Í gær fengu nokkrir þingmenn, þeir sem sitja í allsherjar- og menntamálanefnd, að skoða þær reglur sem lögreglan hefur sett um notkun sína á vopnum. Það hefur væntanlega verið lögreglan sjálf sem allra náðarsamlegast leyfði nokkrum manneskjum á þinginu, sem á að fara með æðsta vald þjóðarinnar, að berja augum þessar leynilegu reglur, með því skilyrði að þingmennirnir tækju ekki afrit og segðu alls engum frá.
Alþingi á reyndar, eðlilega, að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu, en eins og gildir um fleiri mál (t.d. mannréttindi mótmælenda) virðist lögreglan vera hafin yfir öll lög í landinu, þar með talda stjórnarskrána.
Lögreglan er sem sagt með reglur, sem hún hefur sett sjálf, um það hvenær hún megi drepa þig. En þú mátt ekki vita við hvaða aðstæður hún telur að henni sé það leyfilegt. Og nei, það er enginn sem hefur neitt eftirlit með þessu, lögreglan ræður því alveg sjálf hverja hún má drepa og hvenær.