Samkvæmt þessari frétt hefur stjórn Bankasýslunnar neitað að birta upplýsingar um umsækjendur um stöðu forstjóra, þótt umsóknarfrestur sé löngu liðinn. Erfitt er að sjá annað en að það fari í bága við 4. tölulið 4. greinar Upplýsingalaga, þar sem stendur:
… þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.
Ég fæ ekki betur séð en að stjórn Bankasýslunnar sé að taka sér vald sem hún hefur ekki, með því að draga að birta þessar upplýsingar. Þetta er reyndar lenska í íslenskri stjórnsýslu, og sýnir glöggt hvað er að varðandi upplýsingamál á Íslandi, og hversu ósiðlegt viðhorf ríkir til hlutverks þeirra sem sitja í opinberum embættum:
Íslenskt valdafólk virðist ganga út frá því að valdið sé þess til að ráðskast með, en ekki að það eigi að þjóna almenningi í störfum sínum. Meðan það viðhorf er ríkjandi er því miður lítil von til að upprætt verði sú spilling og það fúsk sem hefur gegnsýrt stjórnsýsluna.