Ég er í framboði í prófkjöri Pírata sem nú stendur yfir. Eitt af því sem ég vil sjá á næsta kjörtímabili er meira frelsi og sveigjanleiki í skólakerfinu, í samræmi við nýsamþykkta mennta- og skólastefnu Pírata.
Ég tók mikinn þátt í vinnunni við stefnu Pírata um mennta- og skólamál síðasta rúma árið (sjá hér undir Samþykktir), og tek heilshugar undir þessar tillögur. Mikilvægustu atriðin í þeim finnst mér vera aukinn sveigjanleiki og mikið frelsi skóla, nemenda og kennara till að stjórna kennslu og námi, að skólakerfið eigi að sinna menntunarhagsmunum hvers nemanda, en ekki hagsmunum atvinnnulífs og samfélags (nema óbeint), og að námsefni verði sem mest opið og ókeypis á netinu.
Hér eru nokkur mikilvæg atriði í þessum stefnum:
Tryggja skal öllum möguleika á að stunda það nám sem hver ræður við, án tillits til efnahags, búsetu og aldurs.
Afleggja skal samræmd próf, enda eru þau ekki góður mælikvarði á það sem skiptir máli að nemendur ráði vel við, og þau stjórna skólastarfi í of miklum mæli, með hætti sem er ekki jákvæður.
Bæta þarf framkvæmd stefnunnar um „skóla án aðgreiningar“, í ljósi þess að hún hefur sums staðar leitt til einangrunar nemenda með sérþarfir, í stað þess að þjóna menntun og hagsmunum hvers nemanda. Mikilvægt er í þeirri endurskoðun að hafa samráð við foreldra barna með sérþarfir.
[custom-related-posts title=“Tengt efni“ order_by=“title“ order=“ASC“ none_text=“None found“]