Skreytilist hins djöfullega

Stjórnarflokkarnir hafa þegar svikið illilega í kvótamálinu.  Nú virðist endanlega ljóst að þeir ætli líka að svíkja í stjórnarskrármálinu.  Náðarhöggið veitti Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sem þar með sýnir hvað vakir fyrir honum með yfirlýsingum um að láta af „tilgangslausu stríði“ í pólitíkinni.

Hann ætlar að „ræða málið við formenn annarra stjórnmálaflokka“.  Allir vita hver afstaða þessara „annarra stjórnmálaflokka“ er til málsins, nefnilega að hafa að engu þann vilja yfirgnæfandi meirihluta kjósenda sem fram hefur komið með skýrum hætti, bæði í skoðanakönnunum, á þjóðfundi, í kosningum til Stjórnlagaþings og í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október.

Árni Páll ætlar að makka við Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn um framtíð málsins (les:  morðið og eftirfylgjandi dysjun), en gefa skít í vilja almennings.

Hann, eins og aðrir stjórnarliðar sem hafa verið að undirbúa svikin í þessu máli síðustu vikurnar, talar eins og ekki sé hægt að klára málið.  Það vita allir sem vilja vita að það er þvæla; það er hægðarleikur að klára málið á þeim tíma sem eftir er til kosninga, ef viljinn er fyrir hendi.  En Árni vill frekar sýna Framsókn og Sjöllum að hann sé alveg til í að taka þátt í morðinu, alveg eins og þeir sem vilja komast í raðir Vítisengla þurfa að vinna óhæfuverk sem þeir eru kannski ekkert áfjáðir í í sjálfu sér, en láta sig hafa til að sanna fyrir stóru strákunum að þeir geti líka, svo þeir fái að vera með.

Oft er sagt að pólitík sé list hins mögulega.  Það virðist nokkuð ofmælt þegar íslensk pólitík er annars vegar. Íslensk pólitík er sjaldan list hins mögulega, hún er oftast bara skreytilist hins djöfullega.

Deildu færslunni