Björn Ingi Hrafnsson er nýlega orðinn einn af eigendum Eyjunnar. Hann er líka stjórnarformaður Eyjunnar og einnig Vefpressunnar, sem er eigandi Eyjunnar, Pressunnar og fleiri vefmiðla. Auk þessa titlar Björn sig „útgefanda“ Eyjunnar. Það er ekki alveg nýtt á Íslandi, því Óskar Magnússon tók sér þennan titil á Morgunblaðinu skömmu áður en Davíð Oddsson var gerður að ritstjóra, en þetta er líka þekkt á nokkrum frægum dagblöðum erlendis, eins og New York Times og Washington Post. Þessi titill sem Björn hefur sæmt sig bendir til að hann ætli að hafa afskipti af ritstjórnarstefnu Eyjunnar eða jafnvel ákvarða hana einn.
Því er ástæða til að þýfga Björn um stefnu hans á þessum vettvangi, svo lesendum Eyjunnar megi ljóst vera við hverju er að búast. Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að hér varð nýlega efnahagshrun, sem hefur eðlilega haft mikil áhrif á fjölmiðlun í landinu, og mun hafa lengi enn, enda verða eftirköst hrunsins væntanlega eitt af helstu umfjöllunarefnum fjölmiðla næstu árin.
Björn hefur ekki verið stikkfrí varðandi hrunið og álitamál sem upp hafa komið í tengslum við það. Hann lék talsvert hlutverk í stjórnmálum Reykjavíkurborgar skömmu fyrir hrun, þar sem afdrifaríkar ákvarðanir voru teknar um Orkuveitu Reykjavíkur, og einnig hafa verið fréttir í fjölmiðlum um óeðlileg kúlulán sem Björn á að hafa þegið,
Það er óþægilegt, svo ekki sé kveðið fastar að orði, þegar fólk með fortíð í forystu stjórnmálanna, og tengsl við umdeilda fjármálafyrirgreiðslu í darraðadansinum fyrir hrun, leggur undir sig fjölmiðla.
Því er hér með skorað á Björn Inga að hann lýsi með skýrum hætti þeirri stefnu sem fylgt verður í ritstjórn Eyjunnar, og ennfremur að hann geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi eigin fjármálagjörninga síðustu árin, og hvernig mál tengd þeim standa í dag.
PS. Svo þetta kæmist örugglega til skila hef ég sent þennan pistil Birni Inga, og Karli Th. Birgissyni, ritstjóra Eyjunnar.