Þarf að reka 80% háskólakennara á Íslandi úr 40% af starfi sínu?

Það er best að taka fram strax að þær tölur sem hér eru nefndar eru alls ekki nákvæmar.  En þær eru nógu nálægt lagi til að gefa raunsanna mynd af fáránleika málsins.  Það er líka rétt að taka fram að þótt ég fjalli ekki um Háskólann í Reykjavík, þá er ekki allt í sómanum þar, þótt vandamálið sem ýjað er að í fyrirsögninni eigi síður við þar.

Á Íslandi er hlutfallslega álíka margt fólk í háskólanámi eins og mest gerist í heiminum.  Í flestum löndum með svo stórt háskólakerfi er það gjarnan tvískipt (eða jafnvel þrískipt).  Kalifornía er ágæt til samanburðar við Ísland, því þar er langstærstur hluti háskólakerfisins rekinn af ríkinu og auðvelt að finna nokkurn veginn fjölda nemenda í kerfinu öllu (og einnig í  einkaskólunum).
Að vísu eru líklega hlutfallslega miklu fleiri útlendingar í akademískum stöðum í Kaliforníu en á Íslandi og hlutfallslega miklu fleiri Íslendingar sem fara í nám erlendis, ekki síst framhaldsnám, auk þess sem mikill fjöldi íslenskra háskólakennara starfar erlendis.  Þannig má ganga út frá því að hlutfall hæfra akademískra starfsmanna sé miklu hærra í Kaliforníu, og hlutfall góðra nemenda (sem eiga erindi í nám í rannsóknaháskóla)  líka.
Í Kaliforníu, þar sem búa 38 milljónir, eru líklega um 10-15% háskólanemanna í rannsóknaháskólum, þar sem þær kröfur eru gerðar til kennara að þeir séu líka virkir í rannsóknum.  Það myndi varla samsvara nema 2.500 nemendum á Íslandi, ef Ísland væri með jafn öflugt framhaldsnám og Kalifornía, sem ekki er raunin.  En, á Íslandi eru allir háskólanemar, um 18.000, í skólum sem þykjast vera rannsóknaháskólar.  Af þeim eru um 15.000 í ríkisháskólunum, þar sem allir akademískir starfsmenn fá 40% launa sinna fyrir að stunda rannsóknir.

Er Ísland eitthvað sérstakt?

