Opið bréf til innanríkisráðherra

Sæl Ólöf

Sem innanríkisráðherra berð þú ábyrgð á þeim málum sem hér er fjallað um: http://www.frettatiminn.is/utlendingastofnun-sendir-stridshrjad-born-aftur-til-talibana/

Þetta er ekki í fyrsta, ekki í annað, ekki í þriðja skiptið sem íslensk yfirvöld sýna af sér svona viðurstyggilega grimmd.

Þú getur ekki skýlt þér á bak við það að ráðherra eigi ekki að blanda sér í afgreiðslu svona mála. Í fyrst lagi hefðir þú, sem æðsti yfirmaður þessara mála og í samræmi við þær hefðir sem gilda um frumkvæði ráðherra í lagasetningu á Íslandi, fyrir löngu átt að beita þér fyrir lagabreytingum til að stöðva þetta sturlaða miskunnarleysi.

Í öðru lagi hlýtur það að vera í þínu valdi sem ráðherra, að stöðva beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar í málum af þessu tagi (og helst að hætta því alveg; reglugerðin var EKKI samþykkt til að lönd eins og Ísland væru stikkfrí í þeim hörmungum sem flóttamannavandinn er). Það er ekkert sem krefur Ísland um að beita þessari reglugerð til að endursenda hælisleitendur, og það er því leikur einn fyrir þig að ákveða að því verði hætt.

Að endingu langar mig að minna þig á að þú ert ekki bara ráðherra dómsmála, heldur líka ráðherra mannréttindamála. Hér er verið að traðka á mannréttindum varnarlauss fólks, þar á meðal barna sem sætt hafa hrottalegri meðferð. Með þessu væri nánast örugglega verið að brjóta gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem og Mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagt þungar skyldur á aðildarríkin varðandi endursendingar hælisleitenda í tilfellum sem þessum.

Ábyrgðin er þín, Ólöf, og þú getur ekki skorast undan henni. Það ert þú sem berð ábyrgð á því að þessum börnum verði ekki úthýst. Það ert þú sem berð ábyrgð á velferð þeirra. Ekki leggja það á samvisku þína að hafa eyðilagt líf þessara varnarlausu barna.

Með von um að þú sjáir að þér,

Einar

Deildu færslunni