Hvað má forsetinn gera?

Því var lengi haldið fram að 26. grein stjórnarskrárinnar (sem fjallar um hvað gerist ef forseti synjar lögum staðfestingar) væri ekki „virk“, þ.e.a.s. að forseti gæti ekki neitað að skrifa undir lög. Annað er komið á daginn, og enginn reynir lengur að halda fram að forseti hafi ekki þennan rétt.

Í 25. grein stjórnarskrárinnar stendur þetta:

Forseti lýðveldisins getur látið leggja fyrir Alþingi frumvörp til laga og annarra samþykkta.

Þetta gæti varla verið skýrara: Forseti getur lagt fram frumvörp sem Alþingi verður þá að fjalla um. Auðvitað dagar fullt af frumvörpum uppi á Alþingi, svo þingheimur gæti þannig sniðgengið frumvörp frá forseta. En ef forsetinn beitti þessu ákvæði eins og núverandi forseti hefur beitt synjunum, þ.e.a.s. í samræmi við augljósan meirihlutavilja þjóðarinnar, þá yrði erfitt fyrir Alþingi að hunsa slík frumvörp.

Hér er dæmi um frumvarp (í grófum dráttum) sem forseti gæti lagt fram: Allur fiskveiðikvóti verður innkallaður, í jöfnum skrefum á næstu tíu árum.

Áhugavert væri að heyra hvort forsetaframbjóðendur hyggjast nýta þennan möguleika sem stjórnarskráin færir forsetanum.

Deildu færslunni