun sína ekki rétta er ómarktækur

Ef ég segði aftur á móti „ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að banna rjúpnaveiðar á Íslandi en líklega hef ég rangt fyrir mér“ tæki enginn mark á mér. Slík málsgrein felur í sér þversögn og lýsir helst hugmynd þess sem hefur alls ekki myndað sér skoðun á málinu.

Umhverfisráðherra vaknar ekki á morgnana og tilkynnir þinginu að hann sé eiginlega ekki í skapi til að hleypa rjúpnaskyttum upp á fjöll í augnablikinu en sé til í að endurskoða það eftir hádegið. Sé það skoðun mín að rjúpnaveiðibannið sé nauðsynlegt þá merkir það að ég vilji láta banna rjúpnaveiðar, ekki að fólk megi bara ráða því sjálft hvort það skýtur rjúpur eða ekki þar sem allir hafi jafn rétt fyrir sér. Ef ég kemst að þeirri niðurstöðu að mér skjátlist þá hlýt ég um leið að skipta um skoðun. Þannig hlýt ég alltaf að telja mína skoðun rétta, annars væri hún alls ekki skoðun mín.

Að vera opinn fyrir möguleikanum á að manni skjátlist

Ég get ekki annað en svarað spurningunni játandi „mín skoðun er rétt.“ Ekki ef ég er heiðarleg og sjálfri mér samkvæm. Á hinn bóginn ætti víðsýnt og sanngjarnt fólk að vera opið fyrir þeim möguleika að því hafi yfirsést eithvað, að til sé hlið á málinu sem það þekkir ekki nógu vel til að taka endanlega afstöðu og að forsendur geti breyst. Þannig er víðsýnt og sanngjarnt fólk tilbúið til að endurskoða afstöðu sína og skipta um skoðun ef svo ber undir. En skoðun mín (svo framarlega sem ekki er um að ræða smekksatriði sem litlu máli skiptir) hlýtur alltaf að vera það sem ég álít réttast og best, allavega í augnablikinu.

Og ég er sannarlega þeirrar skoðunar að það sé lítil sjálfshjálp eða sjálfsrækt í því fólgin að sleppa því að mynda sér skoðanir.

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago