Brottrekstrarsök Ríkislögreglustjóra

Vera má að ég hafi misskilið eitthvað í íslensku réttarfari og stjórnsýslu, og vona að einhver leíðrétti mig þá, en svona sýnist mér þetta líta út:

Ríkisstofnunum ber að afhenda Ríkisendurskoðun gögn sem síðarnefnda stofnunin biður um til að geta sinnt hlutverki sínu.  Þetta stendur nefnilega í lögum um Ríkisendurskoðun:

7. gr. Ríkisendurskoðun getur krafist reikningsskila af stofnunum, samtökum, sjóðum og öðrum aðilum sem fá fé eða ábyrgðir frá ríkinu og ber þeim þá skylda til að afhenda Ríkisendurskoðun umbeðin gögn.

Ríkislögreglustjóri neitar að afhenda gögn sem Ríkisendurskoðun hefur beðið um.

Þótt Ríkisendurskoðandi sjálfur gæti hugsanlega verið vanhæfur til að fjalla um viðkomandi mál þýðir það ekki að Ríkisendurskoðun sé vanhæf, og  útilokað virðist að það geti spillt málinu að Ríkisendurskoðandi fái að sjá umrædd gögn, jafnvel þótt hann yrði úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um málið sjálfur.

Ríkislögreglustjóri er því að brjóta lög með því að neita að afhenda gögnin.

Ríkislögreglustjóra sem brýtur lög, og þrjóskast við þrátt fyrir ítrekanir, ætti að reka umsvifalaust.