Sólin

Þegar þú vaknar
vaggar þér bátur á öldum.
Framundan fífilbrekka
og iðjagrænn lundur
og þar sem þú hefur numið tungumál fugla
veistu að hér ríkir friður og fegurðin ein.

Tvö börn koma hlaupandi á móti þér
drengur og stúlka.
Þau vaða út í fljótið,
taka þig hvort við sína hönd
og leiða þig til lands,
hér hefur vorað á meðan þú hvíldist
og sólin slær koparbjarma
á ylvolga moldina undir fótum þínum.

Börnin leiða þig að lítilli tjörn
og þar sestu niður og horfir á þau
þar sem þau hlaupa hlæjandi út í vatnið.
Þau hverfa í djúpið
og þegar gárunar hjaðna
sérðu spegilmynd þína á fletinum.
Þú ert engill með húfu í vorgrænum kjól
og þú stígur upp úr vatninu og bendir til himins.
Þar er ernir á sveimi yfir lundinum,
þeir verpa eggjum í ónotuð mjaðarker
sem skáld hafa skilið hér eftir, segir hún þér.

Og spegilmyndin leiðir þig í lundinn
þið finnið arnaregg í mjaðarkeri
og að brugga skáldamjöð
það skal hún kenna lærlingi sínum líka.

Setjið einn kaleik vatns
og annan af eldi í mjaðarker.
Bætið arnarsaur á sverðsoddi samanvið
og einum skýhnoðra ókembdum.
Hrærið með bjarkarkvisti
þar til mjöðurinn verður samloðandi, áfengur og gullinn að lit.

Þá leistu í augu hennar
og sást sjálfan þig speglast.
Yfir andlit hennar færðist ljómi:

Hún var sólin sjálf.