Fyrir hundrað árum var sjálfsfróun af mörgum talin afar skaðleg, bæði líkamlegri heilsu og andlegri, sem og siðferði samfélagsins. Þeir sem slíkt stunduðu voru harðlega fordæmdir, ekki síst ungt fólk, sem hafði ekki þá reynslu lífsins sem gerir fólki auðveldara að láta slíkt sem vind um eyru þjóta, eða láta það að minnsta kosti ekki valda sér þeirri vanlíðan sem trúlegt er að þetta hafi valdið fjölda ungmenna.
Fyrir fjörutíu árum (og reyndar miklu lengur) var sama uppi á teningnum varðandi samkynhneigð; hún átti að vera „ónáttúruleg“ og stórhættuleg siðferði samfélagsins, enda voru þeir kirfilega fordæmdir sem grunur lék á að væru þess eðlis. Við vitum öll hvers konar viðurstyggð sú fordæming hafði í för með sér.
Í dag er það klámið sem fárast er yfir. Því er haldið fram að það eitri hugarheim þeirra sem þess „neyta“, og geri þá að ofbeldismönnum. Skilaboðin sem ungt fólk fær er að ef það horfi á klám sé það að gera eitthvað ljótt, sem muni gera það að vondu fólki.
Gætum við ekki reynt að sleppa þessum fimmtíu árum sem virðast svo oft þurfa að líða frá því að svona ofstækisbylgja rís sem hæst og þangað til hún fjarar út?