Hugz skrifar komment sem krefst ítarlegs svars. Og hér hefurðu það gæskur.

Eins og hefur komið fram hjá mér áður þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um brottvísun Miriam. Það er Útlendingastofnunar að taka þá ákvörðun og hún fær tækifæri til að skýra sína hlið áður. Það er hinsvegar ljóst að lögreglan hefur krafist þess að Miriam verði rekin úr landi. Verði það að veruleika má búast við að hverjum þeim útlendingi sem beitir beinum aðgerðum á Íslandi, verði gert ókleift að koma hingað a.m.k. næstu tvö árin. Með slíkri ákvörðum væri þetta fólk sett í sama flokk og Kio Briggs.

Þú kallar það skrílslæti að fara út fyrir ramma hefðarinnar. Sannleikurinn er sá að þessi rammi hefðarinnar hefur ekki skilað góðum árangri. Við búum enn við öfgafulla stóriðjustefnu, þrátt fyrir endalausar mótmælagöngur, blaðaskrif, áskoranir og undirskriftalista, metsölubók og fjölmennustu götumótmæli Íslandssögunnar. Þegar mótmæli virka ekki grípur fólk til aðgerða.

Það er algengt að fólk leggi ólöglegar og ófriðsamlegar aðgerðir að jöfnu. Því er ég alfarið ósammála. Það er hægt að tala um ófriðsamlegar aðgerðir þegar er ráðist að saklausu fólki. Handahófskenndar bílabrennur og götuslagsmál eru ófirðsamlegar aðgerðir. Það er hinsvegar ekkert ófriðsamlegt þótt fyrirtæki sem veltir upphæðum sem venjulegt fólk skilur ekki einu sinni (og gerir það með því að níðast á varnarlausum öreigum og valta yfir rétt komandi kynslóða til náttúru og heilsu) verði fyrir truflun þegar verið er að reyna að vekja athygli almennings á því sem pabbi minn vissi ekki þessi 38 ár sem hann vann hjá Alcan en Rannveig Rist er alveg örugglega meðvituð um.

Miriam stofnaði engum manni í hættu með tiltæki sínu. Hún hvatti engan til að fara upp á eftir sér. Hún vissi, það sem þú ert líklega ekki með á hreinu, að lögreglumönnum er uppálagt að gæta alltaf fyllsta öryggis. Hafi það einhverntíma gerst að manni sem ekki var fær um það hafi verið skipað að klifra eitthvert eftir mótmælanda eða öryggisbúnaður ekki notaður, er það handvömm hjá lögreglunni. Ég þekki engin slík dæmi.

Íslendingar eru mjög viðkvæmir fyrir því að reynt sé á ramma laganna. Almennt virðist sá skilningur ríkja að lög séu helgir dómar sem ekki megi ögra. Sannleikurinn er sá að lög eru sett af þingmönnum. Ekki guðum, heldur venjulegu, breysku fólki. Vonandi eru lög oftast sett í þeim tilgangi að tryggja hag almennings. Sum lög eru þó sett til að tryggja hagsmuni fárra. Sum lög gegna fremur því hlutverki að tryggja hag ákveðinna fyrirtækja en að tryggja frelsi og réttlæti.

Lög eru ekki endilega réttlát. Það er ekki langt síðan svartur maður í Suður-Afríku mátti ekki fara inn á almenna veitingastaði. Það voru lög. Í þessum orðum töluðum eru bláfátækir Indverjar á vergangi af því að Alcan tók heimilin þeirra frá þeim. Það er líka löglegt. Landsvirkjun, hagsmunaaðilinn sjálfur sér um að gera umhverfismat fyrir þau svæði sem eru eyðilögð í þágu stóriðju. Það er löglegt. Ríkið tekur landsvæði og vatnsréttindi af eigendum. Það eru lög. Lögmaður ver meinta barnaníðinga á meðan ákæra á hann sjálfan fyrir samskonar brot er í meðferð. Þannig eru lögin.

Öll stærstu réttlætismál sögunnar hafa verið unnin með beinum aðgerðum. Verkalýðsbaráttan, kvennabaráttan, sjálfstæðisbarátta Indverja, afnám aðskilnaðarstefnunnar… öll stóru málin hafa unnist vegna þess að til var fólk sem þorði að ögra valdhöfum. Stóra réttlætismál nútímans er baráttan gegn stórfyrirtækjastefnu. Tvær stærstu greinar þeirrar baráttu eru mannréttindabarátta og umhverfisbarátta. Það er út af fyrir sig fínt innlegg að bera skilti og skrifa blaðagreinar en þetta stríð verður ekki unnið án beinna aðgerða.

Ef svo fer að útlendingum verði gert ófært að beita beinum mótmælaaðgerðum á Íslandi verða afleiðingarnar hræðilegar. Umhverfissinnar munu ekkert láta það stoppa sig heldur finna aðrar aðferðir og sennilega óæskilegri. Þeir Íslendingar sem eru tilbúnir til að taka áhættu á því að fá á sig dóma eru mjög fáir og þegar þeir heltast úr lestinni má búast við að yngra og yngra fólk finni sig knúið til aðgerða. Við getum jafnvel vænt þess að erlendir aktivistar komi hingað í hefndarhug gagnvart yfirvöldum fremur en af umhverfishugsjón. Og þá verður þess ekki langt að bíða að friðsamlegar aðgerðir fari úr böndunum eða að einhver fari í verk sem er honum ofviða.

Ísland þarf á fólki eins og Miriam Rose að halda. Kláru og hugrökku hugsjónafólki sem veit um hvað málið snýst og veit hvað það er að gera. Ef öll plön ná fram að ganga verða 9 álver á Íslandi árið 2012. Það eru engar líkur á því að umhverfissinnar láti það viðgangast án mótspyrnu. Spurningin er ekki hvort aktivismi verður praktiseraður á Íslandi á næstu árum, heldur bara hverjir gera það og hvernig. Meðalaldur innan Saving Iceland hefur hækkað mikið frá því að hreyfingin fór af stað og það er góð þróun. Ég vona að verði hægt að reka þessa baráttu með fullorðnum útlendingum næsta sumar. Verði það ekki, þá munu íslensk börn taka verk þeirra að sér.

 

admin

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

55 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

55 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

55 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

55 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

55 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

55 ár ago