Klámstjarnan Gail, Guðbjartur og Skúli

Það er unnið að því hörðum höndum þessa dagana að auka til muna stríðsreksturinn í „stríðinu við klámið“.  Helstu fréttir síðustu daga hafa verið af klámráðstefnu  sem haldin var af  velferðar- , innanríkis- og menntamálaráðuneytinu.  Aðalstjarnan á ráðstefnunni var Gail Dines, sem kynnt er sem fræðimaður (sem virðast miklar ýkur, ef ekki hreinn þvættingur, sjá hér að neðan), en sem hikar ekki við að ausa úr sér staðhæfingum um klám og skaðsemi þess, án þess að benda á áreiðanleg gögn máli sínu til stuðnings.

Í þessari frétt er til dæmis haft eftir henni að fullorðinsklám leiði karlmenn út í barnaklám.  Í þessu myndskeiði (ca. 18:20) gefur hún í skyn að rökuð kynfæri kvenna í klámi í dag muni leiða karla sem eignast dætur nú á dögum til að níðast kynferðislega á þeim.  Ekkert af þessu er stutt minnstu gögnum, né heldur neinum rökum (eru konur á kafi í kynferðislegri misnotkun á sonum sínum af því að karlar raka sig og líta því út eins og börn í framan?).

Gail rekur líka  fyrirtæki sem fæst við baráttu gegn klámi, sem aðallega virðist snúast um að koma henni sjálfri á framfæri.  Fletti maður hins vegar upp fræðistörfum hennar í kemur  ljós að   hún hefur nánast aldrei stundað nein slík störf.  Á Web of Science, sem er gagnagrunnur yfir nánast allar ritrýndar fræðilegar greinar í heiminum, fann ég bara þrjár greinar eftir Gail (efstu þrjár á þessari síðu), þar af er ein (sem ég hef ekki aðgang að) bara örstutt svar við annarri grein.  Önnur hinna er svar við gagnrýni á  tiltekna bók eftir Gail.  Í þeirri grein segir hún strax í upphafi að afstaða hennar byggi á „sögum þúsunda kvenna“ en ekki er sem sagt minnst á nein áreiðanleg gögn eða fræðimennsku („a set of theoretical positions that grew out of listening to the stories of thousands of women who are not credentialed, who do not publish in academic journals, and whose experiences are all too often dismissed as anecdotal.“)

Tveir  stjórnmálamenn hafa haft sig í frammi nýlega um klám  og meintar hræðilegar afleiðingar þess, þeir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Skúli Helgason þingmaður.  Þar er því miður sama uppi á teningnum; þeir styðjast, í afar dramatískum yfirlýsingum sínum, við ekkert annað en staðhæfingar ýmissa hagsmunaaðila, engar rannsóknir, engin áreiðanleg gögn.   Ef til vill finnst einhverjum þessi hystería bara hlægileg.  En, þótt það verði ekki rakið hér virðist eðlilegt að setja þetta í samhengi þess heiftúðuga áróðurs sem gerir karla sem hóp að ógeðslegum kúgurum sem beiti konur og börn kynferðislegu ofbeldi til að viðhalda „völdum“ sínum.  Sá áróður hefur skapað viðurstyggilegt andrúmsloft lyga og haturs.  Kannski eru þeir Guðbjartur og Skúli bara „nytsamir sakleysingjar“ í þessu ógeðfellda stríði, en slíkt er varla hægt að afsaka þegar fólk í valdastöðum á í hlut.

