Skúli Helgason, klám og heiðarleiki

Í pistli í síðustu viku greindi ég frá póstskiptum mínum við Skúla Helgason alþingismann.  Í kjölfarið var lesið upp úr  pistlinum í útvarpsþættinum Harmageddon, sem leiddi til þess að Skúli fór fram á að fá að koma í þáttinn, og þar vorum við báðir næsta dag.  (Svolítill útdráttur úr þættinum og tengill á hann  koma hér í lokin.)

Eins og kom fram í pistli mínum hafði Skúli haft upp staðhæfingar í fjölmiðlum um áhrif kláms á hegðun, án þess að benda á nein gögn máli sínu til stuðnings.  Í Spegilsþættinum sem varð tilefni pistils míns hélt Skúli fram að klámvæðing væri „áhrifaþáttur í því hve mörg kynferðisbrotamál eru á Íslandi“ og fullyrti að „allir“ væru sammála um það.  Í ljós kom, í póstskiptum okkar, að hann hafði ekkert fyrir sér í þessu nema álit ýmissa aðila sem byggðu skoðanir sínar ekki heldur á neinum gögnum, auk þess að vera ekki beinlínis hlutlausir í afstöðu til kláms.
Í Harmageddonþættinum sló Skúli úr og í og sagði að hann hefði aldrei talað um „orsakasamhengi“, þótt hann héldi áfram að tala um klám sem „áhrifaþátt“ fyrir ofbeldi.  Hann talaði um þetta sem tvennt ólíkt, en útskýrði aldrei hver munurinn væri.
Annað ósæmilegt kappræðutrix sem Skúli viðhafði Í þessum þætti var að nefna dæmi um mann sem nýlega var dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn systurdóttur sinni, og sem í ljós kom að átti mikið af barnaklámi.  Augljós tilgangur með því að koma þessari sögu að var auðvitað að þetta ætti að segja eitthvað um samband kláms og kynferðisbrota.  Þegar Skúla var bent á rökvilluna bar hann á móti því að þetta hefði verið tilgangurinn, án þess þó að útskýra hver hann hefði verið.
Skúli sagðist líka myndu senda okkur nokkrar greinar eftir þáttinn, sem styddu staðhæfingarnar um að klám leiddi til kynferðisofbeldis.  Hann minntist sérstaklega á tiltekna „meta-analýsu“, sem hann áréttaði svo í póstinum sem hann sendi hana í.  Þetta notaði Skúli í þættinum sem „rök“ fyrir því að hann hefði rétt fyrir sér.  Skemmst er frá því að segja að þessi grein segir allt annað en Skúli hélt fram. Í niðurlagi greinarinnar stendur nefnilega þetta:
„The current findings do suggest that for the majority of American men, pornography exposure (even at the highest levels assessed here) is not associated with high levels of sexual aggression (although aggressive tendencies may be expressed in other behavioral manifestations than in actual aggressive behavior when there is not the full confluence of factors that elicits actual aggression).“
Eina önnur greinin sem Skúli benti mér á í pósti og sem var bitastæð (hitt voru vefsíður og ein BA-ritgerð sem ekkert var á að græða) var þessi.  Þar er, eins og yfirleitt í þessum bransa, ekki haldið fram að klámhorf leiði til ofbeldis, heldur er talað um „significant relationship between pornography consumption and attitudes supporting violence against women“ og „correlation between [violent/nonviolent] pornography and attitudes supporting violence against women“.  Hér er sem sagt verið að tala um fylgni, sem aldrei getur ein sér sýnt orsakasamband, né að annað sé „áhrifaþáttur“ í hinu.  Þar að auki er þessi fylgni á milli klámhorfs og „viðhorfa sem styðja ofbeldi gegn konum“.  Slík viðhorf eru vissulega ógeðsleg, en það er allt annað að hafa ógeðsleg viðhorf en að beita fólk ofbeldi.
