Rektor HÍ eyðir milljón í eigin valdhroka

Fyrr á þessu ári sótti ég um stöðu rektors Háskóla Íslands. Ég var eini umsækjandinn erlendis frá (enda var starfið bara auglýst innanlands, þvert á reglur skólans og kotroskið tal forystu hans um glæsta stöðu á alþóðavettvangi). Þegar ég spurði háskólaráð hvort það hygðist standa fyrir kynningum á umsækjendum fyrir starfsmenn og stúdenta, sem kjósa rektor, var það ekki ráðið sem svaraði heldur rektor, Kristín Ingólfsdóttir. Hún sagði að ekkert slíkt stæði til, heldur væri bara treyst á að utanaðkomandi félagasamtök sæju um það, eins og áður hefði verið gert. Hún tók þó fram að gengið væri út frá því að þeir aðilar, t.d. félag prófessora, gættu þess að tryggja jafnræði meðal umsækjenda hvað það varðaði.

Þar sem rektor sendi fyrirspurnir mínar, sem ég stílaði á háskólaráð, ekki til ráðsins, þrátt fyrir skýra beiðni mína um það, gróf ég á endanum upp netföng meðlima ráðsins og sendi formlegt erindi beint til þess. Þar spurði ég hvort ráðið hygðist standa fyrir kynningum á umsækjendum og hvort það hygðist greiða kostnað minn af ferðum til landsins vegna slíkra kynninga (enda skapar það augljóslega ójafnræði miðað við umsækjendur innan skólans að þurfa að ferðast til landsins, fyrir utan sjálfan kostnaðinn, og ég þekki engan annan háskóla sem ekki greiðir ferðakostnað vegna kynningar þeirra sem koma til greina í akademískar stöður).

Rektor er forseti háskólaráðs og því fór ég líka fram á að rektor viki sæti þegar háskólaráð fjallaði um þessar málaleitanir mínar, þar sem einn umsækjenda var aðstoðarrektor, einn nánasti samstarfsmaður rektors til margra ára, valinn af henni sjálfri, sem ég taldi að gerði hana vanhæfa til að fjalla um málið.

Í stað þess að víkja sæti, þótt ekki væri nema til að forðast allan grun um óeðlileg hagsmunatengsl, var ákveðið að fá tvö lögfræðiálit, frá lögfræðistofum úti í bæ. Þessi álit röktu hvernig úrskurðað hefði verið í málum af þessu tagi, og sögðu að allt ylti þetta á því hvort um nána vináttu væri að ræða milli rektors og aðstoðarrektors. Væri ekki um slíka vináttu að ræða hefði hingað til ekki verið úrskurðað að um vanhæfi væri að ræða, en annars gæti það verið til staðar. Háskólaráð úrskurðaði einróma að Kristín væri ekki vanhæf, þótt ekki væri útskýrt hvernig ráðið hefði skorið úr um hversu miklir vinir hún og aðstoðarrektor væru, og Kristín sat svo fundinn þar sem fjallað var um þessi mál mín.

Hver ákvað og hvað kostuðu álitin?

Þegar ég frétti af því að skólinn hefði látið gera þessi lögfræðiálit skrifaði ég lögfræðingi skólans, Elínu Blöndal, og spurði hver hefði tekið ákvörðunina um það, og hvað það hefði kostað. Þetta var 8. mars. Ég fékk svar næsta dag þar sem Elín sagði „ég hef móttekið spurningar þínar og mun svara þeim eins fljótt og unnt er, það kann þó að dragast um nokkra daga vegna miklla anna og málafjölda.“ Ég ítrekaði fyrirspurnina 17. mars, 20. mars, 7. apríl, og við rektor 8. apríl. Þann 9. apríl skrifaði Elín mér að „erindi þín hafa verið móttekin og verða afgreitt fljótlega, það hefur því miður dregist vegna mikilla anna og ert þú beðinn velvirðingar á því.“ Ég ítrekaði spurningarnar einu sinni enn þann 12. maí, en þegar ég hafði engin svör fengið þann 17. maí kvartaði ég til umboðsmanns Alþingis. Hann sendi háskólanum bréf þar sem farið var fram á upplýsingar um hvað liði meðferð málsins.

Í gær, 9. júni, fékk ég svo bréf frá Elínu Blöndal. Þar svaraði hún spurningunum tveimur, sem ég bar upp þrem mánuðum áður. Svörin voru ekki flókin: Það var rektor sem ákvað sjálf að fá þessi lögfræðiálit. Þau kostuðu 681 þúsund krónur, auk virðisaukaskatts. Með virðisaukaskatti hafa álitin þá væntanlega kostað háskólann rúmlega 840 þúsund.

Þótt það sé auðvitað aukaatriði, þar sem um prínsípmál var að ræða, þá mátti ráðið vita að kostnaðurinn við að borga t.d. tvær ferðir fyrir mig til landsins yrði varla meiri en hundrað þúsund. Hitt er verra, að Kristínu datt ekki í hug að þótt ekki væri hægt að sýna fram á að hún væri ekki augljóslega vanhæf samkvæmt lögum væri skynsamlegra að víkja sæti, af því að góðir stjórnsýsluhættir snúast meðal annars um að forðast að grunur vakni um hagsmunaárekstra. Þetta er því miður rótgróið viðhorf í íslenskri stjórnsýslu, sem hefur lítið breyst síðan Vilmundur Gylfason lýsti því með hinum fleygu orðum „löglegt en siðlaust“.

Þessar 840 þúsund krónur sem Kristín lét háskólann borga til að þurfa ekki að víkja sæti, og láta þar með aðra meðlimi háskólaráðs um að afgreiða mál þar sem augljóslega mátti efast um hæfi hennar, eru þó ekki eini kostnaðurinn sem af því hlaust. Samtals hafa opinberir aðilar haft af þessu kostnað sem er varla undir milljón. Milljón úr vösum almennings, og skóla þar sem forystan klifar endalaust á því að hann sé fjársveltur.

Þess má svo geta að ég kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna þeirrar ákvörðunar Kristínar og háskólaráðs að hún viki ekki sæti. Niðurstaða hans var í samræmi við lögfræðiálitin tvö. Hins vegar birti HÍ frétt um það á vef sínum og þar tókst ekki betur til en svo að rangt var farið með. Umboðsmaður sagði, eðlilega, ekki að „tengsl rektors og aðstoðarrektors“ væru „ekki með þeim hætti að það leiði til vanhæfis rektors“, enda gerði hann enga rannsókn á því hver persónuleg tengsl þeirra væru. Einungis var útskýrt að vanhæfið ylti á umræddum persónulegum tengslum, og að „sönnunarbyrðin“ væri hjá þeim sem kvartaði. Þótt ég hafi tvisvar bent rektor á þessa rangfærslu hefur fréttin enn ekki verið leiðrétt.

Einnig birt hér