Guðbjartur sagði þetta í frétt í DV:

„Á að láta klámvæðinguna, sem verður sífellt áleitnari í daglegu lífi okkar, afskiptalausa eða á að skera upp herör gegn henni ekki síst til að verja börn fyrir óæskilegum ranghugmyndum um samskipti kynjanna og kynlíf?“

Og svo eftirfarandi í frétt í Mogga:

„Hjá ungum piltum hefur skapast óraunverulegur heimur og það er áhyggjuefni,“

Ég sendi honum í pósti eftirfarandi spurningar (lauslega umskrifað):

  • Hvað áttu við með klámvæðingu?
  • Hvað hefurðu fyrir þér í því að „klámvæðingin“ verði „sífellt áleitnari í daglegu lífi okkar“.
  • Hver er þessi „óraunverulegi heimur“ og af hverju telur þú að hann „hafi skapast“, þar sem ég geri ráð fyrir að þú eigir við eitthvað sem gerst hafi tiltölulega nýlega?

Svarið sem ég fékk frá honum var þetta:

„Sæll Einar
Ábengingar mínar um að unglingar, geti fengið ranghugmyndir um kynlíf af klámsíðum netsins, eru byggðar á samtölum mínum við ungt fólk, en eins og þú veist eflaust vann ég til margra ára með ungu fólki.

Bkv“

Ég skrifaði um hæl:

„Takk fyrir svarið. Hefurðu einhvers staðar gert grein fyrir niðurstöðum þínum, svo hægt sé að meta áreiðanleika þeirra?“

Hann svaraði því svo:

Sæll

Nei…

Bkv

Skúli sagði þetta í Speglinum, í viðtali um um feril kæra um kynferðisbrot:

„Það er mjög margt sem ég held að við þurfum að fara í gegnum; við þurfum að skoða auðvitað allt frá forvörnum í grunnskólum og upp í að takast á við klámvæðinguna sem allir eru sammála um að er örugglega áhrifaþáttur í því hve mörg kynferðisbrotamál eru á Íslandi, og síðan þurfum við að takast á við það að þolendur í kynferðisbrotamálum að þeir fái betri þjónustu í kerfinu hjá okkur, bæði á rannsóknarstigi og í dómskerfinu, til þess að tryggja það að þessi erfiða reynsla hún verði ekki enn erfiðari en þörf er á.“

Ég spurði hann þessa:

  • Hvers konar „forvarnir“ í grunnskólum telurðu að geti haft áhrif til bóta hér?
  • Hvað er þessi klámvæðing sem þú talar um?
  • Af hverju heldurðu fram að „allir“ séu sammála um að þessi meinta klámvæðing sé „örugglega áhrifaþáttur í því hve mörg kynferðisbrotamál eru á Íslandi“?
  • Á hverju byggirðu það sem virðist vera skoðun þín að þessi meinta klámvæðing komi kynferðisbrotum við?

Skúli svaraði ítarlega og hér eru svör hans og framhaldsspurningar mínar:

Sæll Einar,

Hér koma mín svör við þínum ágætu spurningum.

1.  Við þurfum að tryggja að börnin okkar og ungmenni fái kynfræðslu sem gerir þeim kleift að þróa sína eigin kynvitund og sjálfsmynd í kynferðismálum í stað þess að sú mynd sem þau fá að kynlífi sé fyrst og fremst í gegnum klámefni sem byggir á grófu ofbeldi og misþyrmingum.

Hefurðu eitthvað fyrir þér í því að sú mynd sem börn og ungmenni fái „sé fyrst og fremst í gegnum klámefni sem byggir á grófu ofbeldi og misþyrmingum“?  Ef svo er, hvað?

2.  Klámvæðingin vísar í þá þróun að ungt fólk í dag hefur greiðari aðgang að klámefni fyrir tilstilli netsins en nokkur dæmi eru um í sögunni.

Veistu eitthvað áreiðanlegt um neyslu ungs fólks á slíku efni?  Hvað?

Þetta framboð á klámefni er orðið svo mikið og aðgengið svo auðvelt að vel má halda því fram að klámið sé orðinn helsti vettvangur „kynfræðslu“ fyrir ungmenni í samtímanum.

Nei, það má ekki halda því fram nema maður búi yfir áreiðanlegri þekkingu um það.  Býrð þú yfir henni?