Önnur meta-analýsa  segir þetta í útdrætti, þar sem niðurstöðurnar eru ansi misvísandi:
„This meta-analytic review examines the effect that exposure to pornography produces on aggressive behavior under laboratory conditions […]  The summary demonstrates a homogeneous set of results showing that pictorial nudity reduces subsequent aggressive behavior, that consumption of material depicting nonviolent sexual activity increases aggressive behavior, and that media depictions of violent sexual activity generates more aggression than those of nonviolent sexual activity.“
Athugið að ég held ekki fram að þessar greinar sanni eitt eða neitt, heldur er ég bara að benda á að það er alls ekki rétt sem Skúli hélt fram að til væru áreiðanleg gögn sem sýndu að klámhorf leiddi til kynferðislegs ofbeldis, og að þau gögn sem hann segir að geri það gera það alls ekki.  Staðan í þessu máli er einfaldlega sú að aldrei hefur verið sýnt fram á að klámhorf leiði til ofbeldis.  Sama gildir um ofbeldisfulla tölvuleiki og myndir, sem löngum var spáð að myndu leiða til aukins ofbeldis, en ekkert bendir til að það hafi gerst.
Eftir þáttinn minnti ég Skúla á að senda mér greinarnar sem hann hafði nefnt, og sem hann sagðist byggja afstöðu sína á, og ég bar um leið upp þrjár spurningar:
  • Í þættinum í gær sagðirðu að þú værir ekki að halda fram að um orsakasamhengi væri að ræða (milli klámhorfs og kynferðislegs ofbeldis), en hins vegar að um væri að ræða áhrifaþátt.  Ég geri mér ekki grein fyrir hver munurinn er á þessu.  Geturðu útskýrt fyrir mér hvað þú átt við?
  • Þú sagðir í gær eitthvað um að „sakfellingum hefði fækkað“ í kynferðisbrotamálum, og varst augljóslega með einhverjar tölur í huga.  Geturðu sagt mér hvaða tölur er hér um að ræða?
  • Einnig nefndir þú um daginn Gail Dines varðandi tengsl klámneyslu og kynferðisbrota.  Hvaða verk eftir Dines eru það sem þú átt við hér?
Skúli svaraði mér um hæl, og sendi lista yfir nokkrar greinar (sem ég minntist á hér að ofan), en hann svaraði ekki spurningum mínum.  Ég ítrekaði þær, en hef enn ekki fengið nein svör.
Mér finnst liggja í augum uppi af því sem Skúli hefur sagt um þetta mál (í fjölmiðlum, í tölvupóstum og í Harmageddonþættinum), að hann kemur óheiðarlega fram.  Það er ekki einsdæmi með íslenska stjórnmálamenn, og reyndar hræðilega algengt.  Þetta er plága sem eyðileggur vitræna umræðu í landinu, ekki síst vegna þess hve fólk í svona áhrifastöðum hefur mikil áhrif í umræðunni.  Kannski er þetta ólíkt öðru starfi Skúla, það veit ég ekki, en það fólk í áhrifastöðum sem sífellt kemur svona fram þurfum við að losna við úr þeim stöðum, og hinir þurfa miklu strangara aðhald almennings svo þeir hætti að eyðileggja umræðuna með lýðskrumi sínu.
———————————————————————
Hér á eftir fara nokkrar úrklippur úr því sem Skúli sagði í þættinum, með tímanum merktum um það bil.  Inn á milli set ég skáletraðar athugasemdir sem ég hef við málflutning Skúla.  Fyrst er hér svar Skúla við spurningu spyrils um hvort ekki skorti fræðileg gögn „til að styðja þessar fullyrðingar sem þið hafið verið að setja fram“:
3:40 Nei, það skortir alls ekki á nein fræðileg gögn.
07:00 Ég er enginn sérfræðingur eða fræðimaður í þessu og ætla ekki að kveða upp stóradóm um hvert orsakasamhengi sé á milli þessara þátta.
07:20 Það er augljóst af þeim vönduðu rannsóknum sem ég hef séð, ég get nefnt hérna til dæmis fína meta-analýsu sem var birt 2002, frá Neil Malamuth og fleirum, þar sem er farið í gegnum allan litteratúrinn, og skoðuð rökin með og á móti.  Þeirra niðurstaða er sú að það sé alveg skýrt að það séu mjög mikil tengsl á milli klámnotkunar, sérstaklega notkunar þar sem er um ofbeldisfullt klám að ræða. og síðan kynferðisofbeldis.
[Þetta er rangt, eins og bent er á að ofan]
10:10  Einar: Það eru engin gögn sem benda til þess að horf á klám, jafnvel ofbeldisfullt klám, leiði til þess að fólk fremji kynferðisglæpi.
