Snorri, hatursáróður og ríkiskirkjan

Nýlega var Snorri í Betel sendur í launað leyfi úr starfi sínu sem kennari, vegna bloggpistils sem hann birti. Hafi ég skilið rétt var það vegna eftirfarandi orða:

„Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg.“

Mér finnst í meira lagi vafasamt að refsa manni fyrir að halda því fram að þetta sé „Kjarninn í sjónarmiði evangelískra“. Ekki síst vegna þess að ég sé ekki að hér sé um að ræða staðhæfingar sem fallið geti undir hatursáróður, því eingöngu er verið að lýsa afstöðu tiltekins trúarhóps. Þessi afstaða byggist vissulega á viðurstyggilegu manneskjuhatri, en ég fæ ekki séð að verið sé að halda einhverju fram sem staðreyndum, hvað þá að hvetja til ofsókna gegn samkynhneigðum. Hvað er „synd“, og hvernig þessi trúarhópur telur að guð hans refsi fyrir syndina, kemur okkur hinum nefnilega ekkert við.

Það vill gleymast að tjáningarfrelsið er ekki til fyrir þá sem okkur geðjast að, heldur hina sem okkur finnst hafa ógeðfelldar skoðanir. Þess vegna vona ég að Snorri kæri úrskurðinn, svo það fáist á hreint hvar mörk tjáningarfrelsisins liggja á Íslandi.

Þetta er hins vegar ekki helsta efni þessa pistils. Heldur hitt, að Snorri var einungis að benda á það sem sagt er með ótvíræðum hætti í Biblíunni. Bókin sú er yfirlýst trúarrit íslensku ríkiskirkjunnar, sem þýðir meðal annars þetta:

Þjóðkirkjan viðurkennir heilaga ritningu Gamla og Nýja testamentisins sem orð Guðs og sem uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.

Vegna þess að Snorri var að lýsa afstöðu sem birtist í Biblíunni verður það áleitin spurning, ef litið er á þessa afstöðu sem ólögmætan hatursáróður, hvort ekki ætti að banna Biblíuna (sem ég er ekki hlynntur, en það er annað mál). Það er hins vegar ekki heldur efni þessa pistils …

Það er óþarfi að tína hér til hin vel þekktu dæmi um hatursboðskap Biblíunnar og þá ógeðfelldu afstöðu sem þar birtist í mörgum málum, t.d. gagnvart samkynhneigðum og konum, og almennt um þær viðbjóðslegu refsingar sem fyrirskipaðar eru þeim sem fara út af sporinu.

Sem betur fer gildir það um marga, og líklega langflesta, presta kristinnar kirkju á Íslandi að þeir hafna algerlega haturs- og kúgunarboðskapnum sem svo mikið er um í Biblíunni, og margir þeirra eru meira að segja áberandi í baráttu fyrir ýmsum þeim mannréttindum sem fara í bága við boðun Biblíunnar. Í því ljósi er hins vegar óskiljanlegt af hverju þeir lýsa því samt yfir að þeir líti á þetta rit sem „uppsprettu og mælikvarða boðunar, trúar og lífs.“

Það vill svo til að Biblían er ekki óbreytanlegt tvö þúsund ára gamalt rit. Á það er m.a. bent hér. Það er því ljóst að kirkjan telur sig hafa svigrúm til að endurskoða hvað eigi að tilheyra þessu riti sem hún grundvallar afstöðu sína á.

Mér er að vísu fyrirmunað að skilja hvernig sæmilega hugsandi fólk, og þá sérstaklega þeir sem augljóslega eru miklir manneskjuvinir, lætur sér detta í hug að hampa Biblíunni i heild, þótt þetta fólk aðhyllist margt af því fallega sem þar er að finna. En, það væri áhugavert að heyra skoðanir þess frjálslynda fólks á þessu máli. Sérstaklega ef það er tilbúið til að rökræða þessi mál, frekar en að flýja inn í heim hálfkveðinna vísa og þokukenndra þversagna, eins og algengt er meðal forsvarsmanna kirkjunnar, t.d. í þessu litla dæmi.

Því skora ég hér með á alla „frjálslynda“ presta og guðfræðinga að útskýra fyrir okkur af hverju þeir stíga ekki skrefið til fulls og setja saman það sem þeir í raun líta á sem trúarrit sitt, og birta það opinberlega, frekar en að dragnast áfram með núverandi Biblíu sem boðar hatur og refsingar á svo mörgum hópum fólks.

 

Deildu færslunni