Það er því varla ofreiknað að 80% akademískra starfsmanna háskóla á Íslandi séu á launum við að stunda rannsóknir sem ekkert vit er að setja peninga í.  Nema við göngum út frá því að þetta hafi allt verið satt sem sagt var fyrir hrun, og Íslendingar séu í raun ofurmenni í alþjóðlegum samanburði.
Hitt er svo annað mál að það þarf varla tölfræðilegan samanburð af þessu tagi til að komast að þeirri niðurstöðu að eitthvað mikið sé að; það er nóg að kynna sér af handahófi rannsóknaframlag akademískra starfsmanna íslensku ríkisháskólanna.  (Og þá þarf að geta þess fyrst að í þessum háskólum, aðallega HÍ, er að finna mikið af góðu vísindafólki, og talsvert af fólki sem stendur framarlega á alþjóðavettvangi á sínu sviði.  Það fólk líður einmitt fyrir það hvernig takmörkuðu rannsóknafé ríkisskólanna er varið í undirmálsfólk, á meðan umhverfi þeirra sem eitthvað geta versnar í mörgum tilfellum ár frá ári.)
En, þótt til sé talsvert af góðu vísindafólki á Íslandi hafa ansi  margir starfsmanna ríkisháskólanna aldrei stundað neinar rannsóknir sem eru gjaldgengar í því alþjóðasamfélagi sem íslensku skólarnir þykjast vilja standa framarlega í.  Þess vegna er líka gefinn út urmull af „ritrýndum fræðiritum“ á íslensku, á sviðum eins og menntavísindum, hjúkrunarfræði, sálfræði, verkfræði og viðskiptafræði.  Það liggur í augum uppi að það er ekki hægt að viðhafa alvöru ritrýningu í svo örlitlu fræðasamfélagi sem Ísland er, því þeir örfáu sérfræðingar sem til eru á hverju sviði þekkjast allir, og starfa gjarnan í sömu háskóladeildinni.  Enda dytti engum sæmilegum háskóla í hug að vera með sín eigin tímarit, sem tækju við greinum bara frá starfsmönnum skólans, sem væru svo ritrýndar eingöngu af starfsmönnum sama skóla.  Hvað þá á tungumáli sem bara einn af hverjum tuttugu þúsund jarðarbúum les.  Þetta er eitt af því sem er hollt að reyna að útskýra fyrir útlendingum, sem jafnan stara á mann eins og maður sé að segja mjög ófyndinn brandara.
Það er að sjálfsögðu fáránlegt að gefa út „fræðirit“ á íslensku á sviðum sem augljóslega eru alþjóðleg í eðli sínu.  Tilgangurinn er auðvitað sá að akademískir starfsmenn háskólanna geti safnað sér þeim stigum sem þarf til að fá framgang og auknar launagreiðslur, fyrir ritverk sem ekki er hægt að fá birt einu sinni í lökum alþjóðlegum tímaritum, af því að verkin eru einfaldlega of ómerkileg.  Það er fleira galið við stigakerfi ríkisháskólanna, því það mælir nánast bara magn, en ekki gæði, og hvetur því til framleiðslu á ómerkilegum rannsóknum.  Enda er það engin furða að hvergi utan Íslands hefur nokkrum sæmilegum háskóla dottið í hug að nota slíkt kerfi.
Hvað væri hægt að gera?
Ég hef stundum velt fyrir mér að skrifa um þetta langa grein þar sem bent væri á dæmi um fáránlegar „ritrýndar“ birtingar, t.d. greinar sem byggja á skoðanakönnunum um viðhorf fólks til einhverra óljósra hluta  þar sem þáttakendur eru örfáir, ekki valdir af handahófi, svarshlutfallið innnan við 50% og niðurstöðurnar segja greinilega ekki nokkurn skapaðan hlut, þótt dregnar séu ályktanir um að hlutirnir „gætu“ kannski verið svona eða hinsegin, og að rétt væri að gera „eigindlega“ rannsókn til að komast að einhverju sem engin leið er að sjá að svaraði neinum spurningum sem ættu erindi lengra en í vangaveltur um daginn og veginn í dagblaði.  Eða manneskjur sem fengið hafa framgang í prófessorsstöðu án þess að hafa birt eina einustu ritrýnda grein, hvað þá að hafa lokið doktorsprófi.  Eða prófessora með doktorspróf en nánast engar birtingar á alþjóðavettvangi eftir það.   Ef þetta væru einstaka undantekningar væri ástæðulaust að gera mikla rellu út af því, en þetta er miklu algengara en flesta grunar sem ekki hafa kynnt sér málið.
Vandamálið við að skrifa slíka grein er að í eins litlu samfélagi og á Íslandi er ekki gott að benda opinberlega á þá einstaklinga sem um ræðir, því auðvitað er það sárt fyrir þá, og ekki við þá að sakast, heldur hina sem bera ábyrgð á sjálfu kerfinu.  Auk þess er vandamálið ekki endilega  þessi öfgafyllstu dæmi, heldur hitt að  mikill fjöldi akademískra starfsmanna íslensku háskólanna nær ekki því máli að vera gjaldgengir á þeim alþjóðavettvangi sem þessir skólar ættu að starfa á.  En, það væri hægur leikur að gera úttekt á þessum málum og manni getur fundist það skrítið að yfirvöld menntamála skuli aldrei hafa látið gera alvöru slíkar úttektir, til að fá raunsætt mat (óháðra erlendra aðila) á stöðunni.  Slíkar úttektir eru gjarnan gerðar í erlendum háskólum, og ekki í þeim tilgangi að kaupa falskan gæðastimpil heldur til að fá mat á hver raunverulegur styrkur er á hinum ýmsum sviðum rannsóknastarfsins.  Á grundvelli slikrar úttektar væri hægt að skipta íslenska háskólakerfinu upp í lítinn rannsóknaskóla og svo kennsluskóla sem ekki þættist vera með rannsóknir, heldur bara áherslu á góða kennslu.
Helsta ástæða þess að slíkar kannanir eru ekki gerðar er auðvitað hið undursamlega íslenska klíkusamfélag (auk skiljanlegrar hræðslu forystu HÍ við útkomu slíkrar könnunar).  Undirmálsfólkið sem hefur tögl og hagldir í háskólakerfinu er nefnilega í afar góðu „talsambandi“ við þau yfirvöld sem bera æðstu ábyrgð á þessu kerfi, og þess vegna ríkir djúpur og gagnkvæmur skilningur á tilgangsleysi þess að rugga bátnum, hvað þá að benda á að hann er hriplekur.
Ef svo ólíklega vildi til að nýr menntamálaráðherra hefði aðrar skoðanir á þessu en fyrirrennarar hans ætla ég að benda honum á að lesa þessa álitsgerð, þar sem reifaðar eru tillögur um hvernig hægt væri að stórefla íslenska hákólakerfið.  Það væri meira að segja hægt að gera án þess að auka fjárframlög, ef hætt væri að greiða fólki fyrir rannsóknir sem annað hvort eru engar eða svo lélegar að þær fást ekki birtar fyrir utan landsteina þessa smáríkis.

Deildu færslunni