Allar reglur sem á reyndi voru brotnar

Í morgun var birt álit Umboðsmanns Alþingis vegna rannsóknar hans á afskiptum fyrrum innanríkisráðherra af lögreglurannsókn á máli sem varðaði ráðuneytið sjálft.

Álit UA er allt of viðamikið til að hægt sé að gera því góð skil í stuttu máli en helstu niðurstöður eru þessar:

„… að efni samskipta innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki samrýmst þeim reglum sem ráðherra bar að virða um sjálfstæði og hlutlægni lögreglunnar við rannsókn þessa tiltekna sakamáls.“

„… að tengsl ráðherra og hagsmunir af framvindu rannsóknar þess sakamáls sem embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vann að hafi verið slíkir að samskiptin, miðað við efni þeirra, hafi farið í bága við hina óskráðu meginreglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni.“

„… að í ákveðnum tilvikum hafi þess ekki verið nægjanlega gætt af ráðherra að virða þá stöðu sem lögreglustjórinn var í og þau viðmið um háttsemi sem ráðherra ber að fylgja í samskiptum við forstöðumann undirstofnunar.“

Einnig gerir UA athugasemdir við símtöl aðstoðarmanna ráðherra við lögreglustjórann, en samkvæmt gögnum UA höfðu báðir aðstoðarmenn ráðherra sambandi við lögreglustjóra og fóru þess á leit að hann sendi frá sér yfirlýsingar um málið. Telur Umboðsmaður að það hafi „ekki samrýmst hinni óskráðu reglu um sérstakt hæfi í stjórnsýslunni að þeir kæmu fram fyrir hönd ráðuneytisins gagnvart lögreglustjóranum eða hefðu símasamband við hann til að ræða viðbrögð við frétt sem birst hafði í fjölmiðli tengdri rannsókninni á meðan þeir höfðu réttarstöðu sakborninga við rannsóknina.“

UA segir það heldur ekki geta samrýmst „þeim lagareglum sem eftirlit umboðsmanns Alþingis byggist á að ráðherra eða lögmaður á hans vegum hafi beint samband við þann opinbera starfsmann sem veitt hefur umboðsmanni upplýsingar og krefji hann skýringa á því sem hann hefur greint umboðsmanni frá.“

Ennfremur bendir UA á að hann hafi enn ekki fengið „frekari gögn eða upplýsingar um þá lögfræðilegu ráðgjöf sem ráðherra kveðst hafa fengið innan ráðuneytisins um hvernig haga bæri samskiptum við lögregluna meðan rannsókn málsins stóð yfir.“ Ráðherra er lögum samkvæmt skylt að leita sér ráðgjafar og er niðurstaða UA sú að ekki hafi verið sýnt fram á að þeirri lagaskyldu hafi verið fullnægt.

Þá hafa siðareglur ráðherra og reglur um skráningu formlegra samskipta í Stjórnarráði Íslands verið brotnar.

 

Hver er þá munurinn á broti og broti?

Ekki verður betur séð en að hver einasta regla sem á reyndi í málinu hafi verið þverbrotin. Því hlýtur Alþingi jaft sem hinn almenni borgari að taka undir spurningu Birgittu Jónsdóttur sem borin var fram á fundi stjórnskipunar og eftirlitsnefndar nú í morgun:

Hver er munurinn á broti í starfi og broti á verklags og siðareglum?

Og í beinu framhaldi vakna tvær spurningar:

Hversu margar reglur þarf ráðherra að brjóta og hversu alvarleg þurfa bortin að vera til þess að það varði við ráðherraábyrgð?

Getur ráðherra virkilega skotið sér undan málsókn með því einu að viðurkenna brot sín löngu eftir að þau urðu lýðnum ljós?

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Óþvegni ruddinn frá Nasaret

Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter.…

54 ár ago

Launasvik með andlitslyftingu

Það er ekkert nýtt að þeir sem vilja bæta ímynd sína taki upp ný orð…

54 ár ago

Facebook greiðir starfsfólki með geðröskun miskabætur

Facebook hefur samþykkt að greiða samanlagt 52 milljónir bandaríkjadala miskabætur til starfsfólks sem hefur fengið áfallastreituröskun vegna…

54 ár ago

Eru ráðherrar undanþegnir tveggja metra reglunni?

Mynd Ríkisútvarpsins frá blaðamannafundi í Safnahúsinu á Hverfisgötu í gær hefur vakið nokkrar vangaveltur á ritstjórn…

54 ár ago

Eru álfar kannski menn?

Kórónan hefur svo sannarlega kippt stórum hluta allrar starfsemi samfélagsins úr sambandi. Ein afleiðingin er…

54 ár ago

Daily Mail fær gæðavottun frá íslenska ríkinu

Tjáningarfrelsið á undir högg að sækja, líka í Evrópu. Og nú höfum við fengið staðfestingu…

54 ár ago