Lýðræði og 5% reglan

Þegar þingsætum er úthlutað til lista í hverju kjördæmi fyrir sig, þá er notuð regla D’Hondts.  Hún er tiltölulega einföld:

Fyrsti maður á tilteknum lista fær stig sem nema öllum atkvæðum listans, annar maður fær stig sem nema helmingi atkvæðanna, sá þriðji fær 1/3, og svo koll af kolli.  Þannig er sérhverjum frambjóðanda í kjördæminu úthlutað stigum, og svo er frambjóðendum raðað í þingsætin eftir þessum stigum, þar til búið er að úthluta öllum sætum.
Í núverandi kerfi eru 54 kjördæmakjörnir þingmenn, en jöfnunarsætunum níu er úthlutað með það fyrir augum að jafna eins og hægt er hlutfallslegan þingstyrk miðað við atkvæðafjölda hvers lista á landsvísu, enda er markmiðið að skipting þingsæta endurspegli sem best heildarskiptingu atkvæða.  Undantekningin er 5%-þröskuldurinn; framboð sem nær ekki 5% á landsvísu fær engin jöfnunarsæti.
Ef öllum þingsætunum 63 væri hins vegar úthlutað á grundvelli reglu D’Hondts, út frá atkvæðafjölda á landsvísu, og enginn væri þröskuldurinn, þá hefðu þingsæti skipst með eftirfarandi hætti í nýafstöðnum kosningum:
     18  D  Sjálfstæðisflokkur
     16  B  Framsókn
      8  S  Samfylking
      7  V  Vinstri Græn
      5  A  Björt Framtíð
      3  Þ  Píratar
      2  T  Dögun
      2  I  Flokkur heimilanna
      1  L  Lýðræðisvaktin
      1  G  Hægri Grænir
Regla D’Hondts hyglir listum með mörg atkvæði nokkuð.  Önnur regla, sem gerir það síður og sem sums staðar hefur verið notuð, er regla Sainte-Laguës.  Þar fær fyrsti maður á lista öll atkvæði listans, næsti maður 1/3 þeirra, þriðji maður 1/5, fjórði maður 1/7 og svo koll af kolli, og svo er sætum úthlutað með sama hætti og lýst er að ofan, eftir stigunum sem reiknuð eru hverjum frambjóðanda.  Ef þessi aðferð hefði verið notuð með sama hætti og í dæminu hér að ofan hefði útkoman orðið þessi:
     17  D  Sjálfstæðisflokkur
     15  B  Framsókn
      8  S  Samfylking
      7  V  Vinstri Græn
      5  A  Björt Framtíð
      3  Þ  Píratar
      2  T  Dögun
      2  I  Flokkur heimilanna
      2  L  Lýðræðisvaktin
      1  G  Hægri Grænir
      1  J  Regnboginn
Það er ekki hægt með einföldum hætti að úrskurða hver sé réttlátasta reglan hér (það er hægt að hugsa sé ýmsar fleiri aðferðir en þessar tvær), en það má t.d. spyrja hversu mörg atkvæði séu að meðaltali á bak við hvern þingmann tiltekins lista.  Í fyrra dæminu hér að ofan eru neðstu listarnir tveir, Lýðræðisvaktin og Hægri Grænir, með fleiri atkvæði á bak við þingmenn sína en nokkur hinna listanna.  Í síðara dæminu er Regnboginn hins vegar með umtalvert færri atkvæði á bak við sinn þingmann en nokkur hinna listanna; þau eru bara 2021, en næstlægsta meðaltalið (hjá Lýðræðisvaktinni) er 2329.
Einhvern tíma seinna langar mig að fjalla svolítið um hversu (ó)lýðræðisleg 5% reglan er (og hversu fáránleg mér finnast rökin fyrir henni, miðað við skilvirkni þings og ríkisstjórna síðustu áratugina, ekki síst ef miðað er við skilvirkni Stjórnlagaráðs).  Í bili læt ég nægja að segja að mér finnst hræðilega ólýðræðislegt að allt það fólk sem kaus framboð sem ekki náðu inn á þing fái enga fulltrúa þar, í staðinn fyrir þá að minnsta kosti sex þingmenn sem hefðu átt að fást fyrir þessi atkvæði, samkvæmt fyrra dæminu hér að ofan, ef séð væri til þess að atkvæði allra kjósenda vægju jafnt.