Sannleiksförðun og karlaníð Hrannars B. Arnarssonar

Það er mörg manneskjan nú um stundir sem vill slá sig til riddara með því að berja sér ógurlega á brjóst og krukka með bitlausum kuta í ræksnið af karlaveldinu, sem liggur í andarslitrunum, og þótt fyrr hefði verið. Það er engin ástæða til að amast við því í sjálfu sér, en hitt er dálítið lakara að í stað þess að fagna dauða þursins espa hinir blóðþyrstu til áframhaldandi ófriðar, nú gegn helmingi samfélagsins, þeim sem hafa fæðst karlkyns, án þess að vera spurðir hvort þeir kærðu sig um það, og þótt nánast engir þeirra hafi nokkurn tíma tilheyrt neinu karlaveldi.

Nýjastu atlöguna að þessu máttfarna skrímsli gerði hinn hugumprúði riddari Hrannar B. Arnarsson, núverandi framkvæmdastjóri flokkahóps jafnaðarmannna í Norðurlandaráði. Vopn hans í árásinni eru heimildir um heimilisofbeldi á Norðurlöndunum og framferði ISIS-liða, enda virðist hann telja hvort tveggja runnið af sömu rótum, hinu illa karlaveldi.

Hrannar tvinnar saman ýmsar staðreyndir, og gerir það listavel (gefi maður sér að markmið hans hafi verið að blekkja lesandann en ekki að þjóna sannleikanum). Hann segir meðal annars þetta:

„Samkvæmt norrænum rannsóknum, er algengast að morð séu framin í tengslum við heimilisofbeldi eða í nánum samböndum einstaklinga. Á Íslandi hafa 10 slík morð verið framin á liðnum 12 árum, eða um 60% allra morða á tímabilinu og í Noregi voru 206 morð, eða um fjórðungur allra morða á tímabilinu frá 1990-2014 framin af einstaklingi sem átti í nánu sambandi við hinn myrta. Í Finnlandi eru 17 konur myrtar með þessum hætti á hverju ári og í Svíþjóð 21 kona.

Sú staðreynd blasir einfaldlega við, að jafnvel á Norðurlöndunum, þar sem jafnrétti kynjanna er mest í öllum heiminum, er líklegra að konur verði myrtar af núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti sínum, en nokkrum öðrum einstaklingum eða öfgahópum. Morð í tengslum við heimilisofbeldi eða náin sambönd einstaklinga, eru þó aðeins ein birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla.“

Í fyrri efnisgreininni talar Hrannar fyrst um öll makamorð (morð í nánum samböndum) á Íslandi, en lýkur henni svo með því að tala um konur sem myrtar eru af maka. Í seinni efnisgreininni talar hann svo eingöngu um makamorð karla á konum og staðhæfir að konur á Íslandi séu líklegri til að falla fyrir hendi maka en nokkurs annars. Vel má vera að það sé rétt, en þær tölur sem Hrannar nefnir sýna það alls ekki. Hann virðist hafa blekkt sjálfan sig, því vonandi var hann ekki vísvitandi að reyna að blekkja lesendur.

Hrannar talar hér eins og þessi 60% morða á Íslandi á síðustu 12 árum sem framin voru í tengslum við heimilisofbeldi séu morð karla á konum, og dregur þá ályktun að um sé að ræða „birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla.“ Samkvæmt tölum Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar (neðst til hægri í þessu skjali) voru reyndar framin 11 en ekki 10 morð af þessu tagi á Íslandi á árunum 2003-14. Af þeim voru þrjú framin af konum og varla geta þau morð verið „ein birtingarmynd þess ofbeldis sem konur búa við af hendi karla“, eða hvað?

Mér virðist (af því að skoða dóma siðasta árs í héraði og Hæstarétti) að eina makamorðið árið 2015 hafi verið þetta, þar sem kona myrti maka sinn. Miðað við það hafa á síðustu 13 árum verið framin tólf makamorð, fjögur þeirra af konum. Það er að segja, svo virðist sem einn þriðji makamorða síðustu 13 ára, eða 33%, hafi verið framinn af konum.

Samt dregur Hrannar þessa ályktun í lok greinar sinnar:

„Því ætti að vera óhætt að fullyrða að alvarlegasta ofbeldisógn samtímans er ekki hryðjuverk eða einstök trúarbrögð, heldur ofbeldi karla gagnvart konum. Og þannig hefur það verið um áratugaskeið, þó að fram til þessa hafi lítið borið á liðssafnaði eða aðgerðum okkar ástsælu stjórnmálaleiðtoga til höfuðs þessari meinsemd hins ofbeldisfulla karlaveldis – eða feðraveldis, eins og það heitir víst samkvæmt fræðunum.“

Burtséð frá því hversu óheiðarlegt það er að gefa í skyn að makamorð á Íslandi séu bara morð karla á konum, þegar staðreyndirnar eru allt aðrar, þá er líka vitfirring að tala um þessi morð sem verk einhvers konar karlaveldis. Á síðustu 13 árum (sem þessar tölur fjalla um) hefur um það bil einn af hverjum tuttugu þúsund karlmönnum á Íslandi myrt maka sinn (og ein af hverjum fjörtíu þúsund konum). Að draga þá ályktun að þessi morð tengist einhverju sem sé sameiginlegt karlmönnum, af því að 0,005% þeirra fremji svona glæp, lýsir hugsunarhætti sem á ekkert skylt við rökhugsun.

Markmið Hrannars, og flestra þeirra sem hamra endalaust á því að á Íslandi ríki karl- og feðraveldi, er ekki að færa rök fyrir máli sínu, né heldur virðist það vera að bæta eitt eða neitt, því ekki er að sjá neinar tillögur um hvernig hægt væri að fækka makamorðum sem eru víst feðraveldinu að kenna. Markmiðið er augljóslega að kynda undir venslasekt allra karlmanna; þeir skulu allir stimplaðir samsekir því örlitla broti þeirra sem eru ofbeldismenn og morðingjar. Það er sama markmiðið og allir lýðskrumarar hafa sem finnst handhægt að geta bent á tiltekinn þjóðfélagshóp og kennt honum um allt sem miður fer.

Einnig birt hér

Deildu færslunni