Spillingin, fúskið og fjórflokkurinn

Tvær fréttir í gær voru um frekar ógeðfellda hluti: Annars vegar um hundruða milljóna sjálftöku slitastjórna, hins vegar um tvö þúsund og fjögur hundruð prósenta framúrkeyrslu við gerð hugbúnaðarkerfis (sem þar að auki hefur enn ekki verið klárað, þrátt fyrir yfirlýst verklok).  Til að bíta höfuðið af skömminni fylgdu í kjölfarið yfirlýsingar frá embættismönnum um að það gæti stórskaðað almannahagsmuni að almenningur fengi innsýn í þessi hagsmunamál sín. Þetta eru samt engin einsdæmi, því fréttir af þessu tagi hafa dunið á okkur frá hruni.

Nákvæmlega ekkert bendir til að breytingar séu í vændum á þeirri hrikalegu spillingu og fúski sem gegnsýrir íslensku valdakerfin, og sem þetta eru bara tvö dæmi um af mýmörgum.
Hefur einhver heyrt einhvern fjórflokkanna, þessara sem hafa farið með öll völd í landinu í áratugi, tala um að uppræta þessa spillingu og þetta fúsk?  Um einhver plön þessara flokka í þá veru?
Bara datt svona í hug að spyrja, ef ég skyldi hafa fylgst illa með …