Þorsteinn Már — græðgin og reiðin

Þorsteinn Már Baldvinsson varð milljarðamæringur á kvótakerfinu, í boði þjóðarinnar. Hann var stjórnarformaður Glitnis í hálft ár áður en bankinn var yfirtekinn af ríkinu, og starfsemi þess banka kostaði þjóðina tugi eða hundruð milljarða, ekki síst vegna þeirra blekkinga og svika sem stunduð voru á meðan Þorsteinn bar ábyrgð á bankanum. Þrátt fyrir þetta hefur þjóðin ekki sýnt honum sérlega mikla reiði.

Vel má vera að Þorsteinn hafi komið góðum hlutum til leiðar í fiskveiðum og fiskvinnslu á Íslandi. En hann fann ekki upp fiskveiðar, og hann færði þessari þjóð ekki stórkostlegar nýjungar sem hún nyti góðs af í stórum stíl. Þorsteinn efnaðist á því að geta ausið endurgjaldslaust úr óþrjótandi auðlind, sem þjóðin leyfði honum að gera.

Flestir geta reiðst, og það er fyrirgefanlegt, ef beðist er fyrirgefningar, eins og búast má við að Þorsteinn muni gera, vegna framgöngu sinnar á Akureyri í gær. Vel má líka vera að græðgi sé ekki það fyrsta sem þeim dettur í hug sem þekkja hann.

En þeirri grægði sem felst í kröfu kvótahafa um að fá afgjalds- og endalaus afnot af fiskveiðiauðlindinni verður að linna. Og gott væri að þeir sem orðið hafa stórefnamenn sakir þessarar gjafmildi þjóðarinnar, og voru þar að auki forystumenn bankanna sem rústuðu efnahag hennar, hafi hemil á reiði sinni þegar þjóðin ræðir um að minnka ofsagróða þeirra. Annars er hætt við að þeir verði kaffærðir af þeirri réttlátu reiði sem ólgar með þjóðinni í dag.

Deildu færslunni