Hlutafélög og upplýsingalög

Í þessum nýlega dálki í Guardian er varpað fram nýstárlegri en tímabærri hugmynd. Í stuttu máli:

Hlutafélög grundvallast á því að eigendurnir, þeir sem hirða gróðann, bera enga ábyrgð á þeim skuldum sem þeir safna, eða þeim skaða sem þeir geta valdið, ef allt fer á versta veg. Hvort tveggja lendir á samfélaginu og/eða fólki sem ekkert hefur til saka unnið, né heldur nokkurn tíma deilt gróðanum. (Enda mun Adam Smith, sem frjálshyggjupostular vitna gjarnan í, hafa verið andvígur hlutafélögum, af því að eigendur þeirra bæru ekki ábyrgð á afleiðingum gerða sinna.)

Af því að hlutafélögin njóta þannig verndar samfélagsins, og aðrir þurfa að bera skaðann sem þau valda, þá er óeðlilegt annað en að almenningur hafi fulla innsýn í starf þeirra. Þess vegna ættu upplýsingalög (sem eru allt of veik á Íslandi, en það er annað mál) að ná yfir hlutafélög líka. Til að fara ekki allt of bratt í þetta mætti byrja á bönkunum. Þeir hafa valdið almenningi gríðarlegum skaða, og eru enn með ríkisábyrgðir, svo það er eðlilegt að þeir þurfi að starfa alveg fyrir opnum tjöldum.

Deildu færslunni