Er fyrirgefning endilega af hinu góða?

Það er nokkuð vinsæl villukenning sem margir andans menn, sálarlífs- og samskiptafrömuðir halda fram, að fyrirgefning sé allra meina bót. Því er þannig oft haldið fram að maður eigi að fyrirgefa þeim sem gera manni illt af því að það sé svo mannskemmandi að burðast með hatur og hefndarfýsn. Gallinn við þessa kenningu er sá að hún virðist alls ekki gera ráð fyrir því að hægt sé að halda hugarró sinni án þess að fyrirgefa. Auk þess virðast þeir sem halda þessu viðhorfi á lofti, reikna með því að hægt sé að fyrirgefa án þess að taka viðkomandi í sátt. Ég sé ekki betur en að það sé stór rökvilla.

Vinkona mín varð fyrir mjög slæmri framkomu sem hún bar virkilegan skaða af en hélt því statt og stöðugt fram að hún væri alveg búin að fyrirgefa misindismanninum þótt hann hefði ekki einu sinni beðist afsökunar. Hún skýrði það þannig að þessi maður hefði þegar eyðilagt svo marga daga af lífi hennar að hún ætlaði ekki að láta hann eyðileggja fleiri daga með því að velta sér upp úr því liðna. Mér fannst þetta út í hött og spurði hana hvort hún myndi þá bjóða honum inn í kaffi ef hann bankaði upp á. Auðvitað ekki sagði hún, hún kærði sig ekki um að sjá hann, heyra í honum né vita af tilvist hans en hún væri samt alveg búin að fyrirgefa honum.

Þetta er auðvitað bull. Það sem konan átti við var einfaldlega að hún væri búin að jafna sig á áföllunum sem hún hafði orðið fyrir af hans völdum og hefði náð hugarró. Hún var auðvitað ekkert búin að fyrirgefa honum. Fyrirgefning felur nefnilega í sér þá hugsun að láta hið liðna að baki, taka hinn brotlega í sátt og finna honum eitthvað til af-sökunar, gefa honum upp sakir. Og það á bara ekkert alltaf við.

Ég álít að fyrirgefning geti verið stórhættulegt fyrirbæri ef hún er notuð af óhóflegu örlæti. Mér þætti það t.d. siðferðislega rangt að segja við stríðsglæpamann: ég erfi það ekkert við þig þótt þú hafir drepið fjölskyldu mína og misþyrmt mér til óbóta, eigum við ekki bara að vera vinir? Ef maður tekur þannig misindismann í sátt án þess að hann hafi sýnt nein merki iðrunar, fær hann þau skilaboð að illar gjörðir hans skipti ekki máli. Hann þurfi ekki að gjalda þeirra og jafnvel að sá sem varð fyrir þeim hafi varla borið skaða af þar sem hann virðist sáttur. Mér finnst þannig fyrirgefning vera óviðeigandi og í raun órökrétt, nema viðkomandi hafi sýnt merki iðrunar og helst gert yfirbót í einhverju formi.

Öðru máli gegnir um hæfileikann til að halda sinni hugarró eða enduheimta hana. Það er engum hollt að liggja andvaka og velta sér upp úr hefndarhug. Það skiptir einnig máli að hafi einhver gert manni illt á hann það sannarlega ekki skilið að maður auki sjálfur á kvalræði sitt með því að velta sér of mikið upp úr því. Það hins vegar kemur fyrirgefningu ekki nokkurn skapaðan hlut við.

 

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago