Útlit er fyrir að það verði óvenjulegur fjöldi framboða í þingkosningum í vor, og því hafa sumir velt fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að sameina sum þeirra, til að auðvelda kjósendum valið. Þetta á auðvitað helst við framboð sem hafa keimlíka stefnu í mikilvægustu málunum.
Það er ljóst að nokkur framboðanna hafa í raun sömu eða mjög svipaða stefnu í ýmsum þeim málum sem margir kjósendur telja til þeirra mikilvægustu. Þetta á við um kvótamálin, stóriðjumál, náttúruverndarmál og stjórnarskrármálið (og almennt um valdakerfið og hlut almennings í ákvörðunum varðandi það), þar sem þessi framboð virðast í raun hafa mjög áþekka stefnu.
Það væri því gustukaverk gagnvart kjósendum að þessi framboð sameinuðust í eitt. Þau eru: Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstri Græn og Björt Framtíð.