Maltflöskuaxlir: Hrunverji hannar Nýja Ísland

Í dag kynnti efnahags- og viðskiptaráðherra ríksstjórninni skýrslu sína til Alþingis um „framtíðarskipan íslenska fjármálakerfisins og opinbert eftirlit með því.“ Það er athyglisvert, og fremur sorglegt, að með í kynningunni, væntanlega vegna hlutverks hans í þessu starfi á næstunni, var Jón nokkur Sigurðsson. Jón er meðlimur í þriggja manna hópi sem, samkvæmt  tilkynningu frá Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, á að fjalla um þessa skýrslu og „gera tillögur um hvernig best fari á því að setja samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á fjármálamarkaði.“

Jón er í frétt ráðuneytisins einungis kynntur sem „fv. forstjóri Norræna fjárfestingarbankans“. Það hefur kannski þótt of óþægilegt að segja frá því að Jón var stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins allt árið 2008, og rúmlega það. Um mitt ár 2008 birtist viðtal við Jón í áróðursbæklingi Landsbankans þar sem lýst var útrás bankans með Icesave-reikninga í Hollandi. Það er auðvitað nógu slæmt, og ætti að vera brottrekstrarsök, að stjórnarformaður FME láti nota sig í áróðursskyni fyrir eitt af fyrirtækjunum sem FME átti að hafa eftirlit með. Hitt er verra að Jón segir í viðtalinu að fjárhagur íslensku bankanna sé í aðalatriðum traustur („Finances of the Icelandic banks are basically sound“). Hafi hann vitað sannleikann var hann að ljúga. Hafi hann ekki vitað hvað var að gerast var hann greinilega óhæfur til að gegna starfi sínu.

Ég efast ekki um að Jón sé (í einhverjum skilningi) vandaður og fróður maður. Og sjálfsagt hefði verið að hópurinn sem hann á nú að sitja í ræddi við hann um hvað fór úrskeiðis í aðdraganda hrunsins. En það er blaut tuska í andlitið á öllum þeim sem hafa látið sig dreyma um Nýtt Ísland, í stað hins gamla og gerspillta, að fela einum af þeim sem tóku þátt í lygaherferðinni fyrir hrun að „gera tillögur um hvernig best fari á því að setja samræmda heildarumgjörð laga og reglna um alla starfsemi á fjármálamarkaði.“

Það er dapurlegt að Steingrímur J. skuli setja hrunverja í að skipuleggja fjámálakerfi framtíðarinnar. Og, þótt Jón hafi starfað lengi erlendis virðist hann ekki sjálfur hafa lært hvað það þýðir að taka ábyrgð á gerðum sínum, og þar með afleiðingunum af þeim. Þegar kemur að því að axla ábyrgð í raun, þá gildir enn um flest valdafólk á Íslandi að það er, eins og ein Facebook-vinkona mín orðaði það í dag, „með axlir eins og á maltflösku“.

Deildu færslunni