Skrípaleikur Karls Garðarssonar með tölur

Í þessari frétt á Eyjunni er haft eftir Karli Garðarssyni, þingmanni Framsóknar, að gagnrýni Kára Stefánssonar á afstöðu ríkisstjórnarinnar til fjárframlaga til Landspítalans sé „pólitískur skrípaleikur“. Það rökstyður hann með því að benda á að framlög til LSH hafi aukist um 30% á síðustu þrem árum, og slíkt hafi varla gerst annars staðar á byggðu bóli.

Staðhæfing Karls, um aukninguna á síðustu þrem árum, virðist vera nokkurn veginn rétt, nema hvað ekki er tekið tillit til verðþróunar (á föstu verðlagi er þetta 23,3% hækkun frá 2012 til 2015). Það vantaði hins vegar dálítið í þessa sögu hjá Karli; hann byrjaði söguna á „heppilegum“ stað.

Samkvæmt gögnum frá Velferðarráðuneytinu (Tafla 5, á bls. 12), líta framlög til LSH svona út síðan 2008 (á föstu verðlagi ársins 2015, þegar búið er að bæta við því aukaframlagi sem LSH fékk á þessu ári):

Það er rétt hjá Karli að hækkunin síðustu þrjú ár hefur verið mikil. En eins og sjá má á töflunni hefur hækkunin frá árinu 2008 verið nánast engin, þ.e.a.s. 0,1 milljarður eða 0,2%. Núll komma tvö prósent …

Það segir heldur ekki alla söguna, því ljóst er að gríðarlegur niðurskurður á árunum þar á milli hefur skapað uppsafnaða fjárþörf til að halda í horfinu, sem ekki hefur verið bætt úr.  Miðað við að spítalinn hefði fengið sama framlag öll árin eru það samtals rúmir 42 milljarðar sem skorið hefur verið niður um.

Karl Garðarsson sagði sem sagt nokkurn veginn satt. En útkoman úr því sem hann sagði var hins vegar ósmekkleg lygasaga, því hann notaði þetta til að gefa í skyn að ástandið væri alls ekki svo slæmt, og að það væri eitthvað mikið að fólki sem leyfði sér að gagnrýna það.

PS. Kærar þakkir til Guðbjargar Pétursdóttur, sem benti mér á þessi gögn.

Einnig birt hér

Deildu færslunni