Á þriðjudaginn í síðustu viku var Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, í viðtali í Speglinum um tillögu Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Þar var hann meðal annars spurður um ákvæði um persónukjör í tillögunni, og svaraði svo:
„Niðurstaða allra þroskaðra lýðræðiskerfa er að flokkar gegni hlutverki í lýðræðislegum stjórnmálum sem ekki sé hægt að komast fram hjá. Þannig að ef við ætlum að byggja upp persónukjör þá á það að vera í stuðningshlutverki við hlutverk stjórnmálaflokka, en það á ekki að beinast að því að tæta í sundur starfsemi þeirra.“
Gunnar útskýrði ekkert hvernig þessi „niðurstaða“ hefði fengist (og ekki datt fréttamanninum í hug að spyrja), svo ég skrifaði honum og spurði. Póstskipti okkar set ég í athugasemd strax á eftir pistlinum. Rétt er að geta þess að seinni póst minn sendi ég tvisvar, fyrst sama dag og ég fékk svar hans við þeim fyrri, og svo aftur fjórum dögum síðar, í gær. Ég fékk ekkert svar við þessum síðari póstum.
Eins og sjá má í svari Gunnars við upphaflega póstinum bendir hann mér á það sem hann kallar „ágæta grein … sem lýsir … hvaða augum flokkar eru almennt litnir í þroskuðum lýðræðiskerfum“. Það hljómar auðvitað ekki sannfærandi, hvað þá „fræðilega“ að tala um að eitthvað sé „almennt álitið“, en ég las samt alla greinina. Hún fjallar aðallega um fjármögnun flokka og fjárhagsleg tengsl þeirra við ríkið, en lítið um það sem ég spurði um. Þó eru víða í henni staðhæfingar í eftirfarandi stíl:
„… það er afleiðing breyttrar afstöðu til flokka og lýðræðis að stjórnmálaflokkar eru í auknum mæli álitnir nauðsynlegar og æskilegar stofnanir fyrir nútímalýðræði.“
(„… it is as a result of changing conceptions of parties and democracy that political parties have come to
be perceived increasingly as necessary and desirable institutions for modern democracy.“)
Ekki eru færð nokkur rök fyrir þessum staðhæfingum neins staðar í greininni, né heldur útskýrt hvaða fólk þetta er sem hefur þessa afstöðu til flokka, og varla nokkurs staðar er einu sinni vitnað í nein önnur rit þessum staðhæfingum til stuðnings. Þetta er sem sagt sett fram með þeim hætti að ógerlegt er að líta á það sem niðurstöður af nokkrum rannsóknum og því liggur ekkert beinna við en að álykta að þetta séu einkaskoðanir höfundar. Greinin sem Gunnar sendi mér svaraði sem sagt alls ekki því sem ég spurði um, né heldur sýnir hún það sem hann heldur fram. Það er ekki góð fræðimennska.
Það virðist ljóst að Gunnar Helgi fór með tómt fleipur í þessari heiftúðugu árás sinni á tillögu Stjórnlagaráðs. Heiftúðugu segi ég, því hann talar um persónukjör eins og það muni „tæta í sundur starfsemi“ stjórnmálaflokka, án þess hann færi nokkur rök fyrir því, auk þess sem hann heldur fram að þessi persónulega afstaða hans sé hvorki meira né minna en „niðurstaða allra þroskaðra lýðræðiskerfa“. Hann predikar einnig, í beinu framhaldi af því sem hann segir um þessa „niðurstöðu allra þroskaðra lýðræðiskerfa“, að ef við ætlum að byggja upp persónukjör þá eigi það að vera í stuðningshlutverki við hlutverk stjórnmálaflokkanna, eins og hann sé eitthvert yfirvald í þeim efnum.
Það er sérlega óheiðarlegt af háskólamanneskju að koma fram með þessum hætti, kynnt sem sérfræðingur á umræddu sviði. Hvað Gunnari gengur til með þessari árás sinni er mér hins vegar ráðgáta.