Annað sérkenni klámvæðingarinnar er að efnið er miklu grófara en það var, að því er virðist til að svara eftirspurn markaðarins  eftir stöðugt ágengara efni.  Sú mynd sem þetta grófa klámefni dregur upp af veruleikanum er hins vegar kolbrengluð því hún miðlar fyrst og fremst upphafningu á pyndingum og grófum misþyrmingum.

Hversu algengt er efni af þessu tagi (upphafning …)? Veistu eitthvað um algengi þess að ungt fólk sæki í slíkt efni?  Veistu um einhver áreiðanleg gögn sem benda til að þetta hafi neikvæð áhrif á kynhegðun?

3.  Það vakti athygli okkar á fundunum að það var samdóma álit fulltrúa lögreglu, Neyðarmóttöku, Stígamóta, Drekaslóðar og réttargæslumanna að klámneysla ungmenna væri beinn og vaxandi áhrifavaldur í kynferðisbrotamálum á Íslandi, ekki síst þar sem gerendur eru ungir (á aldrinum 12-17 ára).

 

Í mörgum tilvikum væru gerendurnir að líkja eftir aðstæðum sem þeir hefðu séð í klámmyndum á vefnum.

Áttu við að þessir hagsmunaaðilar séu annars vegar hlutlausir í afstöðu sinni, og hafi hins vegar eitthvað áreiðanlegt til að byggja á (annað en „álit“ sitt)?

4.  Þessir sérfræðingar og erlendir fræðimenn á borð við Gail Danes hafa að auki vísað í erlendar rannsóknir til staðfestingar á þessum tengslum klámneyslu og kynferðisbrota, en þær eru reyndar að stórum hluta 10-15 ára gamlar og ná því ekki að fanga til fulls þann veruleika sem við okkur blasir í dag, þar sem klámefnið er orðið miklu grófara og ofbeldisfyllra.  Það má því leiða getum að því að sambandið á milli kláms og kynferðisbrota kunni að vera enn sterkara í dag en áður.

Hvaða sérfræðinga áttu við hér?  Á hverju byggirðu það að Dines sé áreiðanlegur fræðimaður?

Nei, það má ekki leiða getum að einhverju ef Gail Dines þóknast að segja það, ef ekki er vísað í áreiðanlegar og umfangsmiklar rannsóknir.

Veistu um einhver áreiðanleg gögn sem benda til að það sé samband á milli kláms og kynferðisbrota (þ.e.a.s. að klámneysla stuðli að kynferðisbrotum)?    Ef svo er, veistu þá um gögn sem benda til þess að þessi áhrif „kunni að vera sterkari í dag“.

Bestu kveðjur,
Einar

Skúli svaraði þá þessu:

Ég hef bent þér á að allir þeir aðilar sem við fengum til fundar við okkur eru sammála um þessi vaxandi tengsl milli kláms og kynferðisbrota.   Ég hef reyndar eins og þú óskað eftir því að fá aðgang að erlendum rannsóknum sem styðja þeirra fullyrðingar og er tilbúinn að senda þér þær þegar þær hafa borist nefndinni,

Þá sagði ég eftirfarandi, en hef ekki fengið fleiri svör:

Ég vil hins vegar benda þér á að aðilarnir sem þið fenguð til fundar eru langt frá því að vera hlutlausir, og Stígamót eru reyndar með yfirlýsta stefnu sem fer þvert á þá afstöðu að styðjast eigi við áreiðanlegar rannsóknir en ekki pólitíska stefnu, auk þess sem samtökin gera sig sek um afar ógeðfellda hluti þegar þau tala opinberlega um drengi allt niður í tíu ára aldur sem kynferðisofbeldismenn, og byggja það eingöngu á frásögnum meintra þolenda.

Auk þessa vil ég spyrja þig:  Fenguð þið til fundar við ykkur einhverja kynfræðinga?  (Ekki kynjafræðinga, heldur kynfræðinga.)

Deildu færslunni