Opið bréf til Ólafar Nordal um hælisleitendur

Sæl Ólöf,

Þegar ég ákvað að skrifa þér var það þessi frétt sem ég hafði í huga, og ætlaði eiginlega bara að fjalla um hana:

http://www.dv.is/frettir/2015/12/8/fjogurra-manna-fjolskylda-rekin-ur-landi-langveikur-sonur-faer-ekki-lyf/

Og bara að biðja þig, kurteislega og innilega, að sýna ekki þá grimmd að vísa þessu fólki úr landi. Sem ég geri hér með. En, svo rifjuðust upp fyrir mér fleiri mál sem þú berð ábyrgð á.

Íslensk yfirvöld hafa hræðilega oft komið illa fram við hælisleitendur síðustu árin. Ég þekki vel til nokkurra mála þar sem bæði Útlendingastofnun og forverar þínir á ráðherrastóli hafa tvímælalaust brotið gegn þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að. Ísland hefur ekki beinlínis fengið neina dóma á sig hjá Mannréttindadómstóli Evrópu í málefnum hælisleitenda enn sem komið er, en óhætt er að segja að einn af forverum þínum hafi gert sig sekan um mannréttindabrot samkvæmt dómum MDE, eins og fram kemur í því sem er reifað hér, um brot sem afsökuð voru, ranglega auðvitað, með Dyflinnarreglugerðinni:

http://stofnanir.hi.is/mannrettindastofnun/sites/files/mannrettindastofnun/Mannrettindi%201%20hefti%202011%203%20pr.pdf

Nýlega var sagt frá því í fréttum að til stæði að senda hælisleitendur tilbaka til Ítalíu, með skírskotun til Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er ómannúðlegt í meira lagi, því allir vita hvernig staðan er í málum flóttamanna þar. Það er líka lítilmannlegt af jafn ríku landi og Íslandi, sem hefur tekið á móti svo ótrúlega fáum hælisleitendum. Ég vona að þú takir ekki þá áhættu að MDE muni úrskurða að þú hafir gert þig seka um mannréttindabrot, sem væri ekki bara ljótt í sjálfu sér, heldur enn verra í ljósi þess að þú ert æðsta vald í mannréttindamálum á Íslandi.

En ef þú stöðvar ekki brottvísanir til Ítalíu, sem þú hefur sjálf lýst yfir að sé ekki „öruggt land“ (sem er alveg rétt hjá þér), þá áttu á hættu að verða dæmd sek. Ekki bara af MDE, heldur líka af sögunni, eins og forverar þínir sem vísuðu gyðingum á dyr fyrir áttatíu árum eða svo.

Ef þú ert heiðarleg manneskja, sem ég geng út frá, og mannvinur, frekar en hitt, sem ég geng líka út frá, þá sé ég ekki að þú eigir neina kosti aðra en að lýsa yfir, og sjá til, að engri manneskju verði vísað tilbaka til Ítalíu, Grikklands eða Ungverjalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Sú reglugerð var ekki sett til að lönd eins og Ísland gætu komist hjá því að sýna mannúð og sanngirni. Að íslensk yfirvöld reyni að notfæra sér þessa reglugerð er í besta falli grimmdarlegt, en trúlega líka mannréttindabrot. Sem yrði á þína ábyrgð. Á þína ábyrgð, sem ráðherra mannréttindamála á Íslandi.

Hugsaðu málið, Ólöf. Hugsaðu málið og veltu fyrir þér hvort þú vilt kannski hætta á að veita dvalarleyfi fólki sem þú gætir mögulega komist upp með að halda fram að eigi ekki rétt á því. Eða frekar hætta á að senda fólk út í algera óvissu, eða eitthvað þaðan af verra. Hvort þú vilt hætta á að brjóta gegn því sem heilagast á að vera í mannheimum, mannréttindum. Og taka þá áhættu að verða dæmd af sögunni, eins og þeir sem úthýstu gyðingunum, og verða dæmd eins og allir nema einn vegfarendanna í sögunni um miskunnsama Samverjann.

Hugsaðu málið, Ólöf.

Bestu kveðjur,

Einar

Deildu færslunni