Opið bréf til Steingríms J.

Sæll Steingrímur

Ég var að lesa þennan pistil Björns Vals Gíslasonar: Ríkisstjórn um velferðarmál og jöfnuð

Ég geri ráð fyrir að þú hafir lesið hann líka. Því langar mig að spyrja þig hvort þú ert á sama máli og Björn, og lítir svo á að „hraðar kerfisbreytingar“, svo sem þær hægu breytingar á kvótamálunum sem aðrir flokkar hafa lagt til, séu í andstöðu við velferð og jöfnuð.

Augu þjóðarinnar hvíla á VG, því það eruð þið sem hafið það í hendi ykkar hvort mynduð verður stjórn fimm flokka, eða stjórn með Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn innanborðs. (Ákall um nýjar kosningar er óskiljanlegt; kusu kjósendur vitlaust? Á að hafa vit fyrir þeim og segja þeim að haga sér?)

Ert þú sama sinnis og Björn Valur? Er hópur áhrifafólks innan VG sem vill koma í veg fyrir að gerðar verði „kerfisbreytingar“, breytingar á því kerfi sem íslenska auðvaldið hefur notað áratugum saman til að mergsjúga þá alþýðu sem VG ættu að réttu lagi að vinna fyrir?

Eru það hagsmunir alþýðunnar, en ekki LÍÚ, að viðhalda núverandi kvótakerfi? Eru það ekki hagsmunir almennings að hann fái sjálfur að taka ákvarðanir í mikilvægum málum, svo sem í kvótamálunum, með því að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur? Af hverju ættu LÍÚ, Sjálfstæðisflokkkurinn, Framsóknarflokkurinn og Björn Valur að fá að ráða yfir auðlindinni, en ekki sá yfirgnæfandi meirihluti almennings sem vill „kerfisbreytingar“ í því máli?

Það eru alls konar kerfisbreytingar sem mikill fjöldi fólks vill sjá á Íslandi. Breytingar sem hægt sé að nota til að uppræta þá spillingu sem gegnsýrir valdakerfið, bæði stjórnmála- og peningakerfið. Ætlið þið að standa gegn þeim? Ætlið þið að standa vörð um það gegnrotna kúgunarkerfi sem auðvaldið hefur komið upp, til að hægt sé að mergsjúga það fólk sem ætti að vera umbjóðendur ykkar sem kallið ykkur Vinstri Græn?

Bestu kveðjur, með von um að þú sért að hundskamma Björn Val fyrir að ganga erinda auðvaldins,

Einar

Einnig birt hér

Deildu færslunni