Nýja ríkisstjórnin vill láta það verða sitt fyrsta verk að lækka stórlega veiðigjaldið sem samþykkt var á síðasta þingi, þrátt fyrir að útgerðin í landinu hafi rakað saman ofsagróða undanfarin ár og ekkert bendi til að lát verði á því. Ríkisstjórnin vill þannig minnka tekjur ríkisins fyrir afnot af þessari sameiginlegu auðlind landsmanna um marga milljarða á ári, þrátt fyrir að forystumenn stjórnarinnar séu síkvartandi yfir að staða ríkissjóðs sé slæm.
Viðbúið er að stjórnin reyni að koma þessu frumvarpi gegnum þingið á næstu dögum, og hætt er við að nógu margir stjórnarþingmenn muni styðja það til að það verði samþykkt. Sem betur fer er hægt að stöðva lög sem þingið samþykkir ef meirihluti kjósenda er þeim mótfallinn. Allt bendir til að svo sé, enda studdu meira en 80% kjósenda ákvæði um þjóðareign á auðlindum í þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrármálið 20. október í fyrra. Til að kjósendur fái að segja skoðun sína á málinu þarf forsetinn bara að synja lögunum staðfestingar. Það hefur sitjandi forseti nokkrum sinnum gert, og svo vel vill til að hann hefur tjáð mjög afdráttarlausa skoðun varðandi kvótamálin og þjóðaratkvæðagreiðslur, í útvarpsviðtali í fyrra (byrjið að hlusta á 12:27). Þar segir Ólafur Ragnar þetta:
„Það er erfitt að hugsa sér stærra mál en það, sem myndi vera eðlilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu ef að einhver hluti þjóðarinnar telur það mikilvægt. Þannig að ég tel að eðli málsins sé þannig að það séu fá mál jafn vel fallin til þess að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kvótamálin. Því þar er þjóðin þá, sjálf, að taka afstöðu til þess hvernig hún vill ráðstafa sameign sinni …“
Til að tjá skoðun sína á þessu máli, svo forseti þurfi ekki að velkjast í vafa um vilja stórs hluta kjósenda ef þingið samþykkir frumvarpið, er hægt að skrifa undir þessa áskorun. Athugið að þegar það er gert er sendur póstur á netfangið sem maður gefur upp og þá þarf að smella á slóð í póstinum til að staðfesta undirskriftina, svo hún verði skráð.