Að koma í veg fyrir meirihluta B+D

Því hefur verið haldið fram síðustu daga að öruggasta leiðin til að koma í veg fyrir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur fái meirihluta á þingi sé að kjósa Samfylkinguna eða VG, frekar en Dögun eða Lýðræðisvaktina (LV).  Þetta er rangt.

Samanlagt fylgi Dögunar og LV mælist nú 6,5%.  (Vera má að þessar kannanir sýni ranga mynd, en það er á þessari forsendu sem ofangreind staðhæfing byggir.)  Ef allt þetta fylgi færðist yfir á VG og S, þá er trúlegast að það myndi auka samanlagðan þingstyrk þeirra um fjögur sæti.
Ef hins vegar VG og S sæju af þeim 3,5% sem þarf til að bæði Dögun og LV kæmust upp í 5% myndu síðarnefndu framboðin fá samtals sex þingsæti, og þessi 3,5% myndu trúlegast kosta VG og S bara tvö sæti. „Nettógróði“ andstæðinga B+D-stjórnar yrði þannig fjögur þingsæti.
Það verður að teljast afar ólíklegt að Dögun og LV fari niður fyrir samtals 4%, jafnvel þótt margir ákveði á síðustu stundu að kjósa „taktískt“.  Þar er því varla um að ræða að VG og S geti bætt við sig nema í mesta lagi einu eða tveimur sætum.  Fyrir þá sem velta fyrir sér að kjósa taktíst, til að koma í veg fyrir meirihluta B og D, og velja á milli VG-S annars vegar og LV-Dögunar hins vegar, ætti niðurstaðan að vera nokkuð ljós:  Öruggasta leiðin er sú að kjósa LV eða Dögun; það er líklegra til að minnka þingstyrk B og D en að kjósa VG eða Samfylkinguna.

Deildu færslunni