Fyrir nokkrum vikum hélt Guðbjörg Jóhannesdóttir, sóknarprestur í Langholtskirkju, predikun sem bar yfirskriftina „Drengirnir okkar sem nauðga“. Það virðist vera svo að nauðgarar fyrirfinnist í öllum þjóðfélagshópum, þeir séu engin „sérstök tegund“, umfram það að vera nauðgarar. Því liggur beint við að álykta að meðal presta séu ekki síður nauðgarar en meðal annarra samfélagshópa. Þess vegna er fyrirsögn þessa pistils alveg jafn eðlileg og réttlætanleg og yfirskriftin á predikun Guðbjargar.
En, í hvorugu tilfellinu er þetta réttlætanlegt. Í báðum tilfellum er talað um fólk sem tilheyrir tilteknum hópi sem nauðgara, þótt það að tilheyra slíkum hópi þýði auðvitað alls ekki að viðkomandi sé einu sinni líklegur til að vera nauðgari.
Fyrir skömmu sagði svo Steinunn Stefánsdóttir, varaformaður Kvenréttindafélags Íslands, þetta í ræðu:
„Við viljum ekki búa í samfélagi þar sem sá ótrúlegi hlutur gerist aftur og aftur, að lítill mjúkur og ilmandi hvítvoðungur taki einhverjum áratugum síðar upp á því að nauðga vinkonu sinni eða beita konu sína ofbeldi.“
Talið um „drengina okkar sem nauðga“, um að karlar sem hópur kúgi konur sem hóp, hvað þá að nauðganir séu „eitt skýrasta birtingarform karllægra yfirráða í samfélaginu almennt“, eru af sama toga og hatursáróður gegn gyðingum eða múslimum eða konum. Hér er um að ræða það sem á ensku er kallað „guilt by association“, og gæti á íslensku heitið venslasekt, þar sem sök er klínt á saklaust fólk af því að það tilheyrir hópi sem ásakandinn hefur illan bifur á, vegna fordóma.
Þessi sóðalegi áróður, þar sem allt illt sem sumir karlar gera (og reyndar konur líka) er gert að sakarefni fyrir karlmenn sem hóp, er afar algengur, jafnvel meðal fólks í valda- og áhrifastöðum. En hann er ekki til þess fallinn að bæta eitt eða neitt, ekki frekar en annar áróður af sama toga. Nema valdastöðu þeirra sem nota hann sér til framdráttar.
Og þessi áróður verður ekki skárri fyrir þá blíðmælgi sem bæði Guðbjörg og Steinunn nota hér. Þvert á móti er það vitnisburður um nöturlegt viðhorf í samfélaginu að annars kurteist fólk skuli tala eins og það sé sjálfsagt mál að spyrða unga drengi og jafnvel (karlkyns) hvítvoðunga við nauðganir. Það ætti að vekja alveg jafn hörð viðbrögð og ef við töluðum daglega um prestana okkar sem nauðgara.