Þetta er auðvitað fullkomin fjarstæða hjá Einari og ég mun senda honum rannsóknir sem sýna fram á hið gagnstæða í þessu máli.
[Gögnin sýndu ekki það sem Skúli segir hér, sjá að ofan] 
10:40  Ég tel að það sé gríðarlegur ábyrgðarhluti að fara með málflutning af því tagi sem Einar er að fara með hér, að halda því fram að það hafi engin áhrif á börn og óhörðnuð ungmenni að vera útsett fyrir grófu ofbeldisklámi á hverjum einasta degi, í hverri einustu viku …
[Ég hef aldrei haldið þessu fram, heldur sagt að Skúli geti ekki stutt staðhæfingar sínar gögnum.]
13:10  Ég hvet þig, og Einar, og þá sem eru að halda þessu fram, að sýna með óyggjandi hætti að það sé ekki samhengi á milli þessara þátta.
[Allt í einu er það sá sem gagnrýnir Skúla fyrir gagnaleysi sem þarf að sýna gögn um eitthvað sem viðkomandi hefur ekki haldið fram]
13:20  Ég vil draga fram líka að við erum að fá, í hverri einustu viku erum við að fá dóma, það var dómur sem féll í gær, í Hæstarétti, þar sem var staðfestur dómur Héraðsdóms Suðurlands, yfir 24 ára gömlum manni, sem var dæmdur fyrir að áreita fjögurra ára gamla systurdóttur sína kynferðislega.  Á heimili hans fundust þrjú þúsund ljósmyndir með barnaklámefni, sem hann hafði safnað í rúmlega tíu ár.
[Athugasemd frá mér um „röksemdafærsluna“]
14:20  Nei, ég er að tala um það að það skipti máli að það sé ekki stöðugur aðgangur fyrir börnin okkar og ungmenni að grófu ofbeldisklámi, að það geti haft áhrif á það hvert atferli þessara einstaklinga er í framtíðinni.
[Hér skolast svolítið til hvað er verið að ræða, en svo segir Skúli eftirfarandi:]
15:00  Þú ert að halda því fram með stöðugri vísun í að þetta sé orsakasamhengi.  Við erum held ég sammála um það að það sé ekki orsakasamhengi þannig að allir sem horfi á klám fari og brjóti af sér, en ég er að segja að þetta er einn af þeim áhrifaþáttum sem við verðum að taka mjög alvarlega, sérstaklega í sambandi við gróft ofbeldisklám og sérstaklega í samhengi við það að börn og ungmenni á Íslandi eru útsett fyrir þetta efni.
15:40 [Spyrill: Ertu ekki að lesa í þetta orsakasamhengi öfugt?]
Þið eruð mjög uppteknir af einhverju orsakasamhengi. […]  Við erum að tala um það hér, félagar, að það er mikil notkun á klámi hér á Íslandi, mikil notkun meðal barna og ungmenna. Og, við erum að skoða það, er þetta heilbrigða leiðin fyrir börn og ungmenni á Íslandi til þess að öðlast vitund um kynhneigð sína, og grundvöll til að móta bara afstöðu sína til kynlifs og til kvenna og karla og svo framvegis.
16:25  Um þetta snýst umræðan, hún snýst um það, er þetta einn af áhrifaþáttunum, og skiptir þá máli að börn og ungmenni eru að horfa á gróft ofbeldisklám, hefur það einhver áhrif á það að einhverjir úr þessum aldurshópi eru að síðan gerendur í kynferðisbrotamálum.  Sem við fáum upplýsingar um að er staðreynd.
[Ég segi eitthvað um orsakasamhengi]
17:25  Þú staglast á því að ég sé að tala um orsakasamhengi, sem ég hef ekki gert.  Við erum  með vitnisburð frá þeim aðilum sem eru að vinna með þessi mál í kerfinu hjá okkur að þetta sé áhrifaþáttur sem við þurfum að taka alvarlega og hann hafi meiri og meiri áhrif.  Auðvitað ætlum við ekki að kveða upp stóradóm um orsakasamhengi á milli þessara þátta.  Það er ekki hlutverk okkar í þinginu.

Deildu færslunni