Eiginlega ætti ekki að þurfa að segja meira til þess að fólki sortni fyrir augum en það sem sagt er frá í þessari frétt:
Samtök atvinnulífsins og Háskólinn á Bifröst stofnuðu í dag Rannsóknastofnun atvinnulífsins – Bifröst, en á vegum hennar verður unnið að margvíslegum rannsóknaverkefnum í þágu atvinnulífsins. Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að leggja Rannsóknastofnuninni lið næstu tvö árin og skapa með því sterkan grunn fyrir stóraukið rannsóknastarf í þágu atvinnulífsins.Rannsóknastofnun atvinnulífsins mun starfa sem sjálfstæð stofnun innan Háskólans á Bifröst og vera undir forystu rektors skólans.
Háskólinn á Bifröst fær með þessu samstarfi afar mikilvægan stuðning frá Samtökum atvinnulífsins, sem auðveldar skólanum mjög að laða góða kennara og nemendur að skólanum og bæta gæði skólastarfsins sem hefur fyrst og fremst þann tilgang að mennta fólk til leiðandi hlutverka í íslensku atvinnulífi og samfélagi.
En kannski þarf, þrátt fyrir allt, að rifja upp hugmyndirnar um hlutverk háskóla (sem vilja standa undir nafni sem sjálfstæðar rannsóknastofnanir, en ekki áróðursstofur fyrir ríka hagsmunaðila): Háskólar eiga að stunda rannsóknir, sem þýðir að leita nýrrar þekkingar, og í þeirri þekkingarleit mega engir utanaðkomandi hagsmunir leiða menn á villigötur. Þess vegna taka háskólar með lágmarks sjálfsvirðingu ekki í mál að láta hagsmunaaðila fjármagna starf sem snýst um rannsóknir á fyrirbærum þar sem viðkomandi aðilar hafa hagsmuna að gæta, af því að hættan er augljós að þessir hagsmunir ráði för í starfinu og eyðileggi hlutlægni rannsakendanna.
Forysta Háskólans á Bifröst er með nýstárlegri hugmyndir um þekkingarleit, sem ef til vill mætti kalla þjónustulund, og þess vegna hefur hún nú undirritað þjónustusamning við Samtök atvinnulifsins.
Og hverjir undirrituðu svo samninginn? Jú, Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins og Vilhjálmur Egilsson, sem var framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins þar til Víglundur tók við, fyrir þrem mánuðum. Vilhjálmur er nú rektor Bifrastar, þar sem hann ætlar að stjórna „rannsóknunum“ á íslensku atvinnulífi, ekki síst á fyrirkomulagi kjarasamninga. Fyrir peninga frá Samtökum atvinnulífsins …
Háskólar sem ekki vilja láta hafa sig að háði og spotti gera sér far um að tryggja að akademískir starfsmenn þeirra njóti þess sem kallað er akademískt frelsi, og reyndar hafa allir háskólar landsins skrifað undir yfirlýsingu þess efnis. Háskólinn á Bifröst virðist hins vegar hafa aðrar hugmyndir um hvert sé hlutverk háskólans og akademískra starfsmanna skólans. Nefnilega að þjóna voldugum hagsmunaaðilum, sem borga pening fyrir.