Hið ómeðvitaða samsæri heimskunnar

Þótt ég sé með hálfgert ofnæmi fyrir hnyttnum tilvitnunum, vegna þess hve þær eru ofnotaðar (ekki síst ef maður ferðast um á Facebook), þá á ég mér samt uppáhalds „tilvitnun“.  Hún er svona á ensku: „Never attribute to conspiracy what can be adequately explained by stupidity“.  Þessu mætti snara svo á íslensku: „Ekki líta á það sem samsæri sem auðvelt er að útskýra með heimsku“.

Ég er sem sagt lítill aðdáandi samsæriskenninga.  Hins vegar er ég farinn að hallast æ meira að því að Ísland sé, eins og alltaf, alveg einstakt að þessu leyti.  Nefnilega að íslenska valdaklíkukerfið sé afar haganleg samsuða af samsæri og heimsku, þar sem flestir samsæringjanna eru of heimskir til að fatta hvað þeir eru að gera, frekar en að þeir séu hrein fúlmenni.  Dæmin eru enda óteljandi, og sínálæg.  Það nýjasta sem á vegi mínum varð var „frétt“ í ríkissjónvarpinu.  Hún fjallaði, á algerlega gagnrýnislausan hátt, um mikla skýrslu „sérfræðinganefndar“ á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja, um það „hvort verðtrygging sé nauðsynleg á Íslandi.“
Ríkissjónvarpinu finnst sem sagt sjálfsagt að útvarpa sem „frétt“ einhliða áróðri voldugustu hagsmunaaðilanna í málinu.  Til að bíta höfuðið af skömminni er í „fréttinni“ viðtal við Ásgeir Jónsson, hagfræðing, en hann er einn af forsprökkum braskarafyrirtækis sem kallast Gamma, og er annar þeirra tveggja starfsmanna fyrirtækisins sem báru meginábyrgð á ritun skýrslunnar.
Ásgeir þessi var forstöðumaður greiningardeildar Kaupþings (og svo Arion banka) í nokkur ár fyrir og eftir hrun.  (Þetta er sami maðurinn og Landsvirkjun réð til að lofa landsmönnum gulli og grænum skógum, á borð við olíuauð Norðmanna, ef fyrirtækið fengi bara að virkja allt sem hreyfist í landinu.  Og hann er líka einn af „sérfræðingunum“ sem töldu að breytingar sem rætt var um á Rammaáætlun fyrr í ár gætu „kostað íslenskt samfélag“ allt að 270 milljarða á fjórum árum.)
Mér dettur ekki í hug að halda að fréttafólk RÚV sé svo heimskt að það sjái ekkert athugavert við að birta áróðurstilkynningar hagsmunaaðila sem fréttir, og viðtöl um horfur í efnahagsmálum við fólk sem hefur sannað eins vandlega og mögulegt er að það er algerlega ófært um spá fyrir um þróun fjármálakerfisins.  Á hinn bóginn vil ég heldur ekki trúa því að þetta fólk taki viljandi þátt í því viðurstyggilega samsæri sem það er í raun að tala eins og ekkert hafi gerst og láta sama fólkið og rústaði fjármálakerfi landsins, og efnahag fjölda saklauss fólks, valsa um í fjölmiðlum eins og einhverja áreiðanlega spekinga.
Hvað á maður þá að halda?  Er þetta hið ómeðvitaða samsæri heimskunnar sem verður til þegar saman fer grunnhyggið fréttafólk og voldugir, en jafn grunnhyggnir, vandræðamenn sem leika lausum hala þrátt fyrir svarta fortíð?