Búrkur, skíðamenn og skammdegi

Bæði Ingibjörg Sôlrún Gísladóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir vilja banna konum að klæðast búrkum á Íslandi.  Þorgerður virðist telja að slíkt bann sé í lagi af því að búrkur falli ekki að íslenskri menningu, sjá hér. Ingibjörg er svolítið almennari, og talar um bann við að fólk hylji andlit sitt, af því að „við þurfum líka að sjá framan í fólk á opinberum fundum en ekki búa við það að hluti fundarmanna sé með andlitsgrímur sbr. fund í Iðnó“ eins og fram kemur hér.

Það er (vonandi) útilokað að setja lög sem banna fólki að klæðast tiltekinni tegund af fötum, þótt hins vegar væri hægt að banna klæðnað sem hylur andlit fólks, enda eru slík ákvæði þegar í lögum, nefnilega getur lögregla bannað slíkt „ef til óspekta horfir á opinberum samkomum.“

Vandamálið við lög af þessu tagi er að ef fólki er bannað að hylja andlit sitt á opinberum stöðum þá verður slíkt bann að vera almennt, svo ekki sé um að ræða óeðlilega mismunun á grundvelli skoðana eða trúarbragða.  Því hlyti að vera bannað að hylja andlit sitt eins og fólk gerir gjarnan á skíðum eða í annarri útivist í köldu veðri.  Það þyrfti þá líka að banna fólki að hylja andlit sitt að mestu leyti á götum úti eins og margir gera þegar napurt er í því skammdegismyrkri sem gerir enn erfiðara að greina andlit fólks.

Engum dettur í hug að banna fólki að hylja andlit sitt á almannafæri til að verjast kulda.  Þess vegna er ekki stætt á því að banna búrkunotkun, því það samræmist ekki hugmyndum um frelsi og mannréttindi að mismuna fólki eftir trúarbrögðum eða öðrum skoðunum.

Þótt okkur finnist mörgum búrkur jafn óskemmtilegur klæðnaður og þeim stöllum Þorgerði og Ingibjörgu, ekki síst vegna þeirra viðhorfa til kvenna sem þær eru oftast tjáning á, þá eru sem betur fer miklu færri sem vilja lögfesta þá kúgun sem  Þorgerður og Ingibjörg tala fyrir.  Skoðanir Þorgerðar á því hvað sé passandi fyrir íslenska menningu og kvenfrelsishugmyndir eru ekki rétthærri hugmyndum annarra, og ef Ingibjörgu finnst vont að vera á fundum þar sem sumir fundargestir kjósa að hylja andlit sitt, þá er til einföld lausn á því. Hún getur setið heima.

Deildu færslunni