Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í gær að ekki væri hægt að koma nýrri stjórnarskrá í gegnum þingið fyrir kosningar. Margir hafa orðið æfir yfir þessu, þar á meðal sumt flokksbundið Samfylkingarfólk. Flestir stuðningsmenn flokksins virðast hins vegar algerlega ráðvilltir, þótt sumir reyni af veikum mætti að bera í bætifláka fyrir formanninn, en nokkrir meðal þeirra sem mest hafa völdin og áhrifin í flokknum taka beinlínis undir þessar yfirlýsingar formannsins, með sömu „rökum“.
„Rök“ þeirra sem reyna að verja þetta fótarskot formannsins snúast um tímaleysi, og að það sé „bullandi ágreiningur“ um málið. Hvort tveggja er ósatt. Það er nægur tími fram að kosningum til að koma málinu gegnum þingið, ef vilji er fyrir hendi, enda er hægðarleikur samkvæmt þingskaparlögum að stöðva það málþóf sem líklegt er að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn reyndu. Og það er eins lítill ágreininingur um þetta mál og hægt er að hugsa sér þegar jafn miklir hagsmunir eru í veði. Yfirgnæfandi meirihluti studdi nánast allar breytingartillögur Stjórnlagaráðs í þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var um málið í október, enda kemur það heim og saman við allt sem vitað er um afstöðu almennings í þessu máli, bæði út frá þjóðfundinum og skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið.
Það kemur varla nokkurri manneskju á óvart að það sé „bullandi ágreiningur“ við þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar um þetta mál. Að telja það fram sem rök þýðir ekki annað en að þeir sem það gera telja mikilvægara að hafa þessa flokka góða (væntanlega í von um velvild þeirra í sinn garð á næsta kjörtímabili) en að fara að vilja þess almennings sem trúði því að stjórnarflokkunum væri alvara með að samþykkja nýja stjórnarskrá.
Það sem vekur þó ekki síst athygli í þessu máli er að það er greinilegt að formaður Samfylkingarinnar hefur leikið hér einleik, sem komið hefur alveg flatt upp á flesta flokksmenn og greinilega marga ef ekki flesta þingmenn flokksins líka. Var þetta foringjaræði ekki eitt af því sem Samfylkingin ætlaði að leggja af, í kjölfar þeirrar endurskoðunar sem flokkurinn þóttist ætla að gera í kjölfar hrunsins?