Tölurnar í eftirfarandi sögum eru ekki nákvæmar, en nógu nærri lagi til að kjarni málsins sé réttur.
Manneskja A keypti, fyrir hrun, íbúð sem kostaði 21 milljón. Hún átti 7 milljónir sjálf sem hún setti í þetta, og tók 14 að láni, með verðtryggingu. Lánið var sem sé fyrir 67% af andvirði íbúðarinnar, sem telst yfirleitt varkárt í slíkum viðskiptum, í löndum þar sem efnahagslífið er ekki í tómu rugli, og þar sem hægt er að treysta stjórnvöldum til að gera allt sem þau geta til að borgararnir lendi ekki í stórum stíl í óyfirstíganlegum vandræðum ef þeir haga sér skynsamlega.
Núna er íbúðin metin á 16 milljónir, en skuldin er komin í 20. Það sem var 7 milljóna eign er orðið að 4 milljóna skuld. Tapið er 11 milljónir. Samt hafði A hagað sér með afar ábyrgum hætti, miðað við það sem gert er ráð fyrir í löndum með alvöru efnahagsstjórn og stjórnvöld sem hafa einhverja sjálfsvirðingu.
Manneskja B , sem einnig átti 7 milljónir, keypti ekki íbúð, heldur geymdi féð í banka. Innistæðutryggingar hefðu líklega átt að tryggja um þriðja hluta fjárins í hruninu, en ríkisstjórnin ákvað að allt skyldi tryggt (hjá þeim sem áttu innistæður á Íslandi). Á rúmum tveim árum eftir hrun fékk B eina og hálfa milljón í vexti frá bankanum, svo milljónirnar 7 urðu að 8,5.
Það hefur verið deilt um nýlega útreikninga Hagsmunasamtaka Heimilanna varðandi verðtryggingu. Það er aukaatriði hér, því staðreyndirnar tala skýru máli: Rîkisstjórnin ákvað eftir hrun að tryggja hagsmuni fjármagnseigenda, en setja fjöldann allan af fólki sem hafði keypt fasteign í góðri trú, og með ábyrgum hætti, út á guð og gaddinn.
Það var hryllileg skammsýni, ef ekki svívirðileg afglöp, að taka verðtryggingu lána ekki úr sambandi strax eftir hrun. Það hefði verið hægðarleikur, úr því hægt var að yfirtaka allt bankakerfi landsins á hálfum sólarhring, auk þess sem skuldir fjölmargra milljarðamæringa, sem enn eru fokríkir, hafa verið afskrifaðar. Í ljósi þess er bæði rangt, og fullkomlega siðlaust, að halda fram að ekki sé hægt að leiðrétta lán þess saklausa fólks sem margt er að kikna undan byrðunum af verðtryggðum lánum. Það er hægt að afnema verðtrygginguna í dag, og það er hægt að niðurfæra lán þeirra sem sáu þau stökkbreytast. Þess vegna ættum við sem flest að skrifa undir áskorun Hagsmunasamtaka Heimilianna þessa efnis. Hún er hér.