Í kvöldfréttum RÚV var langur kafli um skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið McKinsey hefur skrifað um íslenskt efnahagslíf. Þar er ýmsu haldið fram, bæði hlutum sem lengi hafa verið vitaðir og eru varla fréttaefni (Íslendingar vinna langan vinnudag og framleiðnin er lítil á vinnustund), og öðru sem vonlaust er að spá fyrir um arðsemina á, eins og rafmagnssölu um sæstreng til Evrópu.
Í fréttunum var þessi „skýrsla“ kynnt algerlega gagnrýnislaust (sem er því miður lenska í íslenskri kranablaðamennsku), og ekkert spurt um hver tilgangur fyrirtækisins gæti verið með því að skrifa slíkt rit.
Þótt við látum liggja á milli hluta „gáfulegar“ athugasemdir formanns Sjálfstæðisflokksins um málið (af hverju er það fréttaefni hvaða skoðanir hann hefur á skýrslu af þessu tagi?), þá er neyðarlegt í meira lagi að fjármálaráðherra skuli láta hafa sig í að enduróma hluta af því sem sagt var í þessu plaggi, eins og vel upp alinn páfagaukur, hollur húsbónda sínum.
Mig grunar að margir gangi út frá því að ráðgjafafyrirtæki eins og þetta hljóti að vera „hlutlaus“, en ekki að reyna að koma fyrir borð ár sinni eða einhverra viðskiptavina. Það er auðvitað ekki útilokað, en það er hlutverk fréttamiðils að spyrja gagnrýnininna spurninga, þar á meðal spurninga sem sumum finnast vera dylgjur. Það er hins vegar ekki hlutverk fréttamiðils að lepja hugsunarlaust upp hvað sem er frá fyrirtæki úti í bæ.
Þessi þrælslund og aumingjaskapur flestra íslenskra fjölmiðla, og RÚV þar á meðal, er ekkert nýtt. Þegar Ross Beaty kom til Íslands til að sannfæra landsmenn um að hann væri frelsandi engill sem hefði helst áhuga á að „byggja hér upp“ atvinnu til hagsbóta fyrir landsmenn fékk hann langt drottningarviðtal í Kastljósi þar sem spyrillinn nánast slefaði af aðdáun, og gleymdi öllum gagnrýnu spurningunum sem hann var (vonandi) búinn að útbúa. Sama gilti um flesta aðra fjölmiðla; engum virtist einu sinni hafa dottið í hug að gúgla nafn mannsins. Að minnsta kosti sögðu fæstir fjölmiðlar frá því sem þá kom í ljós á hálfri mínútu: Ross Beaty hafði aldrei byggt upp eitt eða neitt, hann hafði árum saman fengist við það eitt að braska með auðlindir.
Fyrirtækið McKinsey er ekki hlutlaus úttektarstofnun. Það þarf ekki að fara lengra en á Wikipedia til að finna ýmislegt misjafnt um það; þetta fyrirtæki var meðal annars með hið alræmda Enron í ráðgjöf, og fleiri vammir má lesa um það á þessari síðu. Jafnvel þótt þetta væri fyrirtæki með hreinan orðstír eru það svik við hlustendur RÚV að spyrja engra spurninga, skoða ekki forsögu þess og grafast ekki fyrir um hugsanleg markmið þess með þessari skýrslu.
Sumir sem ég hef spurt eftirfarandi spurningar hafa svarað henni játandi, en ég hef miklar efasemdir: Ef lítil dönsk anarkistasamtök hefðu skrifað plagg um skoðanir sínar á íslensku efnahagslífi, hefðu þau fengið tæplega fjögurra mínútna gagnrýnislausa umfjöllun í kvöldfréttum sjónvarps og heilar níu mínútur í kvöldfréttum útvarps? Af hverju ekki?